Um samskiptin milli ábúenda Drangshlíðar, Skóga og Skarðshlíðar

Maí 2020

Um samskiptin milli ábúenda Drangshlíðar, Skóga og Skarðshlíðar

ÞÍ. Jarðaskjöl. Rangárvallasýsla. A/21/52.

Jarðaskjalið, sem hér er fjallað um, var ritað 28. júní árið 1777 og er varðveitt með jarðaskjölum Rangárvallasýslu í Þjóðskjalasafni Íslands. Skjalið ber það með sér að það er einhvers konar yfirlýsing um landamerki og landnot jarðanna Drangshlíðar og Skóga. Í því eru nefnd, til vitnis um að þar sé rétt farið með, nöfn tveggja kvenna og þriggja karla. Eina ártalið sem sem er í skjalinu er ártalið sem það var skrifað. Í skjalinu eru frásagnir af einu og öðru í samskiptum milli bæjanna Drangshlíðar og Skóga í Rangárvallasýslu. Fremst í skjalinu er frásögn af því hvernig konungur eignaðist jarðirnar Drangshlíð, Skóga, Berjanes, Hefðarskála (kallast Hörðuskáli 1777), Stóru Mörk og Eystri-Skóga en síðastnefndu jörðina gaf kóngur Hólmaselsprestakalli.

Í skjalinu segir að bóndinn í Skógum, sem átti allar fyrrnefndar jarðir, hafi ásamt syni sínum verið að járna hest við Stórukletta í Drangshlíðardal og í bræði sinni drepið son sinn og hafi klettarnir síðan verið kallaðir „Grimdar Steinar.“[1] Afleiðing þessa atburðar var sú að allar eignir bóndans í lausu og föstu féllu undir konung og voru enn eign hans þegar skjalið var skrifað árið 1777. Samkvæmt heimildum var jörðin Skógar komin undir konung árið 1505 þegar konungur veitti Vigfúsi Erlendssyni Skóga- og Merkurlén sem segir okkur að atburðurinn sem færði konungi jarðirnar átti sér stað fyrir þann tíma. Raunar er þessa atburðar getið í Flateyjarannál frá 14. öld og sagt að hann hafi gerst árið 1390.[2]

Í skjalinu kemur fram að óvissa var varðandi landamerkin á milli Skóga og Drangshlíðar og ábúandi Skóga hafði tekið allt sléttlendi undir þá jörð. Var þá skikkuð lögmanns áreið á „Drangshlíðardal og heiðina“ en Einar Eyjólfsson (um 1641-1695), sýslumaður Árnessýslu, fór fyrir áreiðarmönnum í forföllum bróður síns, Jón Eyjólfssonar (1642-1716) varalögmanns, þegar ákveðin voru landamerki milli jarðanna Skóga og Drangshlíðar. Að lokinni áreiðinni dæmdi sýslumaður: „Dalinn og heiðina að tilteknum áður greindum mörkum ævarandi Drangshlíðar eign". Meðan Drangshlíð var eign konungs „veit enginn annað enn dalurinn og heiðin öll fyrir vestan Skógaá hafi fylgt Drangshlíð allt norður að Drangshlíðar botnum hvar Hrútafellsland tekur við." Eftir dóminn var landið slegið, beitt og brúkað frá Drangshlíð. Þar sem nöfn varalögmanns og sýslumanns koma fram í skjalinu er ljóst að þetta gerðist á 17. öld.

Samkvæmt því sem stendur í skjalinu þá var samkomulag á einhverjum tíma um landamerki og landnotkun Drangshlíðar og Ytri-Skóga og ábúendur komur sér saman um að Skógaá aðskildi jarðirnar. Kvikfénaður Skógabónda virti þó engin landamerki og leitaði vestur yfir ána í Drangshlíðarland og var þá gerður samningur þar sem Skógamenn léðu Drangshlíðarmönnum lambagöngu á sumrum í Skógafjalli gegn því að féð frá Skógum fengi að ganga vestan við ána í Drangshlíðarlandi. Í skjalinu kemur fram að að ekkert finnist í lögfestum, gömlum eða nýjum, um að Skógajörðin hafi eignað sér eða skráð ítök í Drangshlíðarlandi.

Síðar urðu Drangshlíðar- og Skógaábúendur sundurorða varðandi þennan beitarrétt og ábúendur Skarðshlíðar gerðu líka kröfu til þriðjungs Drangshlíðarhaga þar sem jarðirnar lægju að öllu leyti saman. Bóndi í Drangshlíð brást við ágangi kvikfénaðar frá Skógum með því að hlaða garð en þessi garður dugði skammt, því þegar þrengdi að fénu í landi Skóga var það rekið yfir í Drangshlíðarland og varnargarðurinn var rifinn niður jafnharðan og hann var byggður upp.

__________________

  1. Ýmsum sögum fer af þessum atburðum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er fjallað um svokallaðar Skógaeignir og þar getið þessara viðburða, sbr. XIII bindi, bls. 469. Þá rekur Jón Þorkelsson söguna af morði piltsins í bókinni Þjóðsögur og munnmæli, bls. 43 og vitnar til Flateyjarannáls. Sjá Islandske Annaler indtil 1578, bls. 416.
  2. Islandske Annaler indtil 1578, bls. 416 og 418.

Þórunn Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta jarðaskjalsins sem um er fjallað.

Heimildir

  • ÞÍ. Jarðaskjöl. Rangárvallasýsla. A/21/52.
  • Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók XIII. Fylgiskjöl. Reykajvík 1990.
  • Islandske Annaler indtil 1578. Útgefandi Gustav Storm. Christiania, 1888.
  • Íslenzkt fornbréfasafn. IX. bindi 1262-1536, Reykjavík 1909-1913.
  • Þjóðsögur og munnmæli. Jón Þorkelsson bjó til prentunar. Reykjavík 1899.

Smellið á tengilinn hér að neðan til að sækja uppskrift skjalsins.

 

ÞÍ. Jarðaskjöl. Rangárvallasýsla. A/21/52.
ÞÍ. Jarðaskjöl. Rangárvallasýsla. A/21/52.