Maí 2023

Skjalaskipti Þjóðskjalasafns og Árnasafns árið 1904

Þjóðskjalasafn Íslands. BA/1. Bréfabók 1900–1905, bls. 328. Bréf Jóns Þorkelssonar til Árnanefndar, 10. október 1904.

Jón Þorkelsson (1859–1924) var skipaður landsskjalavörður frá 1. janúar 1900 (þjóðskjalavörður með lögum frá 3. nóvember 1915) og kom safninu á ótrúlega skömmum tíma í fastar skorður. Hann var óþreytandi við að skrifa embættismönnum til þess að kalla inn skjalasöfn þeirra og leita uppi undanvillinga úr embættisskjalasöfnum. Jón hafði þó ekki einungis áhuga á opinberum skjölum heldur einnig einkaskjölum. Hann áttaði sig snemma á mikilvægi verslunarheimilda og skrifaði kaupmönnum um land allt og í Kaupmannahöfn til þess að reyna að fá þá til að skila verslunarbókum sínum inn til safnsins enda mikilvægar heimildir um hagsögu landsins. Þá krafði hann Landsbókasafnið um skil á opinberum gögnum sem varðveitt voru í handritasafni þess og fékk fjölda skjala þaðan samkvæmt landshöfðingjaúrskurði. Hann þurfti reyndar að láta eitt og annað af hendi til þess að mýkja hjarta landsbókavarðar sem vildi helst engu sleppa þó að söfnin deildu húsnæði um langa hríð, fyrst í Alþingishúsinu en á árunum 1908–1994 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Jón horfði einnig út fyrir landsteinana og gerði tilraun til þess að krefjast skjala úr opinberum söfnum í Kaupmannahöfn strax árið 1900. Það sem hann vildi að Danir létu af hendi var Alþingis- og lögmannsbók Þórðar Guðmundssonar 1570–1606. Skjalabókin hafði fylgt skjalasafni Suðuramts en L.A. Krieger (1797–1838) stiftamtmaður sendi rentukammeri hana með bréfi dagsettu 18. apríl 1837. Krieger hafði áhuga á skjölum og handritum og arfleiddi Árnasafn að fjórum íslenskum handritum frá lokum 17. og byrjun 18. aldar, lögbókum, alþingisbókum og skjölum varðandi Vatnsfjörð við Ísafjarðardjúp, sem hann hafði komist yfir. Skjalabókin endaði loks í leyndarskjalasafni konungs en það varð svo á endanum að ríkisskjalasafni Danmerkur árið 1889. Dönsk stjórnvöld höfnuðu hins vegar málaleitan Jóns að ráði C.F. Bricka (1845–1903) ríkisskjalavarðar.

Eftir að Íslendingar fengu heimastjórn, 1. febrúar 1904, var skjalasafn Íslensku stjórnardeildarinnar flutt frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur svo að nýstofnað stjórnarráð við Lækjargötu hefði einhvern grundvöll til þess að byggja á við ákvarðanatöku sína. Í kjölfarið varð andrúmsloftið annað, Bricka ríkisskjalavörður var þá búinn að gefa upp öndina og Jón lagði til atlögu á ný. Hann beitti nú nýstofnuðu stjórnarráðinu fyrir sig sem skrifaði út, 7. júlí 1904, og fór fram á að skjalabókin yrði send til Íslands og var það samþykkt af dönskum stjórnvöldum.

Í nafnlausri grein um málið í Þjóðólfi (6. janúar 1905), sem mun vafalaust vera eftir Jón, rakti hann málið og sagði um V.A. Secher (1851–1918) nýskipaðan ríkisskjalavörð „[…] að af hans hendi þurfi ekki að óttast neina óskynsamlega smámunasemi í því að standa á móti því, að smámsaman flytjist hingað mikið af þeim skjölum og gögnum úr Ríkisskjalasafninu, sem meiri nauðsyn er á að hafa hér á landi en þar, og hér kann opt að þurfa til að grípa, en þar svo sem aldrei, […]“

Það er þó önnur afhending sem hefur farið heldur hljótt en átti sér einnig stað árið 1904 og var ekki síður merkileg. Jón vann að útgáfu Fornbréfasafnsins um árabil en hann sá um útgáfu 2.–12. bindis sem komu út á árunum 1893–1923 en Páll Eggert Ólason (1883–1949) lögfræðingur og prófessor í sögu tók að sér að ljúka útgáfu 12. bindis og hélt svo verkinu áfram með þeim gögnum sem Jón hafði efnt til. Það var því enginn betur að sér um forn íslensk skjöl en Jón Þorkelsson. Hann vissi að í Árnasafni í Kaupmannahöfn væru skjöl sem borist hefðu frá Íslandi til Jóns Sigurðssonar (1811–1879) forseta og útgefanda 1. bindis Fornbréfasafnsins sem kom út í heftum á árunum 1857–1876. Þau höfðu eftir dauða hans verið innlimuð í fornbréfasafn Árnasafns (AM fasc. – fasciculus er latína og þýðir hylki) en tilheyrðu opinberum söfnum á Íslandi.

Jón Þorkelsson skrifaði Kristian Kålund (1844–1919), sem hafði frá 1883 gegnt embætti bókavarðar Árnasafns og verið ritari Árnanefndar (stjórnarnefndar Árnasafns), einkabréf dagsett 16. maí 1903. Þar ræddi hann fornbréf Árnasafns, fjölda hylkjanna sem þau voru varðveitt í og hvað hafi verið í safninu þegar Árni dó og hvað hafi bæst við eftir hans dag. Hann gat þess að þau fornbréf sem hafi borist safninu eftir dauða Árna hafi borist því um „[…] óvísa vegi, eða einhvern veginn af hendingu, líklega flest slædd úr fórum eða dánarbúi Jóns Sigurðssonar.“ Jón benti á að meðal þessara fornbréfa væru nokkur sem væru opinber eign Íslands og hefðu dreifst út úr „[…] embættisarkívunum hér […]“, nefnilega, fasc. LXXIII, 1–4.

Bréf 1, 3 og 4 hafi Jón forseti fengið að láni úr „[…] umboðsarkívi Þingeyraklausturs […]“ um og í kringum 1870. Jón gat þess að búið væri að afhenda Landsskjalasafni skjalasafn Þingeyraklaustursumboðs (25 skinnbréf og fjölda pappírsbréfa) og það fari illa á því að bréf klaustursins skuli ekki geta verið öll á einum stað, sérstaklega þar sem Árni Magnússon handritasafnari hafi aldrei náð að klófesta skjöl Þingeyraklausturs.

Þá fullyrti Jón að fasc. LXXIII, 2, bréf Mýrakirkju í Dýrafirði, hafi verið léð Jóni Sigurðssyni ásamt sex öðrum skinnbréfum árið 1868. Í handritinu JS 484 4to megi finna skrá yfir fornbréfin og þar komi fram að þau hafi komið Jóni forseta í hendur 6. júlí 1868. Öll Mýrabréfin hafi skilað sér aftur til Íslands með handritasafni Jóns forseta nema þetta bréf sem hafi með einhverjum hætti flækst inn í Árnasafn. Að lokum spurði Jón hvort Árnanefnd myndi ekki vilja afhenda Landsskjalasafni umrædd bréf þar sem þau „[…] eiga inn í heildir bréfa um sama efni og eru að fornspurðum réttum hlutaðeigendum komin þangað, sem þau eru.“ Hann kvaðst ekki vilja fara í hart með þetta og vonast til þess að allt geti gengið greiðlega fyrir sig. Til að taka stinginn úr bauðst Jón þó til þess að afhenda Árnasafni tvö bréf Árna Magnússonar, er komið höfðu inn í safnið árið 1901 með skjalasöfnum Heydalakirkju í Breiðdal og Húsavíkurkirkju á Tjörnesi, sem hann hefði skrifað prestunum þar 1706 og 1726.

Í uppkasti að svari Kålunds, frá 26. júní 1903, sagði hann að Jón forseti hafi skráð umrædd fornbréf Árnasafns sem viðbót (Additamenta) og stór hluti þeirra sýni sig að hafa verið í höndum Árna. Hversu mörg þessara bréfa hafi borist safninu eftir andlát Árna og eftir hvaða leiðum verði alltaf erfitt að skera úr um. Eignarréttur Árnasafns væri hins vegar óumdeildur svo lengi sem ekki væri hægt að sýna fram á annað. Kålund sagði að sér vitanlega hafi ekkert borist Árnasafni úr dánarbúi Jóns Sigurðssonar. Hins vegar hafi uppskriftir sem Jón gerði fyrir Árnasafn fylgt handritasafni hans til Íslands. Hvað þessi fjögur umræddu fornbréf varðaði sagði Kålund að þau hafi borist Árnasafni um hendur Jóns forseta og að líklegast væri að hann hafi sjálfur lagt bréfin inn í safnið með það fyrir augum að þar skyldu þau vera til framtíðar. Þá benti hann á að Jón forseti hafi sjálfsagt fengið fornbréfin að gjöf og álitið sig eiganda þeirra. Að lokum sagði Kålund að hann skyldi fúslega bera erindi Jóns upp við Árnanefnd en bað hann um að stilla væntingum sínum í hóf því að nefndarmenn væru mjög meðvitaðir um hættuna á því að skapa fordæmi.

Árnanefnd kom ekki saman fyrr en 22. janúar 1904. Þar segir í fundargerðabók að Kålund bókavörður hafi lagt fyrirspurn Jóns landsskjalavarðar fyrir nefndina. Hún varði það hvort nefndin væri reiðubúin að láta af hendi fjögur fornbréf sem væru viðbót við fornbréfasafn Árna Magnússonar og talið væri að hafi á síðari árum orðið viðskila við lögheimili sín í íslenskum embættisskjalasöfnum. Nefndin veitti Kålund heimild til þess að svara Jóni á þann veg að hann mætti búast við því að afhendingin yrði samþykkt en áður en til þess kæmi yrði Árnanefnd að berast formlegt erindi. Þá var jafnframt gerður sá fyrirvari að þessa viðurkenningu nefndarinnar á því hvernig umrædd fornbréf bárust Árnasafni bæri ekki að skoða sem fordæmisgefandi.

Kålund skrifaði Jóni degi síðar, 23. janúar 1904, og greindi honum frá því hvernig Árnanefnd hefði brugðist við erindi hans á ársfundi sínum. Þá gat hann þess að nefndinni yrði að berast formlegt erindi og Jón mætti vænta þess að vel yrði tekið í það. Hins vegar væri það skilyrði fyrir afhendingunni að hún skapaði ekki fordæmi og andi erindisins, sem til stæði að Jón sendi inn fyrir Árnanefnd, ætti að vera í formi tilmæla en ekki tilkalls.

Jón sendi Árnanefnd erindi Landsskjalasafns, 28. apríl 1904, þar sem hann óskaði formlega eftir því að fornbréfin í fasc. LXXIII, 1–4 yrðu afhent safninu. Hann benti á að umrædd fornbréf hefðu í seinni tíð orðið viðskila við opinber embættisskjalasöfn á Íslandi eins og Kålund bókavörður gæti upplýst nefndarmenn enn frekar um.

Samdægurs skrifaði Jón Kålund og sagðist hafa sent Árnanefnd formlegt erindi. Hann sagðist hafa skotið erindinu til nefndarinnar (d. henstillet) og forðast að nefna lagaaðferð eða fordæmisgildi því að hann taldi það ekki viðeigandi að afhendingin færi fram með einhverjum fyrirvörum á hvora hliðina sem var. Hann útskýrði að afhendingin stæði ekki í neinu sambandi við það hvort Ísland ætti réttmæta kröfu til fleiri skjala í Árnasafni eða ekki. Það væri eitthvað sem hann vildi ekki að á yrði minnst einu orði í sambandi við fyrirliggjandi afhendingu. Þá vildi hann heldur ekki að bréf Árnanefndar, sem kæmi til með að fylgja afhendingunni, yrði uppfullt af varnaglaslætti um það hvað framtíðin kynni að bera í skauti sér, þ.e.a.s. frekari kröfum síðar meir, eða að það yrði yfirleitt nefnt á nafn. Loks sagðist hann bera sérstaka virðingu fyrir Árnasafni og vilja sýna því ræktarsemi enda hafi hann sótt þangað svo mikinn fróðleik og átt þar ógleymanlegar ánægjustundir í gegnum tíðina. Hins vegar væri honum einnig annt um Landsskjalasafnið og því vildi hann ekki að minnst yrði á umrædd atriði í bréfi Árnanefndar.

Kålund svaraði bréfi Jóns, 16. maí 1904, og vottaði móttöku fornbréfa sem Jón hafði verið með að láni úr Árnasafni vegna útgáfu Fornbréfasafnsins. Hann nefndi svo að erindi Jóns til Árnanefndar, frá 28. apríl 1904, hefði borist í hús en áður en hann gæti borið það upp fyrir nefndina yrði hann að fá staðfestingu á tilboðinu sem kom fram í bréfi Jóns frá 16. maí 1903. Því að hann verði að geta gefið nefndinni loforð um að Árnasafn fái tvö fyrrgreind frumbréf Árna Magnússonar sem endurgjald fyrir afhendingu fornbréfanna.

Jón svaraði Kålund, með bréfi dagsettu 16. júní 1904, og staðfesti að allt sem komið hefði fram í bréfi hans stæði eins og stafur á bók. Árnasafni stæði til boða að fá þessi tvö bréf Árna í þokkabót fyrir góðlátlega afhendingu á fasc. LXXIII, 1–4. Hann myndi svo senda Kålund bréfin um leið og honum bærust fornbréfin í hendur.

Þann 27. júlí 1904 samþykkti Árnanefnd að afhenda Landsskjalasafni umrædd fornbréf og þiggja með þökkum tilboð Jóns um að Árnasafn fengi í staðinn tvö frumbréf Árna Magnússonar. Undir þetta skrifaði Kålund og fimm nefndarmenn Árnanefndar. Kålund skrifaði Jóni, 17. september 1904, og ræddi lán skjalabóka og apógrafa (þ.e. uppskrifta fornbréfa gerða á vegum Árna Magnússonar) vegna vinnu hans við Fornbréfasafnið. Í bréfslok tilkynnti hann svo að Árnanefnd hefði ákveðið að ganga að tilboði Jóns og hafa fornbréfin væntanlega fylgt bréfinu.

Jón svaraði bréfi Kålunds, 10. október 1904, og hafði þá fengið fornbréfin í hendur, hann kvittaði fyrir móttöku þeirra og lét tvö umrædd bréf Árna Magnússonar, sem átti að innlima í Árnasafn, fylgja bréfi sínu.

Af framangreindu má sjá að safnamenn herraþjóða óttast fátt meira en fordæmisgefandi gerninga í samskiptum við hjálendur sínar. Enda kom það á daginn að Jón var kominn með blóðbragð í munninn. Í framhaldi af þessum meðbyr samdi hann skýrslu, sem prentuð var árið 1908, um handrit og skjöl í Árnasafni í Kaupmannahöfn sem ættu uppruna sinn í opinberum skjalasöfnum á Íslandi. Þetta var forsenda Dönsku sendingarinnar en það var umfangsmikil afhending íslenskra skjala úr Ríkisskjalasafni Danmerkur, Árnasafni og Konungsbókhlöðu sem fram fór árið 1928.

Heimildir

  • Þjóðskjalasafn Íslands. BA/1. Bréfabók 1900–1905, bls. 328. Bréf Jóns Þorkelssonar til Árnanefndar, 10. október 1904.
  • Þjóðskjalasafn Íslands. BB/6, örk 44. Bréf Kristians Kålunds til Jóns Þorkelssonar, 23. janúar 1904. Ásamt uppkasti að svari, 28. apríl 1904.
  • Þjóðskjalasafn Íslands. BB/6, örk 58. Bréf Kristians Kålunds til Jóns Þorkelssonar, 16. maí 1904.
  • Þjóðskjalasafn Íslands. BB/6, örk 87. Bréf Árnanefndar til Jóns Þorkelssonar, 17. september 1904.
  • Landsbókasafn–Háskólabókasafn, handritasafn. JS 484a 4to. Skrár Jóns Sigurðssonar og eftirrit fornskjala, bl. 81r.
  • Det Arnamagnæanske Institut. Københavns Universitet. Den Arnamagnæanske Kommissions arkiv. Askja 5. Styrelsen. Kommissionens forhandlingsprotokol 1772–1942, bls. 501.
  • Det Arnamagnæanske Institut. Københavns Universitet. Den Arnamagnæanske Kommissions arkiv. Askja 17. Styrelsen. Korrespondance 1898–1906.
  • Arne Magnussons private brevveksling. København 1920, bls. 7, 131.
  • Islandske originaldiplomer indtil 1450. Tekst. Udgivet af Stefán Karlsson. Editiones Arnamagnæanæ. Series A, vol. 7. København 1963, bls. 62, 65, 79. [Í þessari útgáfu er AM fasc. LXXIII, 1 ekki tekið með enda er það staðfesting Eilífs erkibiskups í Niðarósi á samningi Hólabiskups og Þingeyraklaustursábóta og telst því ekki til íslenskra fornbréfa.]
  • Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörnínga, dóma og máldaga, og aðrar skár, er snerta Ísland eða íslenzka menn II, 1253–1350. Kaupmannahöfn 1893, bls. 642.
  • Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörnínga, dóma og máldaga, og aðrar skár, er snerta Ísland eða íslenzka menn III, 1269–1415. Kaupmannahöfn 1896, bls. 329, 335, 385.
  • [Jón Þorkelsson], „Alþingis- og lögmannsbók Þórðar lögmanns Guðmundssonar 1570–1605“, Þjóðólfur, 57. árg., nr. 2 (6. janúar 1905), bls. 5–6.
  • Jón Þorkelsson, Skýrsla um skjöl og handrit í safni Árna Magnússonar, sem komin eru úr opinberum skjalasöfnum á Íslandi. Reykjavík 1908.
  • Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling II. København 1894, bls. ix, 596–597.
  • Sigfús Haukur Andrésson, Þjóðskjalasafn Íslands. Ágrip af sögu þess og yfirlit um heimildasöfn þar. 2. útgáfa, endurskoðuð. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 1. Reykjavík 1982, bls. 16–17, 36–37, 87–90.
  • Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík II. Skjalasöfn klerkdómsins. Reykjavík 1905, bls. xxiii.
  • Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík III. Öxarárþing. – Yfirréttur hinn forni. – Landsyfirdómur. – Sýslur. – Hreppar. – Sáttanefndir. – Umboð. Reykjavík 1910, bls. 5–8.

Eitt Þingeyraklaustursbréfanna sem afhent var Landsskjalasafni síðla árs 1904. Bréfið er frá 23. janúar 1379 og með því gefur Benedikt Kolbeinsson Þingeyraklaustri jörðina Gilsstaði í Vatnsdal ásamt þremur kúgildum. ÞÍ. Þingeyraklaustur IX, 1. (Áður AM fasc. LXXIII, 3.)

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta

Eitt Þingeyraklaustursbréfanna sem afhent var Landsskjalasafni síðla árs 1904. Bréfið er frá 23. janúar 1379 og með því gefur Benedikt Kolbeinsson Þingeyraklaustri jörðina Gilsstaði í Vatnsdal. ÞÍ. Þingeyraklaustur IX, 1. (Áður AM fasc. LXXIII, 3.)