Október 2023

Dularfullt andlát Kristmanns Jónssonar

ÞÍ. Borgarfógetinn í Reykjavík 0000 EA1/5-2

Kristmann Jónsson hét maður fæddur 6. október 1853 á Þórólfsstöðum í Miðdölum í Dalasýslu. Hann varð síðar gullsmiður, lærði hjá Benedikt Ásgrímssyni gullsmið í Reykjavík á árunum 1874–1878. Í Dalamönnum segir að Kristmann hafi verið skáldmæltur. Hefði haft áhuga á tónlist og hafi ásamt Helga Helgasyni stofnað fyrsta hornaflokk Reykjavíkur.

Sunnudaginn 7. febrúar 1881 fór hann í sex manna hópi í skemmtiferð frá Reykjavík á Hellisheiði. Ferðinni var heitið í Marardal, en það er fremur lokaður dalur undir Hengli vestan megin. Í hópnum voru Magnús Pálsson og kona hans Steinunn Sigurðardóttir, Sigurþór Ólafsson og unnusta hans Metta Egilsdóttir, Guðmundur Jónsson og að lokum Kristmann. Hópurinn var samferða upp að Kolviðarhóli og stoppaði þar í einhvern tíma. Ekki er samhljómur í frásögnum þeirra um hversu lengi var stoppað en svo virðist sem áfengi hafi verið við hönd en ekki gætir heldur samræmis um hversu mikið var drukkið og hverjir voru eða voru ekki drukknir.

Eftir stoppið á Kolviðarhóli tvístraðist hópurinn en ekki er alveg ljóst af hverju. Magnús og Steinunn fóru alla leið inn í Marardal og dvöldu þar um stund áður en þau héldu heim á leið. Ekkert samferðafólk þeirra skilað sér í dalinn með þeim. Sigurþór og Metta sögðust hafa lagt af stað inn að Marardal en hafi villst af leið. Guðmundur og Kristmann fóru síðastir af stað og segir Guðmundur að þeir hafi farið af bak hestum sínum við gamla tóft af sæluhúsi. Þessi tóft var við tjörn sem heitir Draugatjörn og er suðvestan megin við Húsmúla. Síðan segist Guðmundur ekki muna meira af ferð þeirra.

Víkur þá sögunni að Ólafi Árnasyni húsbónda á Kolviðarhóli. Hann hafði verið í Marardal þennan dag og meðal annars séð þar Magnús og Steinunni, þó hann hafi ekki borið kennsl á þau þá. Á leiðinni aftur heim á Kolviðarhól mætti hann Sigurþóri og Mettu og ræddi stuttlega við þau en þau sögðust vera á hraðferð aftur til Reykjavíkur og máttu ekki vera að því að stoppa. Áfram hélt Ólafur heim á leið og er hann kemur undir Húsmúla sér hann mann liggjandi sofandi, var það Guðmundur. Reynir hann að vekja hann en verður þá var við annan mann skammt frá, sem liggur á grúfu með höfuðið ofan í polli, var það Kristmann. Kristmann var látinn. Föt hans voru skítug og blóðug. Á höfði hans var sár sem blóð hafði runnið úr.

Ólafi tókst loks að vekja Guðmund og þá sagðist hann vera svo drukkinn að hann mundi ekkert hvað hafi gerst en sagði þó að sá látni væri Kristmann. Guðmundur aðstoði Ólaf við að flytja líkið heim að Kolviðarhóli. Þegar þar var komið tók Ólafur eftir því að á handfangi svipu Kristmanns var blóð og spurði Guðmund út í það. Guðmundur sagðist halda að Kristmann hefði fengið blóðnasir og þurrkað sér um nefið með svipunni. Síðar við yfirheyrslur neitaði Guðmundur að hafa tekið eftir blóði á svipu Kristmanns og sagði að Ólafur hafi ekki minnst á það við sig. Eftir að hafa aðstoðað Ólaf við að koma líkinu fyrir fór Guðmundur heim til Reykjavíkur, með hatt og svipu Kristmanns með sér.

Til að gera langa sögu stutta þá tók bæjarfógetinn í Reykjavík, Eggert Theodór Jónassen, að sér rannsókn málsins. Við vettvangsrannsókn fannst þar íleppur innan úr skinnskó og humbug, slaufa sem Kristmann hafði átt og verið með daginn sem hann dó. Má sjá mynd af þeim hér til hliðar. Leppurinn og slaufan liggja í fylgiskjölum málsins en sjaldgæft er að slíkir munir fylgi með rannsóknargögnum í safninu. Niðurstaða bæjarfógeta var að ekki væri „hægt að fá neina frekari vissu um hvernig dauði Kristmanns sáluga hafi atvikast.“

Ekki voru allir á eitt sáttir með rannsókn bæjarfógeta og einn þeirra var Bergur Thorberg amtmaður í Suður- og Vesturamti. Honum var sent málið til umsagnar og í bréfum sem hann sendi bæjarfógeta 15. og 17. ágúst 1881 taldi hann að þó að ekki væri líklegt að frekari rannsókn á málinu myndi skila árangri þá þyrfti samt sem áður að skoða ýmis atriði betur. Sérstaklega efaðist amtmaður um málflutning Guðmundar. Rannsóknin var þá tekin aftur upp en fór á svipaða leið, bæjarfógeti taldi sig ekki geta sannað að Kristmann hafi verið myrtur.

Þá sendi Benedikt Ásgrímsson, fyrrum lærimeistari Kristmanns, tvö bréf. Annað þann 7. september til landshöfðingja þar sem hann lýsti óánægju sinni með rannsókn bæjarfógetans og óskaði eftir að sérstakur rannsóknardómari væri settur yfir málið. Hitt bréfið sendi hann daginn eftir til Jóns Jónssonar landsritara þar sem hann sagði Jón manna bestan til þess að taka að sér rannsókn málsins. Því bréfi fylgdi ítarleg skýrsla Benedikts um málið þar sem hann meðal annars lýsti samskiptum sínum við bæjarfógetann, Sigurþór og Mettu. Síðara bréfið má lesa hér til hliðar.

Leið svo og beið þangað til 4. febrúar 1882 að amtmaður skrifar Jóni landsritara bréf þar sem hann að fyrirmælum landshöfðingja löggilti Jón til þess að taka við rannsókninni á dauða Kristmanns. Jón tók strax til starfa og sama dag yfirheyrði hann Mettu, Sigurþór og Guðmund og hneppti þau í kjölfarið öll í varðhald. Rannsókn Jóns stóð yfir frá 4. febrúar til 13. mars og var afar yfirgripsmikil. Eftir rannsóknina liggja tvær dómabækur auk bókar, sem var einskonar rannsóknarbók, en þar skrifaði Jón niður framburði vitna og sakborninga við dómþing, ýmis bréf tengd málinu og önnur fylgiskjöl. Þar er meðal annars að finna afrit margra þeirra bréfa sem vísað hefur verið til hér.

Meðal þess sem Jón gerði var að auglýsa eftir hatti Kristmanns. Þann 27. ágúst árið áður, einungis tæpum þremur vikum eftir að Kristmann lést, höfðu eigur hans verið seldar á uppboði, þar á meðal hatturinn sem hann hafði verið með þegar hann dó. Jón Borgfirðingur lögregluþjónn hafði keypt hattinn og staðfesti að innan í honum hafi verið blóðrák en að hatturinn hefði fokið af höfðinu á honum í óveðri um jólin. Því var auglýst eftir hattinum og hér til hliðar má sjá mynd af miða sem sennilega hefur verið dreift um bæinn. Eins birtist samskonar auglýsing á baksíðunni á Þjóðólfi þann 6. febrúar 1882.

En aftur verðum við að fara fljótt yfir sögu. Jón kallaði til fjölda vitna og yfirheyrði þau grunuðu ítrekað þennan rúma mánuð sem hann var að störfum. Þá voru uppi ásakanir um að bæjarfógeti hefði tekið þátt í að veita utanaðkomandi aðilum aðgengi að sakborningum. Jón kallaði Sigurð Jónsson fangavörð meðal annars fyrir dóminn og yfirheyrði um þetta. Sagði Sigurður að Indriði Einarsson endurskoðandi, sem var talsmaður Mettu, og eiginkona Guðmundar hafi reynt að fá að hitta sakborningana en Sigurður vísað þeim til Jóns. Þá hafi bæjarfógetinn, sem notarius publicus, talað við sakborningana fyrir hönd Indriða og spurt hvort Jón hafi boðið þeim að áfrýja handtökuúrskurðinum yfir þeim.

Talsmenn Mettu og Sigurþórs, vildu meina að með því að löggilda Jón til þess að taka að sér rannsókn málsins hafi amtmaður og landshöfðingi verið að skipa sérstakan dómstól en til þess hafi þeir þurft konunglegt umboð, sem þeir höfðu ekki. Á þessum forsendum væri hægt að áfrýja handtökuúrskurðinum. Metta og Sigurþór stefndu því Jóni fyrir Landsyfirrétt sem féllst á röksemdafærslu talsmanna þeirra og var varðhaldsúrskurðurinn dæmdur ómerkur auk þess sem Jón var dæmdur til að greiða málskostnað Mettu. Þessir dómar voru kveðnir upp í lok mars og maí en Metta, Sigurþór og Guðmundur höfðu verið látin laus að lokinni rannsókn Jóns.

Það var síðan veturinn eftir sem réttarhöld fóru fram yfir þremenningunum í aukarétti í Reykjavík. Var kveðinn upp dómur þar 18. nóvember og voru þau öll sýknuð. Hið opinbera áfrýjaði málinu til Landsyfirréttar sem tók málið fyrir í ágúst 1883 þar sem sýknudómurinn var staðfestur. Lauk þar með Kristmannsmálinu.

Í Lesbók Morgunblaðsins þann 14. júlí árið 1957 birtist grein eftir Kristmann Guðmundsson rithöfund þar sem hann sagði frá því hvernig hann fékk nafn sitt. Þá hafði Kristmann Jónsson heimsótt í draumi frænku hans og móður Kristmanns Guðmundssonar í draumi og beðið þær um „að gefa sér nafnið“ á börnunum sem þær báru undir belti. Frænkan varð ekki við þeirri bón og lést sonur hennar viku eftir skírn. Móðir Kristmanns Guðmundssonar varð hins vegar við óskinni. Í greininni rekur Kristmann ævi nafna síns og veltir fyrir sér dauða hans og aðdraganda hans. Greinin er áhugaverð og lesning hennar vel tímans virði.

Eins og rakið hefur verið er mikið magn skjala í Þjóðskjalasafni varðandi málið. Í skjalasafni borgarfógeta má finna áðurnefndar bækur og hafa þær verið skannaðar í heild sinni, hlekk á þær má finna hér að neðan. Þá eru einnig tveir þykkir skjalabunkar með fylgiskjölum. Í þessum skjalabunkum má finna þau bréf sem vísað var til hér en er ekki að finna í rannsóknarbók Jóns.

Fyrri dómabók má sjá hér.

Seinni hér.

Rannsóknarbók Jóns landsritara hér.

Höfundur kynningartexta: Ólafur Valdimar Ómarsson

Heimildir

  • Dalamenn Æviskrár 1703-1961, III. bindi. Jón Guðnason tók saman. 1961.
  • Þjóðólfur 6. febrúar 1882.
  • Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum, II bindi 1881-1885.
  • Lesbók Morgunblaðsins 14. júlí 1957.
  • ÞÍ. Borgarfógetinn í Reykjavík 0000 EA1/5-2
  • ÞÍ. Borgarfógetinn í Reykjavík 0000 EA1/5-3
  • ÞÍ. Borgarfógetinn í Reykjavík 0000 EA1/5-5
  • ÞÍ. Borgarfógetinn í Reykjavík 0000 GB/21-8
  • ÞÍ. Borgarfógetinn í Reykjavík 0000 GB/21-2
Auglýst eftir hattinum sem fauk
Íleppur úr skinnskó
Slaufa sem Kristmann hafði átt
Skýrsla Benedikts
Skýrsla Benedikts
Skýrsla Benedikts