Febrúar 2024

Danskar konur á Íslandi á átjándu öld

Þann 15. desember síðastliðinn var blásið til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Tilefnið var fundur sem vakið hafði nokkra athygli fyrr um haustið, þegar tvö brot úr höfuðkúpu fundust við framkvæmdir. Mannerfðasérfræðingar Íslenskrar erfðagreiningar tóku beinin til rannsóknar og komust að þeirri niðurstöðu að beinin hafi tilheyrt danskri konu sem hafi að öllum líkindum lifað og dáið á Íslandi á átjándu öld. Hún hafi verið brúneygð og dökkhærð og eigi hvorki afkomendur né skyldmenni á Íslandi en einhverja fjarskylda ættingja í Danmörku. Ekki er vitað hvernig á því stóð að brot úr höfuðkúpu hennar enduðu í ráðherrabústaðnum. Ef til vill var hún jörðuð í Víkurkirkjugarði við Aðalstræti en þar hafa líkamsleifar stundum komið í ljós við byggingarframkvæmdir í gegnum tíðina.

Danskar konur voru ekki fjölmennur þjóðfélagshópur á Íslandi og þær hafa ekki allar skilið eftir sig spor í rituðum heimildum, þó þær hafi verið að finna á flestum dönskum verslunarstöðum og á dönskum embættismannaheimilum. Hægt er að nefna nokkur dæmi af handahófi sem geta gefið innsýn í það af hverju danskar konur fluttust til Íslands fyrr á öldum.

Bente Katrine Truelsdóttir (f. um 1650) kynntist eiginmanni sínum Jóni Sigurðssyni þegar hann dvaldist í Kaupmannahöfn. Þau giftust og eignuðust sitt fyrsta barn í Kaupmannahöfn en fluttu til Íslands 1674 þegar Jón varð sýslumaður í Húnavatnssýslu. Önnur dönsk kona í Húnavatnssýslu á mörkum 17. og 18. aldar var Catharina Christiansdatter Peeters (1666– 1731), eiginkona Lauritz Gottrup sem kom fyrst til Íslands sem kaupmaður en varð að lokum lögmaður norðan og vestan. Þau bjuggu á Þingeyraklaustri í Húnavatnsþingi og í manntalinu 1703 má sjá að hjá þeim bjuggu einnig dætur þeirra Magdalena og Anne Sophie og tvær þjónustustúlkur frá Kaupmannahöfn, þær Anne Lorensdatter og Sisse Joensdatter.

Í manntalinu er hægur leikur að skoða annað dansk-norskt embættismannaheimili, Bessastaði á Álftanesi, þar sem landfógetinn Páll Beyer bjó. Þar má sjá nöfn fjögurra kvenna sem voru að öllum líkindum danskar, þær Sophia og Anna Mauritzdætur, Mette Katrina dóttir Sophiu og Caren Christiansdóttir, þó ekki sé tekið fram hver staða þeirra eða aldur hafi verið. Nokkrum árum síðar bættist önnur kona við heimilið sem vitað er með vissu að kom frá Danmörku, þjónustustúlkan Mette Maria Hansdóttir (1685–1757). Um 1710 giftist Mette Jóni Oddssyni Hjaltalín sem einnig var í þjónustu Páls Beyers en síðar átti hann eftir að verða lögréttumaður og sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Á seinni hluta átjándu aldarinnar má svo nefna sem dæmi Abelone Klog (f. 1745), eiginkonu kaupmannsins í Vestmannaeyjum. Abelone bjó í Vestmannaeyjum í þrjátíu ár þar sem hún eignaðist og ól upp öll sín börn en meðal þeirra var Tómas Klog, landlæknir á árunum 1804-1815. Það sem þessar giftu konur eiga sameiginlegt er að þær eiga afkomendur og það jafnvel í þúsundatali, annað hvort hér á landi eða í Danmörku. Það er því útilokað að bein þeirra hafi endað í Ráðherrabústaðnum og líklegra að sá einstaklingur hafi tilheyrt þeim hópi kvenna sem vann alla tíð fyrir aðra, án þess að skilja eftir sig spor í íslenskum ættartölum og genamengjum.

Ein slík kona kemur af tilviljun við sögu í skjölum Yfirréttarins árið 1715, Katrín Abrahamsdóttir, „heimiliskvinna“ Odds Sigurðssonar lögmanns á Narfeyri í Snæfellsnessýslu, en Oddur hafði ferðast til Danmerkur 1706–1707. Það kemur hvergi beinlínis fram að Katrín hafi verið dönsk en hana er ekki að finna í manntalinu 1703 og sjálf skrifaði hún undir sem Katrine Abrahamsdaatter. Það voru Jón Vídalín Skálholtsbiskup og fylgismenn hans sem skilgreindu hana sem heimiliskvinnu Odds í skjali sem greinir frá því þegar þeir skildu eftir bréf á heimili Odds 2. september 1714 í hennar viðurvist.

Skjalið sem Katrín skrifaði undir eigin hendi var vitnisburður um atburði í heimsókn Jóns Vídalíns á Narfeyri haustið 1713. Vitnisburður Katrínar var einungis einn af mörgum sem Oddur Sigurðsson lagði fyrir rétt í lagaviðureign hans og Jóns Vídalíns en vitnisburðirnir eru allir því sem næst samhljóða og verður að teljast líklegt að eiginlegur höfundur þeirra hafi verið Oddur sjálfur. Katrín er eina konan sem leggur nafn sitt við vitnisburðinn og enn fremur eina vitnið sem kemur sjálft við sögu í frásögninni, en það er með eftirfarandi hætti:

En á meðan þetta skeði þá lét lögmaðurinn tilreiða það fallegasta kamers er til var hér á garðinum sem var portloftið eitt alþiljað og með tveimur hurðum læst hús, yfir frammi bæjardyrunum. Þar var tilbúin sæng með þeim bestu efnum lögmaðurinn tilhafði með undirdýnum, yfirsæng, sparlökum með víðara.
 …
Þá biskupinn þetta heyrði gekk hann samt um gólf í gestastofunni og vildi aldeilis ekki niður sitja. Ei heldur ganga til hvíldar í það kamers hvar inni honum sængin var tilbúin, jafnvel þó honum hvert tveggja væri þrálega tilboðið.

Þegar lögmaðurinn þetta heyrði og fullkomlega kunni sjá að biskupinn ætlaði endilega í því sama lögmannsins eigin kamersi um nóttina hvíla og biskupinn mundi ei í það sinn óneyddur þaðan víkja þá sagði lögmaðurinn: „Minn herra biskup. Með því ekki er annars kostur en þér ætlið hér absolut að blífa þá bið ég yður þó að þér hafið þolinmæði á meðan sængin verður skikkanlega og sem yður hæfir vel uppbúin.“ Biskupinn svaraði: „Ja nokk.“
Þá sagði lögmaðurinn við Katrínu Abrahamsdóttir að hún skyldi bera sængurfötin úr portloftinu (hvar biskupinum hafði áður verið tilbúin sængin) og inn í lögmannsins eigið kamers og búa þar um biskupinn. Hún nokkuð veigraði sér við því. Lögmaður svaraði það yrði nú svo að vera því ei fengist annað af biskupinum. Og svo var sængin í lögmannsins eigin kamersi með bestu efnum, sem til voru, uppbúin fyrir biskupinn.

Hvort Katrín Abrahamsdóttir hafi haft brúnt hár og brún augu eins og konan í Ráðherrabústaðnum skal ósagt látið, enda heldur ólíklegt að hún hafi endað ævina á því að hvíla í Víkurkirkjugarði, í allt öðrum landshluta en hennar eini þekkti íverustaður. Konan í Ráðherrabústaðnum var einnig að öllum líkindum yngri en Katrín. En kannski má ímynda sér að þessar tvær konur hafi átt það sameiginlegt, auk þjóðernis síns, að hafa einhvern tíma fórnað höndum yfir því að þurfa að endurtaka sama húsverkið tvisvar vegna tiktúranna í kröfuhörðum gesti.

Höfundur kynningartexta: Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Heimildir

  • ÞÍ. Skjalasafn amtmanns. Amtm. II. B/87. Bréf úr Rangárvallasýslu til amtmanns 1709–1754. Bréf Hákonar Hannessonar til Odds Sigurðssonar 21. ágúst 1714.
  • Landsbókasafn – Háskólabókasafn. Handritasafn. Lbs. 21 fol., bl. 3r–19r. Sameiginlegur vitnisburður Steindórs Helgasonar, Halldórs Hallssonar, Katrínar Abrahamsdóttur, 3. júlí 1714, vitnisburður Halldórs Hallssonar, 9. júlí 1714 og þinghald á Dröngum 1. september 1714.
  • Heimaslod.is. Víglundur Þór Þorsteinsson: Æviskrár Eyjafólks.
  • „Höfuðkúpa fannst í Ráðherrabústaðnum.“ Visir.is. 11. september 2023.
  • „Höfuðkúpan tilheyrði danskri konu frá 18. öld.“ Visir.is. 15. desember 2023.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Ritstjóri Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948, bls. 259–260 og 393–394.
  • Manntal.is.
  • „Metta Hansdóttir í Vík.“ Halldór Ármann Sigurðsson. Lesbók Morgunblaðsins. 07.02.1998. Bls. 4-5.
  • Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl. I 1690 – 1710, Reykjavík 2011, bls. 425.
  • Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl. II 1711–1715, Reykjavík 2021, bls. 289-292.
ÞÍ. Skjalasafn amtmanns. Amtm. II. B/87. Bréf úr Rangárvallasýslu til amtmanns 1709–1754. Bréf Hákonar Hannessonar til Odds Sigurðssonar 21. ágúst 1714.
Landsbókasafn – Háskólabókasafn. Handritasafn. Lbs. 21 fol., bl. 3r–19r. Sameiginlegur vitnisburður Steindórs Helgasonar, Halldórs Hallssonar, Katrínar Abrahamsdóttur, 3. júlí 1714, vitnisburður Halldórs Hallssonar, 9. júlí 1714 og þinghald á Dröngum 1. september 1714.