Nóvember 2023

Eftir hvaða leiðum barst Þjóðskjalasafni bréfasafn Jóns Sigurðssonar forseta (1811–1879)?

Bréfasafn Jóns Sigurðssonar forseta, þau bréf sem honum bárust á iðjusamri starfsævi og varðveitt eru á Þjóðskjalasafni og Landsbókasafni, geymir um 6000 bréf. Bréfasafnið er frá um 870 bréfriturum og er bróðurparturinn, eða um 75% bréfanna, varðveittur á Þjóðskjalasafni. Fjöldi fylgiskjala liggur með bréfunum, allskonar miðar, kvittanir, uppköst að svarbréfum, kvæði og þess háttar, sem hafa verið lögð inn í bréfin en stundum er óljóst hvaða bréfi þau fylgdu eða hvort þau séu, í einhverjum tilvikum, bréfunum jafnvel allsendis óviðkomandi. 

Þar á meðal er líka ýmislegt sem aldrei tilheyrði bréfasafni Jóns, það er samkynja gögn sem lögð voru með því vegna þess að skjalaverðir þess tíma töldu þau eiga best heima þar. Þar má til dæmis finna ljósrit af bréfum Jóns sem aflað hefur verið erlendis frá en með bréfum Michaels Birkelands ríkisskjalavarðar Noregs til Jóns má finna ljósrit af 16 bréfum Jóns til hans. Þá liggja með bréfum Sighvats Grímssonar Borgfirðings alþýðufræðimanns fjögur bréf sem Jón skrifaði honum. Þau hafa mögulega fylgt handritasafni Sighvats sem barst Landsbókasafni árið 1930 og taldi í allt 177 bindi, þar á meðal var bréfasafn hans sem er í Lbs 2348–2357 4to. Þaðan barst Þjóðskjalasafni húsvitjunarbók Dýrafjarðarþinga 1785–1806 sem í aðfangabók er sögð komin úr dóti Sighvats 28. apríl 1930. Sighvatur hafði hins vegar tvisvar áður afhent Þjóðskjalasafni opinber gögn sem hann hafði væntanlega komist yfir vegna vinnu sinnar við samningu stórvirkis síns Prestaævir á Íslandi. Árið 1902 afhenti hann elstu varðveittu prestsþjónustubók Álftamýrarkalls í Arnarfirði og árið 1905 skjöl Mýrakirkju í Dýrafirði og mun e.t.v. hafa látið bréf Jóns til sín fylgja með annarri hvorri þessara afhendinga. 

Þá má finna dæmi þess að gögn sem tilheyrðu bréfasafni Jóns hafi verið tekin þaðan og færð í annað safn. Þannig voru teikningar Arngríms Gíslasonar málara af gripum úr Baldursheimskumlinu teknar út úr bréfasafni Jóns og afhentar Þjóðminjasafni af Jóni Þorkelssyni þjóðskjalaverði 6. júlí 1916. Bæði Þjóðskjalasafn og Þjóðminjasafn voru þá til húsa í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Bréf Jóns sjálfs, sem varðveist hafa í bréfasöfnum þeirra sem hann var í bréfasambandi við, eru hins vegar aðeins um 830 talsins. Þessi tala á þó aðeins við það sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni og Landsbókasafni en nær ekki yfir héraðsskjalasöfn á Íslandi né söfn erlendis. Það væri þarfaverk að leita á kerfisbundinn hátt í söfnum í Kaupmannahöfn og um Danmörku alla en ljóst er að ekki er nóg að leita í einkaskjalasöfnum bréfavina hans heldur þarf einnig að leita í gögnum dánarbúa þeirra, til dæmis í skjalasafni skiptaréttar Kaupmannahafnar. 

Þá þarf jafnframt að leita uppi hvar söfn þeirra erlendu bréfavina Jóns, sem búsettir voru utan Danmerkur, eru niður komin. Til dæmis má benda á að frumrit ritgerðar Jóns „Um mark, fángamark (búmerki) á Íslandi“, dagsett 9. júlí 1868, liggur með bréfi hans dagsettu samdægurs í skjölum Carls Gustavs Homeyers prófessors í handritadeild þýska ríkisbókasafnsins í Berlín (Staatsbibliothek zu Berlin). Sú ritgerð hefur tvisvar verið gefin út og í bæði skiptin eftir uppkasti Jóns sem finnst í gögnum hans í Landsbókasafni og hann hélt eftir en sendi Homeyer hreinritað eintak.

Í heimild marsmánaðar 2023 var greint frá því að íslensk stjórnvöld höfðu falið Jón Krabbe, forstjóra íslensku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn, að kanna hvort eitthvað af bréfasafni Jóns forseta leyndist í skjalasafni skiptaréttarins í Kaupmannahöfn. Í bréfi sínu til Stjórnarráðsins, 18. júní 1910, fullyrti Krabbe að þau skjöl sem skiptarétturinn taldi ónauðsynleg við skiptagerðina hefðu verið seld í umbúðapappír. Það mun sjálfsagt rétt að á einhverjum tímapunkti, þegar þrengja var farið um húsrúm, þá hafi starfsmenn skiptaréttarins áttað sig á því að ekki væri hægt að varðveita allt sem þeir lögðu hald á í rassíum sínum. Þá hefur verið ákveðið að þau bréf sem ekki komu að gagni við skiptagerðir og erfingjar gerðu ekki tilkall til skyldu seld pappírsmyllum enda var ríkisskjalasafnið ekki stofnað fyrr en árið 1889. Myllurnar endurnýttu svo bréfin til framleiðslu ódýrs og óvandaðs pappírs sem ekki nýttist í annað en umbúðir. Bréfin sjálf voru því ekki nýtt í umbúðapappír fyrr en búið var að endurvinna þau. Við þekkjum þó dæmi þess að kaupmenn á Íslandi hafi rifið í sundur gamlar verslunarbækur og nýtt þær sem umbúðapappír. Jón þjóðskjalavörður komst að því þegar hann hafði áttað sig á mikilvægi verslunarheimilda og hóf með markvissum hætti að leita uppi verslunarbækur í upphafi 20. aldar. Það verður samt að teljast mjög ólíklegt að nokkuð af bréfasafni Jóns forseta hafi endað í pappírsmyllum Kaupmannahafnar. Ástæðan er sú að Tryggvi Gunnarsson (1835–1917), alþingismaður, kaupstjóri Gránufélagsins og helsta hjálparhella Jóns síðustu æviárin sem bjó að mestu í Kaupmannahöfn á árunum 1873–1893, fylgdi málinu eftir og var viðstaddur bæði skráningu og endurskoðunargerð dánarbúsins eins og sjá má af bréfi Krabbes. Það er með ólíkindum að Krabbe skuli hafa haldið þessu fram í bréfi sínu án þess að ráðfæra sig við Tryggva sem lést ekki fyrr en sjö árum síðar en hann var þá reyndar fyrir löngu fluttur aftur heim til Íslands.

En hvað hefur glatast úr bréfasafni Jóns? Menn sakna ástarbréfa Jóns og Ingibjargar, auk þess sem vantar varðandi Powellmálið, Íslandssögu sem Jón fékk greitt fyrir að rita, þá munu bréf Gísla Hjálmarssonar, læknis og eins besta vinar Jóns, glötuð frá ákveðnu tímabili; svo eitthvað sé nefnt. Annars hefur það ekki verið rannsakað. Sjálfsagt hefur talsvert glatast og þá helst frá fyrri hluta ævi Jóns, Reykjavíkurárunum og fyrstu árunum í Höfn og að lokinni Garðsvist þegar títt var skipt um bústaði. Eftir að framtíðarhúsnæði við Øster Voldgade var tryggt, haustið 1852, hafa aðstæður til langtímavarðveislu verið mun betri. 

Eina leiðin til þess að átta sig á því hvað vantar í bréfasafn Jóns er að lesa sig í gegnum það og bréf hans til bréfavina sinna því að menn byrja gjarnan bréf sín á því að þakka fyrir síðasta bréf sem þeim barst. Þá er gjarnan dagsetningar getið svo að ljóst sé hvaða bréfi er verið að svara en þannig gat viðtakandi bréfsins áttað sig á því hvort bréf hans hafði skilað sér á leiðarenda eða ekki. Menn þurfa hins vegar að vera mjög vel að sér í sögu Jóns til þess að átta sig á eyðum í bréfasafni hans. Eins og kunnugt er skildu leiðir í pólitík milli Jóns og Gríms Thomsens, Gísla Brynjólfssonar og Arnljóts Ólafssonar og því skiljanlegt að bréfaskriftir féllu að mestu niður við slíkar kringumstæður. Hins vegar þarf maður að vera mjög vel inni í málunum þegar kemur að lítt þekktari einstaklingum. Þannig var Magnús Einarsson (1809–1870) á Hvilft í Önundarfirði einn ötulasti stuðningsmaður Jóns og átti drjúgan þátt í því að hann hlaut fyrst kosningu til Alþingis árið 1845. Bréfaskipti þeirra féllu hins vegar með öllu niður árið 1858 af óljósum ástæðum. Magnús var þá um fimmtugt og átti 12 ár eftir ólifuð. Hann fluttist síðar til tvíburabróður síns, Ásgeirs alþingismanns á Þingeyrum, og lét eftir það nægja að skila kveðju sinni í bréfum Ásgeirs til Jóns. Það þarf yfirburðaþekkingu til þess að átta sig á því að þarna hafi ekkert glatast og bjó Lúðvík Kristjánsson (1911–2000), kennari og sérfræðingur í Jóni Sigurðssyni, yfir henni þó að honum hafi ekki tekist að grafa upp ástæðuna að baki vinslitunum. Eyður í bréfasöfnum þurfa því ekki að þýða að bréf hafi glatast heldur geta aðrar ástæður legið að baki og þarf rannsókn að liggja fyrir áður en slíkar fullyrðingar eru settar fram.

Þegar elsta afhendingabók Þjóðskjalasafns er skoðuð má sjá að þann 17. maí 1916 afhenti Lovísa Jensson 12 böggla sem innihéldu bréfasafn Jóns Sigurðssonar og komið var frá erfingjum hans. Jón þjóðskjalavörður getur þess jafnframt að hann hafi kvittað fyrir afhendinguna með bréfi dagsettu 7. október 1916 sem hefur þó ekki verið fært inn í bréfabók safnsins. Jens Sigurðsson (1813–1872), bróðir Jóns forseta, átti ekki dóttur með þessu nafni. Björn Jensson (1852–1904), sonur hans og aðjunkt við Lærða skólann í Reykjavík, átti hins vegar konu sem hét Lovísa og tók hún eftirnafnið Jensson við giftingu. Lovísa eða Louise, sem hét reyndar fullu nafni Henriette Louise (1860–1919), var dóttir Henriks Henkels Svendsens (1820–1862) kaupmanns á Djúpavogi og (Arnórínu) Augustu Snorradóttur Svendsen (1835–1924) sem rak hannyrðaverslun í Reykjavík frá 1887. Eftir andlát Henriks árið 1862 flutti Augusta til Ísafjarðar með Lovísu en þær sneru svo aftur út til Kaupmannahafnar og ráku þar matsölu um hríð. Þær höfðu fjölda íslenskra stúdenta í fæði og þannig mun Lovísa sjálfsagt hafa kynnst Birni. Björn bjó í íbúð Jóns og Ingibjargar við Austurvegg væntanlega fram í fardaga vorið 1880 en þar má finna hann, ásamt Þóru Pálsdóttur þjónustustúlku, 1. febrúar 1880 þegar allsherjarmanntal var tekið í Kaupmannahöfn. Björn fékk kennarastöðu við Lærða skólann haustið 1883 og flutti þá heim. Þær mæðgur má hins vegar finna í allsherjarmanntali 1. febrúar 1885 og reka þá gistiheimili með matsölu (d. pensionat) á Ole Suhrs gade 8, 4. sal. Þær hafa væntanlega haldið heimleiðis skömmu síðar því að þau Björn og Louise gengu í hjónaband 27. júlí 1886 í Dómkirkjunni í Reykjavík.

Þær mæðgur munu ábyrgar fyrir mergjaðri sögu frá minningarathöfn Jóns forseta í Garnisonskirkju 13. desember 1879. Þær sögðu frá því að „[…] í kirkjuna hefði komið kona, ein síns liðs, í hærra lagi, tíguleg í framgöngu, sorgarbúin og með svo þétta svarta slæðu, að andlitsdrættir urðu ekki greindir. Hún tók sér sæti framarlega í kirkjunni, og þegar athöfnin byrjaði, setti að henni óviðráðanlegan ekka. Enginn Íslendinganna bar kennsl á hana.“ Þessa sögu sögðu þær Arndísi, dóttur Louise, og Ólöfu, dóttur Jóns Jenssonar, Sigurðssonar (1855–1915) yfirdómara, og eiginkonu Sigurðar Nordals prófessors sem skrásetti frásögnina.

Jón þjóðskjalavörður gerði skrá yfir þessa 12 böggla og er fjölda bréfa og fylgiskjala getið þar. Galli á skránni er hins vegar sá að þar er aðeins getið um fjölda bréfa frá hverjum bréfritara og hvaða tímabil bréfin spanna, þ.e. ártöl elsta og yngsta bréfs hvers bréfritara en hvert bréf ekki tilgreint sérstaklega. Það var svo í tíð Hannesar Þorsteinssonar (1860–1935) þjóðskjalavarðar að við safnið bættist. Þann 10. maí 1929 bárust Þjóðskjalasafni, úr dánarbúi Jóns Jenssonar, tveir skjalapakkar með mörgum bréfum til Jóns Sigurðssonar. Hannes getur þess að bréfunum hafi verið raðað saman við eldra safnið sem gerir manni erfitt um vik að átta sig nákvæmlega á hvaða bréf þetta voru. Bréfum þeirra bréfritara, sem borist höfðu með fyrri afhendingunni, bætti Hannes inn í arkirnar sem Jón þjóðskjalavörður hafði útbúið fyrir bréf hvers bréfritara og krotaði ofan í það sem þar stóð til þess að leiðrétta bréfafjöldann. En þegar um nýjan bréfritara var að ræða, sem ekki var í fyrri afhendingunni, þá útbjó hann nýjar arkir utan um þau bréf og skrifaði nöfn þeirra og fjölda bréfa utan á þær. Þess má jafnframt geta að E. 104, sem inniheldur skjöl Hins íslenska bókmenntafélags frá fyrri hluta 19. aldar, barst einnig að mestu úr dánarbúi Jóns Jenssonar.

Elsta skrá yfir bréfasafn Jóns forseta var væntanlega gerð strax í kjölfar þess að það var afhent Þjóðskjalasafni árið 1916. Því miður liggur ekki fyrir skrá yfir afhendinguna, sem barst árið 1929, frá hendi Hannesar þjóðskjalavarðar. Þegar Lúðvík Kristjánsson hófst fyrst handa við að vinna með bréfasafn Jóns, sem hefur verið fyrir 1953 er fyrsta bindi Vestlendinga kom út og enn 1961 þegar Á slóðum Jóns Sigurðssonar kom út, þá var bréfasafn Jóns í tíu bindum. Í grein sem birtist í árslok 1958 er vitnað í bréfasafnið, í þeim skorðum sem það var þá í, með eftirfarandi hætti „Eftir að þetta var skrifað hefur fundist í Þjóðskjalasafninu meðal bréfa Jóns Sigurðssonar forseta, (Bréfaböggull merktur K–N.) […]“ 

Þegar Lúðvík var að vinna að þessum bókum sínum virðist sem ekki hafi verið búið mjög vel um skjölin en nokkru síðar var gerð bragarbót þar á. Í blaðagrein frá árinu 1967 segir Lúðvík: „Sjálfur hefur Stefán Pétursson búið svo um bréfasafn Jóns Sigurðssonar að stórsómi er að, en þau lágu undir áföllum, þótt ekki sé um eldri gögn að ræða.“ Stefán var þjóðskjalavörður á árunum 1957–1968. Hann sló nýjum örkum utan um eldri arkir þeirra Jóns og Hannesar og skrifaði framan á þær nöfn bréfritara, dagsetningar allra bréfa þeirra og nefndi að mestu öll fylgiskjöl. Þá hefur verið gerð vélrituð spjaldskrá, væntanlega í tengslum við þessa vinnu, með sömu upplýsingum og koma fram á örkum Stefáns. 

Páll Bjarnason cand. mag. tók saman skrá yfir bréf Jóns forseta og bréfasafn hans sem var gefin út árið 1974. Þar er getið nafna bréfritara, fjöldi bréfa hvers bréfritara, hvort bréfið sé varðveitt í Þjóðskjalasafni eða Landsbókasafni og svo árabilið sem bréf hvers bréfritara spanna. Það var svo árið 1993 sem skrá yfir einkaskjalasöfn Þjóðskjalasafns var gefin út og þar fékk skjalasafn Jóns forseta safnmarkið E.10 og er bréfasafnið þar í 16 öskjum. Þar er dagsetninga bréfa ekki getið en hvert ár talið upp og ef fleira en eitt bréf er frá hverju ári þá er tölustafur innan sviga aftan við ártalið sem sýnir fjölda bréfa hvers árs. Svo virðist sem þar hafi verið byggt á skrá Páls því að Vigfús Sigfússon, síðast veitingamaður á Hótel Akureyri, gleymist á báðum stöðum. Páll byggir hins vegar á Stefáni því að hann tekur upp villu þaðan þar sem Theodor Havsteen sparisjóðsstjóri í Hróarskeldu er búinn til úr J. Th. Hansteen dýralækni. Í því tilviki er hvorki örk frá Jóni né Hannesi utan um bréfin heldur örk með ókunnugri hendi sem Stefán hefur farið eftir.

Hvað feril bréfasafns Jóns forseta varðar, það er þess hluta sem varðveittur er í Þjóðskjalasafni, þá mun atburðarásin væntanlega hafa verið einhvern veginn á þessa leið: Tryggvi Gunnarsson krafðist allra gagna Jóns forseta frá skiptaréttinum í Kaupmannahöfn og bjargaði þeim þannig frá pappírsmyllunum. Eftir að hafa farið í gegnum bréfasafn Jóns, sem vitað er að Tryggvi hafði undir höndum í árslok 1882, kom hann því í hendur bróðursona hans, þeim Birni og Jóni Jenssonum. Í kjölfar andláts þeirra bræðra bárust bréfin svo Þjóðskjalasafni frá ekkjum þeirra og erfingjum. Það er athyglisvert að umbúnaður bréfa Tryggva til Jóns forseta er með allt öðrum hætti en annarra bréfritara en bréf þeirra eru í langflestum tilvika annað hvort í örkum gerðum af Jóni eða Hannesi þjóðskjalavörðum. Ástæða þess er væntanlega sú að Tryggvi hefur tekið sín bréf frá þegar hann fékk bréfasafnið frá skiptaréttinum. Þau hafa því aldrei komist í hendur þeirra Jenssona heldur borist Þjóðskjalasafni, væntanlega 31. desember 1926 en þá bárust safninu bréf Tryggva Gunnarssonar en ekki er getið í aðfangabók til hvers þau voru skrifuð. Vitað er að Tryggvi tók eitthvað af bréfum Eiríks Magnússonar bókavarðar í Cambridge út úr bréfasafni Jóns í árslok 1882 og sendi honum.

Það verður að teljast ólíklegt að einhverjum bréfum hafi vísvitandi verið eytt úr bréfasafni Jóns forseta að honum látnum en hafi það verið gert þá mun líklegasti sökudólgurinn vera Tryggvi Gunnarsson sjálfur. Hann virðist hafa verið ofurmeðvitaður um það að skapa þjóðardýrling úr Jóni forseta eftir andlát hans. Tryggvi keypti föt Jóns, persónulega muni og húsgögn af skiptaréttinum í þeim tilgangi að koma á fót safni um þennan helsta forystumann sjálfstæðisbaráttunnar, samanber Minjasafn Jóns Sigurðssonar, nú í Þjóðminjasafni. Slíkur maður hefur passað upp á að krefjast þess að fá allt, sem erfingjarnir áttu rétt á að fá, til baka frá skiptaréttinum en var jafnframt líklegastur til að láta einhver óþægileg bréf hverfa sem hann taldi varpa skugga á ásýnd þjóðhetjunnar.

Höfundur kynningartexta: Gísli Baldur Róbertsson

Heimildir

  • ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. Án safnmarks. Afhendingabók 1900–1952, bls. 36, 66, 121, 140, 145, 147.
  • ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. DA/3, örk 2. Skrá um sendibréf til Jóns Sigurðssonar, sem afhent voru Þjóðskjalasafni til eignar 17. maí 1916.
  • ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. DA/28. Spjaldskrá yfir bréfasafn Jóns Sigurðssonar í Þjóðskjalasafni.
  • ÞÍ. Seltjarnarnesþing. Dómkirkjan í Reykjavík. BA/10, örk 1. Prestsþjónustubók 1881–1898, bls. 399.
  • ÞÍ. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. B/5, örk 24. Bréf Eiríks Magnússonar bókavarðar í Cambridge, 12. desember 1882. [Í þessu bréfi segir Eiríkur að bréf sín til Jóns Sigurðssonar séu vel geymd í tryggri hönd Tryggva en hann myndi gjarnan vilja fá þau og geyma þau sjálfur. Tryggvi hefur sent honum bréfin því í bréfasafni Eiríks má finna bréf hans til Jóns Sigurðssonar, sbr. Lbs 2180 4to.]
  • Staatsbibliothek zu Berlin. Handschriftenabteilung. Nachl. Homeyer, Ka. 1, mappen 1–2. Bréf Jóns Sigurðssonar, 9. júlí 1868 ásamt ritgerð hans um innsigli og búmerki.
  • „Aðsent“, Norðanfari nr. 23–24, desember 1862, bls. 96.
  • Auður Sveinsdóttir, „Verzlun Augustu Svendsen“, Hugur og hönd 6 (1971), bls. 26–29.
  • Einkaskjalasöfn E. nr. 1–300. Júníus Kristinsson tók saman. Skrár Þjóðskjalasafns – Nýr flokkur 2. Reykjavík 1992, bls. 52, 73, 246–249.
  • Friðrik Á. Brekkan, „Minjasafn Jóns Sigurðssonar“, Lesbók Morgunblaðsins xxix. árg., 18. tbl. (16. maí 1954), bls. 340–343. 
  • Gísli Baldur Róbertsson, „Var hluta bréfasafns Jóns Sigurðssonar forseta (1811–1879) fargað að honum látnum?“ Heimild mánaðarins á vef Þjóðskjalasafns Íslands í mars 2023.
  • Guðjón Friðriksson, Jón Sigurðsson. Ævisaga I. Reykjavík 2002, bls. 69, 369.
  • Guðlaugur Jónsson, „Kolviðarneslaug og Sund-Gestur“, Sunnudagsblaðið 3. árg., 42.–44. tbl. (jólin 1958), bls. 661–664, 678–684, bein tilvitnun af bls. 682.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948, bls. 223.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 16–17, 163–164.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 V. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1952, bls. 32.
  • Lúðvík Kristjánsson, Vestlendingar II, 1. Reykjavík 1955, bls. 20, 52–54.
  • Lúðvík Kristjánsson, Á slóðum Jóns Sigurðssonar. [Hafnarfjörður], 1961, bls. 332–333, 345.
  • Lúðvík Kristjánsson, „Ábendingar til Þjóðhátíðarnefndar 1974“, Morgunblaðið 54. árg., 83. tbl. (13. apríl 1967), bls. 17.
  • Matthías Þórðarson, „Bréfaviðskifti Jóns Sigurðssonar forseta og Sigurðar Guðmundssonar málara 1861–1874, með athugasemdum og skýringum“, Árbók Hins íslenzka fornleifafjelags 42 (1929), bls. 34–107, sbr. bls. 99. 
  • Páll Bjarnason, „Bréf Jóns Sigurðssonar forseta“, Árbók Landsbókasafns Íslands 30 (1973), bls. 137–162, sjá bls. 137.
  • Páll Eggert Ólason, „Landsbókasafnið. Stutt yfirlit.“ Árbók Landsbókasafns Íslands 1 (1944), bls. 45–78, sjá bls. 66.
  • Sigfús Haukur Andrésson, Þjóðskjalasafn Íslands. Ágrip af sögu þess og yfirlit um heimildasöfn þar. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 1. Reykjavík 1982, bls. 31.
  • Sigurður Nordal, „Úr launkofum“, Afmælisrit Jóns Helgasonar 30. júní 1969. Reykjavík 1969, bls. 160–169, bein tilvitnun af bls. 167.
  • Sveinbjörn Rafnsson, Um skjalfræði. Reykjavík 1977, bls. 86–91. Viðbætir, bls. 1–5. [Þetta fjölrit var síðar gefið út undir heitinu: Skrift, skjöl og skjalasöfn. Ágrip af skjalfræði. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 2. Reykjavík 1980. En þá var ritgerð Jóns Sigurðssonar um innsigli og búmörk ekki tekin með. Hún var hins vegar notuð um árabil í fjölriti við skjalfræðikennslu við Háskóla Íslands.]
  • Vef. Manntalsvefur Ríkisskjalasafns Danmerkur. Dansk demografisk database (www.ddd.dda.dk). Myndir af manntölunum má finna á: Arkivalieronline.
Skrá yfir bréfasafn Jóns Sigurðssonar sem barst árið 1916 með hendi Jóns Þorkelssonar. (ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands DA/3, örk 2.)
Skrá yfir bréfasafn Jóns Sigurðssonar sem barst árið 1916 með hendi Jóns Þorkelssonar. (ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands DA/3, örk 2.)
Bréfasafn Jóns Sigurðssonar, örk með hendi Stefáns Péturssonar. (ÞÍ. E.10, askja 14.)
Bréfasafn Jóns Sigurðssonar, örk með hendi Jóns Þorkelssonar og leiðréttingu á bréfafjölda með hendi Hannesar Þorsteinssonar. (ÞÍ. E.10, askja 14.)
Bréfasafn Jóns Sigurðssonar, örk með hendi Hannesar Þorsteinssonar. (ÞÍ. E.10, askja 14.)
Bréfasafn Jóns Sigurðssonar, bréf Tryggva Gunnarssonar, örk með óþekktri hendi. (ÞÍ. E.10, askja 14.)
Bréf Eiríks Magnússonar til Tryggva Gunnarssonar, 12. desember 1882. (ÞÍ. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. B/5, örk 24.)
Bréf Eiríks Magnússonar til Tryggva Gunnarssonar, 12. desember 1882. (ÞÍ. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. B/5, örk 24.)
Bréf Eiríks Magnússonar til Tryggva Gunnarssonar, 12. desember 1882. (ÞÍ. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. B/5, örk 24.)
Bréf Eiríks Magnússonar til Tryggva Gunnarssonar, 12. desember 1882. (ÞÍ. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. B/5, örk 24.)
Bréf Eiríks Magnússonar til Tryggva Gunnarssonar, 12. desember 1882. (ÞÍ. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. B/5, örk 24.)
Bréf Eiríks Magnússonar til Tryggva Gunnarssonar, 12. desember 1882. (ÞÍ. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. B/5, örk 24.)