Apríl 2024

Hver var Karítas Jónsdóttir (1834–1882) sem skildi eftir sig lítinn miða í bréfasafni Jóns Sigurðssonar forseta?

ÞÍ E.10, örk 16. Jón Sigurðsson. Bréf Karitasar Jónsdóttur til Jóns Sigurðssonar

Hluti bréfasafns Jóns Sigurðssonar forseta er geymdur í 16 öskjum á Þjóðskjalasafni. Utan á öftustu örkinni í síðustu öskjunni stendur: „Óraðað bréfarusl“. Þetta eru bréf og fylgiskjöl bréfa þar sem ekki hefur tekist að lesa undirskriftir bréfritara eða bera kennsl á þá. Þar fremst er lítill ódagsettur miði sem er 13,4 cm á breidd og 11,2 cm á hæð. Innihald hans er svohljóðandi:

„Goði Herr Sigurðson. Þettað eru númerinn sem vöntuðu í norsku blöðin i Ágúst mánuði – Þaug koma so óreglulega Nú vantar aftur tvö Númer sem jeg hef skrifað upp og beðið póstboðið að skaffa til vegar – iðar þakkláta Karítas jónsdottir.“

Þetta er ekki sendibréf heldur orðsending sem sendiboða hefur verið falið að koma til viðtakanda. Þó ef til vill frekar miði skrifaður í flýti þegar í ráði var að færa Jóni norsku dagblöðin sem vantaði fyrir ágústmánuð en hann var ekki heima og blöðin því skilin eftir ásamt miðanum sem útskýrði hvernig á þeim stóð.

Leitin að Karítas hefst því í Kaupmannahöfn. Þar finnst í manntalinu árið 1860 kona með þessu nafni. Karítas Jónsdóttir er þar sögð þjónustustúlka, 26 ára gömul og því fædd árið 1834. Hún var í þjónustu fjölskyldu sem bjó í kjallara við Kongens Nytorv 271 (nyt nr. 2), það er Charlottenborg þar sem listaháskólinn (d. kunstakademiet) var til húsa. Í kjallaranum bjuggu Søren Sørensen 70 ára ekkjumaður og starfsmaður (d. opvarter) við listaháskólann eins og sonur hans Peter Sørensen Grauballe, 38 ára, með konu og þrjú börn á aldrinum 2–5 ára. Þegar getið er fæðingarstaðar þá er Karítas sögð hafa fæðst í Langholtssókn í Skaftafellssýslu á Íslandi.

Sjá má af manntalinu 1835 að fjölskylda Karítasar bjó í Lágu-Kotey í Langholtssókn í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hennar voru Jón Brynjólfsson 34 ára bóndi og meðhjálpari og Evlalía Erlendsdóttir 37 ára húsfreyja og áttu þau fimm börn á aldrinum 1–13 ára. Jón var sonur séra Brynjólfs Árnasonar í Meðallandsþingum. Á meðal barna þeirra hjóna var Vigfús Jónsson rímnaskáld (1836–1870) en hann samdi rímur af Sörla sterka. Karítas var yngst, aðeins eins árs gömul, og af prestsþjónustubók Langholts í Meðallandi eða Meðallandsþinga má sjá að hún var fædd 7. júlí 1834 og skírð samdægurs.

Fjölskyldan hafði flutt sig um set innan Langholtssóknar og var á Hrauni þegar manntal var tekið árið 1840. Þar vantar hins vegar Karítas en hana má finna á bænum Berjanesi í Steinasókn í Rangárvallasýslu. Í sóknarmannatali Eyvindarhólaprestakalls árið 1835 má sjá að á fjórða býli Berjaness bjuggu Nikulás Ingjaldsson og kona hans Helga Jónsdóttir ásamt þremur börnum sínum og tveggja ára gömlu tökubarni að nafni Karítas Jónsdóttir. Önnur dóttir þeirra hjóna bar nafnið Evlalía eins og móðir Karítasar svo þar á milli hljóta að vera einhver tengsl. Nafnið er mjög sjaldgæft en Evlalía var píslarvottur (dáin 304 eftir Krist), verndardýrlingur Barcelonaborgar og er messudagur hennar 10. desember. Nafnið er grískt að uppruna og merkir fagurtöluð. Í sóknarmannatali árið 1843 var Helga Jónsdóttir fyrst færð til bókar sem ekkja og til heimilis hjá henni voru dóttir hennar Evlalía, Karítas, Hallur Jónsson 55 ára niðursetningur og Erlendur Stefánsson 70 ára húsmaður.

Í manntalinu 1845 má enn finna Karítas í Berjanesi, 12 ára fósturbarn, til heimilis hjá Helgu Jónsdóttur, 61 árs gamalli ekkju, ásamt Evlalíu Nikulásdóttur 25 ára gamalli dóttur hennar. Árið 1847 fór Helga í hornið hjá Nikulási syni sínum sem bjó á 2. býli Berjanesskots en Evlalía og Karítas voru þá horfnar á braut. Í prestsþjónustubók Steina undir Eyjafjöllum má sjá að Karítas fluttist úr sókninni árið 1847, þá 12 ára gömul, frá Berjanesi að Vesturholtum í Holtssókn. Prestur færði til bókar illlæsilegt orð varðandi Karítas sem er líkast til „kennslubarn“ og í athugasemdadálki skrifaði hann: „Í náunganafni“. Það virðist því sem að hún hafi verið send á heimili sem gat búið hana undir fermingu. Í Vesturholtum bjuggu hjónin Jón Jónsson og Ragnhildur Gísladóttir. Karítas var fermd af séra Þorvarði Jónssyni í Holtskirkju árið 1849 þá 15 ára gömul. Að dómi séra Þorvarðs var kunnátta og siðferði hennar í meðallagi. Karítas staldraði þó ekki lengi við í Vesturholtum heldur vék burt úr sókninni sama ár, sögð 15 ára gömul vikastúlka. Hins vegar greindi presturinn ekki hvert för hennar var heitið heldur aðeins að hún væri á förum frá Vesturholtum.

Karítas fór hins vegar aftur til foreldra sinna sem bjuggu að Söndum í Langholtssókn eins og sjá má af manntalinu 1850. Hún staldraði stutt við þar og vék burt úr sókninni sama ár, þá 16 ára léttakind, og fór frá Söndum að Hrísnesi [Hrífunesi] í Ásasókn. Þar bjuggu þá Einar Bjarnason og Guðrún Jónsdóttir kona hans ásamt syni sínum og sjö heimilismönnum. Í sóknarmannatali, sem tekið var í desembermánuði af séra Þorkeli Eyjólfssyni, má finna Karítas 16 ára vinnukonu í Hrísnesi. Hegðun hennar var óátalin að mati prests sem þýðir væntanlega að hann hafi ekki þurft að hafa afskipti af framferði hennar. Loks gaf hann henni þá einkunn varðandi kunnáttu hennar að hún væri gáfuð en ekki vel að sér í kristindómi. Í sóknarmannatali árið 1851 kom það sama fram en ári síðar færði prestur til bókar að hún hefði: „einslags gáfur“. Árið 1853 var hún hins vegar horfin á braut og fór aftur til Sanda þar sem fjölskylda hennar bjó. Hún var þó ekki hjá þeim þegar manntal var tekið árið 1855.

Í manntalinu 1855 má sjá að Karítas var komin til Vestmannaeyja og kann ástæðan fyrir því að vera sú að Evalía Nikulásdóttir, uppeldissystir hennar, bjó þá í Vestmannaeyjum og var gift Jóni Guðmundssyni tómthúsmanni og sjómanni í Móhúsum. Karítas var hins vegar til heimilis á Ofanleiti hjá séra Jóni Austmann og Þórdísi Magnúsdóttur konu hans, sögð 22 ára gömul vinnukona. Í prestsþjónustubók má sjá að hún kom í sóknina árið 1855 úr Meðallandi. Hún var hjá séra Jóni aðeins árið 1855 en hafði svo vistaskipti því árið 1856 má finna hana í Godthaab hjá kaupmannshjónunum Jens Christian Þorvaldi Abel og konu hans Jóhönnu. Í sóknarmannatali árið 1856 gaf prestur henni þá einkunn að hún væri: „rétt vel að sér“. Karítas átti ekki eftir að dvelja lengi í Vestmannaeyjum því að árið 1857 skráði prestur hana burtvikna úr sókninni. Þar var hún í hópi mormóna sem fóru til Englands en þaðan var förinni heitið áfram til Ameríku.

Áform Karítasar fóru þó á annan veg eins og sjá má af aðsendri grein í Þjóðólfi 29. ágúst 1857 eftir Brynjólf Jónsson í Vestmannaeyjum. Þar segir:

Þessir allir, 13 að tölu, fóru þann 7. júní með skipi héðan til Englands, til þess þaðan að komast til Vesturálfu. En svo er haft eptir skipherranum, sem flutti þá þángað, að þeim hafi heldur en ekki orðið annars hugar við, er þángað var komið, því þá barst fregn vestan að um ófrið meðal sjálfra Mormóna, sem svo mikil brögð væri að, að þeir (þessir heilögu) dræpi hver annan, og jafnvel væri búið að stytta aldur sjálfum æðsta foríngjanum, Brigham Young; varð þeim þá flestum helzt í mun að snúa aptur, þó ei yrði af því; tveir þeirra, Íngun Larsdóttir og Karítas Jónsdóttir slitu félagið og fóru til Kaupmannahafnar. 

Nánari upplýsingar má finna í grein eftir Magnús Bjarnason mormóna en þar kemur eftirfarandi fram:

Við vorum nú (1857) ellefu mormónar á eyjunni (Vestmannaeyjum) og höfðum öll fest okkur far með skútunni „Adolfina,“ sem við sigldum með til Englands 7. júní 1857. Eftir þriggja vikna ferðalag komum við til Liverpool í Englandi, þar sem við biðum í þrjár vikur til viðbótar, en 18. júlí 1857 sigldum við loks frá Liverpool með flutningaskipinu „Wyoming“ og eftir sjö vikna dvöl á Atlantshafinu komum við til Fíladelfíu í Bandaríkjunum.

Þá getur Magnús þess að á leiðinni hafi tveir úr hópnum fallið frá kirkjunni, það er Karítas og Ingunn. Þær hafa því væntanlega haldið til Kaupmannahafnar frá Liverpool, ef til vill með skonnortunni Adolphine. Samferðafólki þeirra hefur þó ekki staðið á sama um örlög þeirra. Í bréfi Vigdísar Björnsdóttur, 28. ágúst 1866, skrifuðu í Spanish Fork tæplega tíu árum síðar spyr hún vinkonu sína í Vestmannaeyjum út í þær stöllur. Í bréfinu segir: „Seig mér hvort þú hefur heyrt nokkuð frá Ingu Larsdóttur, sem skildi við okkur í Englandi í sameiningu með Karitas Jónsdóttur.“

Ingunn Anne Marie (1841–1929) var dóttir Lars Tranbergs skipstjóra og hafnsögumanns í Vestmannaeyjum og fyrri konu hans Guðrúnar Sigurðardóttur. Í manntalinu 1860 er hún sögð 19 ára þjónustustúlka í Lille Helliggejststræde nr. 13 hjá Jens Frederik Søborg bókaverði og konu hans Emmu Margrethe (fædd Mogensen). Ingunn giftist síðar Ulrik Emilius Mogensen sem var skipasmiður í sjóhernum og bjuggu þau í Nýbúðum árið 1870, nánar til tekið við Elgsgötu 47b (d. Elsdyrsgade). Þess má geta að þær Ingunn og Karítas voru frá komu sinni til Kaupmannahafnar ávallt skráðar sem lútherstrúar þegar innt var eftir trúfélagi við töku allsherjarmanntala.

Karítas fékk vinnu sem þjónustustúlka hjá Grauballe-fjölskyldunni í kjallaranum á listaháskólanum við Kongens Nytorv þar sem hana má finna árið 1860 eins og getið var í upphafi. Hún gekk í hjónaband í sankti Jóhannesar kirkju árið 1862 að því er virðist en ekki hefur verið færður inn brúðkaupsdagur. Færslan á undan er frá 5. apríl en sú næsta á eftir frá 4. maí. Þá eru giftingarmenn brúðhjónanna ekki heldur tilgreindir í prestsþjónustubókinni. Það er því spurning hvort af brúðkaupinu hafi orðið. Tilvonandi eiginmaður hennar hét Peder Christian Pedersen verkamaður og ekkill. Hann var 42 ára og því fæddur árið 1820. Heimilsfang þeirra var sagt Store Vibenshus 9.

Árið 1870 má sjá að föðurnafn hinnar 35 ára gömlu Karítasar hefur tekið á sig danska mynd og breyst í eftirnafnið Johnsen. Þá leigði hún hjá Johanne Petersen sem var 65 ára gömul ekkja frá Holbæk. Þær bjuggu í kvistíbúð í framhúsi við Dybensgade 4. Atvinna beggja var sögð vera handavinna (d. håndarbejde) og Karítas sögð ógift, þannig að annað hvort hefur ekkert orðið af brúðkaupinu eða þau hafa skilið.

Í manntalinu 1880 má sjá að Karítas bjó í Lille Kongensgade 5, 1. sal. Nú var hún orðin húsráðandi, sögð fædd árið 1835 og vinna sem hárgreiðslukona (d. frisørinde). Hún var með 2 ára fósturbarn í umsjá sinni Anna Sofie Hansen að nafni. Þá var þar einnig til húsa Jóhanna Grönvold 28 ára, ógift þjónustustúlka, ásamt dóttur sinni, Katrínu Elísabetu Grönvold, sem var ekki ársgömul. Þar var að auki Sigríður Guðmundsdóttir, þrítug ógift Reykjavíkurmær og skyldmenni Karítasar sem starfaði við kvennavinnu (d. kvindeligt arbejde). Loks leigðu tveir íslenskir iðnnemar hjá henni; þeir Gísli Jónsson, 22 ára beykislærlingur úr Lóni og Sigurður Jónsson 20 ára trésmíðalærlingur úr Berufirði.

Því miður hefur ekki tekist að grafa neitt upp um hárgreiðslukonustarfið en Karítas mun eflaust vera á meðal fyrstu íslensku kvenna sem hafa starfað við þá iðju. Þó má benda á að hún setti auglýsingu í Kjøbenhavns Adressecomptoirs Efterretninger sem var, eins og nafnið gefur til kynna, dagblað sem birti smáauglýsingar. Þann 27. nóvember 1875 birtist auglýsing þar sem hún lýsti eftir hárgreiðsluáhöldum sem hún hafði týnt á leiðinni frá Vingaardstræde, yfir Kongens Nytorv og til Kongensgade. Það sem hún saknaði var „[e]n mørk Haarsnoning og 5 Bukler“ sem mun væntanlega vera einhvers konar áhald til að vefja hárið upp á og 5 rúllur. Samkvæmt orðabók frá miðri 19. öld má finna eftirfarandi skýringu á orðinu bukkel: „Sætte Haaret i Bukler hringleggja (hringa) (hár)lokkana.“ Karítas bað finnandann að skila þessu til sín á heimilisfang sitt sem var Vingårdstræde 20, 5. salur. Það virðist því sem hún hafi sótt viðskiptavini sína heim en þeir ekki komið til hennar.

Eftir þetta fór hins vegar að halla undan fæti hjá Karítas. Hún veiktist og var lögð inn á Friðriksspítala og dó þar 25. nóvember 1882, aðeins 48 ára gömul. Fram kemur í prestsþjónustubók spítalakirkjunnar að heimilisfang hennar hafi þá verið Dronningens Tværgade 50, 3. salur. Jarðarförin fór fram frá kirkju heilags Páls, sem var sóknarkirkja hennar, þann 1. desember klukkan ellefu. Hún var jörðuð í Vesturkirkjugarði (d. Vester kirkegård) við Suðurhöfn (d. Sydhavn) á Vesturbrú, steinsnar frá hinu sögufræga Carlsbergbrugghúsi. Þegar legstaðaskrá kirkjugarðsins er skoðuð kemur í ljós að dánarmein hennar var „cancer uteri“ eða leghálskrabbamein.

En hvers vegna fól Jón Sigurðsson Karítas að útvega sér norsk dagblöð? Því er vandsvarað en hugsanleg skýring gæti verið sú að árið 1852 fjölgaði pósturinn í Kaupmannahöfn bréfhirðingarstöðum og þá var samið við kráareigendur og vegtollheimtumenn um að taka við bréfum, dagblöðum og smápökkum til og frá íbúum Kaupmannahafnar og nágrennis. Árið 1853 bættist Store Vibenshus við sem bréfhirðingarstaður. Store Vibenshus var vegtollheimtuhús við vegamót úti á Austurbrú þar sem Jagtvej, Lyngbyvej og Nørre Allé komu saman en þar er nú neðanjarðarlestarstöð sem kennd er við Vibenshushringtorgið. Eins og sjá má að framan þá bjó Karítas þar árið 1862 og svo virðist sem hún hafi haft einhver afskipti af pósti Jóns. Hún hafði að minnsta kosti milligöngu um að þessi norsku dagblöð bárust honum og sá til þess að bréfberinn útvegaði þau tölublöð sem upp á vantaði. Þetta gæti því hugsanlega dagsett miðann og hann þess vegna ef til vill verið frá því í september 1862 þegar Karítas lagði leið sína út að Austurvegg til þess að finna Jón og fá honum dagblöðin en hann var ekki við, hafði brugðið sér frá.

Höfundur kynningartexta: Gísli Baldur Róbertsson

Heimildir

 • ÞÍ. Meðallandsþing. BA/2. Prestsþjónustubók 1816–1859, bls. 49, 163, 291.
 • ÞÍ. Meðallandsþing. BA/3. Prestsþjónustubók 1816–1859, bls. 49, 161, 173.
 • ÞÍ. Ásar í Skaftártungu. BA/3. Prestsþjónustubók 1816–1878, bls. 69.
 • ÞÍ. Ásar í Skaftártungu. BC/1. Sóknarmannatal 1831–1854, bls. 191, 202, 212, 222–223.
 • ÞÍ. Eyvindarhólar undir Eyjafjöllum. Steinar undir Eyjafjöllum. BA/5. Prestsþjónustubók 1816–1876, bls. 105.
 • ÞÍ. Eyvindarhólar undir Eyjafjöllum. BC/4. Sóknarmannatal 1835–1839, bls. 34.
 • ÞÍ. Eyvindarhólar undir Eyjafjöllum. BC/5. Sóknarmannatal 1840–1850, bls. 54, 120.
 • ÞÍ. Holt undir Eyjafjöllum. BA/2. Prestsþjónustubók 1816–1878, bls. 105, 225.
 • ÞÍ. Vestmannaeyjar. BA/6. Prestsþjónustubók 1846–1863, bls. 127, 172.
 • ÞÍ. Vestmannaeyjar. BC/4. Sóknarmannatal 1853–1860, bl. 50v og 66v.
 • SA. Det kgl. Frederiks hospitalskirke. Kontraministerialbog. Døde M/K 1882–Døde M/K 1892, bls. 14.
 • SA. København Sankt Pauls sogn. Kontraministerialbog. Døde kvinder 1858–1890, opna nr. 217.
 • SA. Sankt Johannes sogn. Hovedministerialbog 1861V–1873V, opna nr. 9.
 • SA. Sankt Johannes sogn. Kontraministerialbog 1861V–1873V, opna nr. 9.
 • Københavns Stadsarkiv. Center for kirkegårde. Begravelsesvæsenet. Begravelsesprotokoller for København. Vester kirkegård 1882–1882 (lb. nr. 3540–6753), bls. 445, lb.nr. 6205.
 • Björn Magnússon, Vestur-Skaftfellingar 1703–1966. Er skráðir fundust á skjölum og bókum. Ásamt skrá um ábúendur jarða og aðra húsráðendur II. Guðriður–Ketill. Reykjavík 1971, bls. 309, 434.
 • Br. Jónsson, „Um „Mormónana“ á Vestmanneyjum“, Þjóðólfur 9. ár, 32.–33. tbl. (29. ágúst 1857), bls. 132–133, bein tilvitnun af bls. 133.
 • „Efterlysning“, Kjøbenhavns Adressecomptoirs Efterretninger 117. árg., nr. 277 (27. nóvember 1875), bls. 2.
 • Finnur Sigmundsson, Rímnatal, Reykjavík 1966, I. bls. 463; II, bls. 142.
 • Gísli Jónsson, „Nöfn Dalamanna 1703–1845 og að nokkru til okkar daga“, Skírnir 165:2 (1991), bls. 400.
 • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 V. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1952, bls. 56.
 • Jón Helgason, Íslendingar í Danmörku fyr og síðar. Reykjavík 1931, bls. 226.
 • Konráð Gíslason, Dönsk orðabók með íslenzkum þýðingum. Kaupmannahöfn 1851, bls. 65.
 • Olsen, Fr., Det Kjøbenhavnske Postvæsen 1624–1912. Kjøbenhavn 1912, bls. 66.
 • Sigfús M. Johnsen, Saga Vestmannaeyja I. Reykjavík 1946, bls. 287–288.
 • Vesturfarar skrifa heim I. Frá íslenzkum mormónum í Utah. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Reykjavík 1975, bls. 43.
 • Woods, Fred E., Eldur á ís. Saga hinna íslensku Síðari daga heilögu heima og að heiman. Friðrik Rafn Guðmundsson þýddi. Reykjavík 2007, bls. 28 (bein tilvitnun).
 • Vef. Manntalsvefur Þjóðskjalasafn (www.manntal.is).
 • Vef. Manntalsvefur Ríkisskjalasafns Danmerkur. Dansk demografisk database (www.ddd.dda.dk). Myndir af manntölunum má finna á: arkivalieronline.
ÞÍ. E. 10, örk 16. Miði Karítasar Jónsdóttur til Jóns Sigurðssonar