Sóknarmannatöl

Nóvember 2012

Sóknarmannatöl

ÞÍ. Kirknasafn. Klyppsstaðarsókn í Loðmundarfirði BC/1. Sóknarmannatal 1790-1815

Sóknarmannatöl eru eins konar manntöl yfir sóknir, venjulega tekin á hverju ári þegar presturinn húsvitjaði í sókninni. Skrá Þjóðskjalasafns Íslands um sóknarmannatöl telur ríflega 1500 sóknarmannatöl frá því um miðja 18. öld og fram yfir 1960. Það elsta er frá Þykkvabæjarklaustri frá árinu 1744, „Registur yfer Ungdom og Ingessfolk sem ej hefur gefed sig i hionaband“. Dæmigerð efnisatriði í sóknarmannatali fram til 1880 voru:

  • Bær/heimili
  • Nafn
  • Stétt/staða
  • Aldur/fæðingardagur
  • Kann að lesa
  • Kann katekismus (kverið)
  • Fermd(ur)
  • Hegðun og breytni
  • Athugasemdir

Það fór svo eftir prestum hvort öll þessi efnisatriði voru færð til bókar.

Árið 1746 var gefin út tilskipun þar sem tiltekin eru efnisatriði sóknarmannatala. Prestar höfðu þó sína hentisemi við framkvæmdina, bæði hvort sóknarmannatöl voru gerð og eins hvernig þau voru færð. Nokkur munur var á milli biskupsdæmanna hvað seinna atriðið varðaði. Í Skálholtsbiskupsdæmi var lögð áhersla á gerð almennra sóknarmannatala en í Hólabiskupsdæmi létu menn sálnaregistur ungdómsins nægja.

Árið 1784 sendu báðir biskupar landsins prestum sínum fyrirmæli um færslu sóknarmannatala ásamt leiðbeiningum um form þeirra og tilhögun skráningar. Prestar virðast hafa brugðist vel við þessum fyrirmælum þannig að færsla sóknarmannatala varð nokkuð almenn eftir það.

Upp úr 1880 var farið að taka í notkun sóknarmannatöl með prentuðu formi. Þá féllu út hegðunarumsagnir, en inn komu dálkar fyrir kunnáttu í lestri, skrift, reikningi og kristindómi barna. Margir prestar héldu þó áfram að skrá í óprentaðar bækur, en fylgdu efnisatriðum prentuðu bókanna að mestu leyti. Hin forprentuðu sóknarmannatöl voru notuð allt fram yfir miðja 20. öld þegar færslu sóknarmannatala var hætt með tilkomu þjóðskrár þótt sóknarmannatöl séu enn lögboðin.

Á 20. öld er farið að skrá í sóknarmannatöl ítarlegri upplýsingar en áður, t.d. fæðingardag og fæðingarstað, heimili næsta ár áður og kirkjufélag.

Líklega hafa langflest sóknarmannatöl varðveist, einkum frá 19. og 20. öld. Þó er vitað að nokkur sóknarmannatöl hafa, ásamt prestsþjónustubókum, glatast í kirkju- og húsbrunum í gegnum tíðina.

Sóknarmannatöl eru góð heimild um íslenska byggða-, menningar- og félagssögu og ómissandi hverjum ættfræðingi eða ævisöguritara. Þó ber að taka þessari ágætu heimild með varúð. Athugasemdir prests um hegðun og breytni sóknarbarna sinna kunna að vera litaðar af samskiptum hans við þau. Þá eru upplýsingar um aldur í sóknarmannatölum mjög ónákvæmar og ber fremur að skoða sem grófa viðmiðun en nákvæm vísindi. Annars hefur heimildagildi sóknarmannatala í einstökum atriðum enn ekki verið kannað. Skráning sóknarmannatala og birting þeirra á netinu gæti stuðlað að auknum rannsóknum á þessum merkilegu heimildum.

Á árinu 2009 hóf Þjóðskjalasafn skráningu á upplýsingum úr sóknarmannatölum og sú vinna er enn í gangi og hefur aðallega hefur farið fram á landsbyggðinni og í tengslum við sérstakt átak stjórnvalda í atvinnumálum síðustu sumrin. Verkefnið byggir á því að sóknarmannatalsbækur eru skannaðar í Þjóðskjalasafni og færðar í sérstakt skráningarkerfi. Þar eru grunnupplýsingar um bækurnar skráðar. Skrásetjarar geta síðan sótt sér skráningarkerfið á vefsíðu Þjóðskjalasafns og sett upp hjá sér. Síðan skráir skrásetjari tilteknar upplýsingar á myndunum í kerfið. Þannig eru myndirnar gerðar aðgengilegar án tillits til staðsetningar skrásetjara.

Einungis eru skráðar upplýsingar um heiti bæja, nöfn heimilisfólks, stöðu, aldur eða fæðingardag og kyn. Ætlunin er að birta þessi sóknarmannatöl á vef Þjóðskjalasafns Íslands síðar meir og er þá gert ráð fyrir að þar verði hægt að leita í skráðum upplýsingum og síðan verði tengingar úr niðurstöðu leitarinnar í myndir af viðkomandi bókarsíðum og þar verði unnt að skoða allar upplýsingar sem færðar voru til bókar á sínum tíma.

Í lok októbermánaðar 2012 höfðu verið skráðar um 992 þúsund færslur úr rúmlega 170 bókum í skráningargrunninn. Þar er um 11% af áætluðum heildarfærslufjölda, þannig enn er spölur í land.

Benedikt Jónsson ritaði kynningartexta.

 

Heimildir

  • Björk Ingimundardóttir, „Sóknarmannatöl, húsvitjunarbækur, sálnaregistur“. Óprentað handrit í Þjóðskjalasafni Íslands.

 

 

Smelltu á smámyndirnar hér til hægri til að skoða stærri útgáfu þeirra.

 

Sálnaregistur í Klyppsstaðarsókn í Loðmundarfirði 1815
ÞÍ. Kirknasafn. Kálfafell í Fljótshverfi BC/1. Sóknarmannatal 1748-1782
ÞÍ. Kirknasafn. Saurbær á Hvalfjarðarströnd BC/2. Sóknarmannatal 1805-1821
ÞÍ. Kirknasafn. Reynistaðarklaustur BC/4. Sóknarmannatal 1892-1906