Slysadagurinn 7. apríl 1906

Apríl 2016

Slysadagurinn 7. apríl 1906

ÞÍ. Afhending 2008/18. Dagbók Péturs Halldórssonar 1904-1906.

Laugardagurinn 7. apríl 1906 var einn mesti slysadagur 20. aldar á Íslandi. Þá fórust þrjú þilskip frá Reykjavík í miklu óveðri og 68 manns týndu lífi sínu. Þilskipin Sophie Wheatley og Emilie fórust undan Mýrum en þilskipið Ingvar strandaði við Viðey og fórst þar.

Engir sjónarvottar voru að sjóslysum Sohphie Wheatley, sem var eign Thors Jensen, Guðlaugs Torfasonar og Jafet Ólafssonar skipstjóra og Emilie, sem var eign Th. Thorsteinssonar kaupmanns, en brak úr skipunum ráku næstu daga á Mýrar og var því ljóst hver örlög þeirra höfðu orðið. Í áhöfn skipanna beggja voru alls 48 manns og fórust þeir allir.

Margir sjónarvottar urðu af örlögum kútters Ingvars sem strandaði við Viðey. Skömmu eftir hádegi 7. apríl 1906 sáu bæjarbúar Ingvar stefna inn sund norðan Engeyjar en sunnan Viðeyjar. Af hegðun skipsins þótti mönnum augljóst að stýristæki eða seglbúnaður væri í ólagi. Varpaði skipið akkerum en þau rifu ekki fyrr en um 300 metrum undan Viðeyjar-eiði þar sem það rakst á sker. Vegna veðurhamsins voru björgunaraðgerðir ómögulegar og ekki hægt að nálgast skipið af sjó og því síður frá Viðey þar sem íbúar stóðu í fjöru til þess að bjarga ef einhvern ræki að landi. Þennan dag fylgdust Reykvíkingar með skipverjum Ingvars mæta örlögum sínum án þess að geta nokkuð gert til að bjarga lífi þeirra. Öll áhöfn Ingvars, 20 manns, fórst við Viðey.

Einn sjónarvottur að þessum harmleik var Pétur Halldórsson (1887-1940), 19 ára námsmaður í Menntaskólanum í Reykjavík, síðar borgarstjóri í Reykjavík og alþingismaður. Í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt dagbók hans sem nær yfir árin 1904-1906 og er því samtímaheimild um þennan atburð ásamt því hvað Pétur gerði þennan laugardag. Dagbókarfærsla Péturs þennan laugardag er svona:

Um formiðdaginn strandaði skip í Viðey og drukknuðu allir mennirnir. Jeg sá þann síðasta hanga í reiðanum í kíki. Þar dóu Tyrfingur og Óli bogg af þeim sem ég þekkti. Bjarni Benediktss. sat heima á eftirmiðdaginn og var ég með honum. Hann gaf á Uppsölum áður en við fórum heim og drukkum svo náttúrulega kaffi með. Las ekkert, fór á Sherlok Holmes.

Lýsing Péturs er einföld og án allra tilþrifa og tilfinninga, jafnvel þó hann hafi þekkt tvo menn er fórust og verið sjónarvottur að atburðunum. Þessar fáu línur sýna jafnframt hvernig hann eyddi þessum degi, hitti vin sinn, drakk með honum kaffi á Uppsölum og um kvöldið fór hann á leikritið Scherlock Holmes hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó.

Eftirmálar Ingvarsslyssins voru nokkrir. Þótti mörgum að leiksýning Leikfélagsins um kvöldið sýndi atburðum dagsins óvirðingu og var m.a. ritað um það í blöð bæjarins. Þá var jafnframt mikið rætt um mikilvægi þess að komið yrði upp björgunartækjum sem hægt væri að grípa til við sjóslys. Úr því rættist þó ekki fyrr en áratugum síðar.

Njörður Sigurðsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Afhending 2008/18. Dagbók Péturs Halldórssonar 1904-1906.
  • Árni Óla: „Í dag eru 40 ár síðan „Ingvar“ fórst við Viðey.“ Lesbók Morgunblaðsins 7. apríl 1946, bls. 162-165, 172.
  • Freysteinn Jóhannsson: „Reykvíkingar horfðu upp á mennina farast.“ Morgunblaðið
    9. apríl 1946, bls. 28-30.
  • Þjóðólfur 17. apríl 1906, bls. 63-64.
Síða úr dagbók Péturs Halldórssonar