Sjúkrahús á Ísafirði

Febrúar 2013

Sjúkrahús á Ísafirði

ÞÍ. Teikningasafn

Guðjón Samúelsson arkitekt (1887-1950) var einn afkastamesti arkitekt landsins á millistríðsárunum og allt til dauðadags, teiknaði mörg þeirra opinberu mannvirkja sem enn setja svip sinn á höfuðborgina og marga þéttbýlisstaði í landinu. Meðal þeirra er „gamla sjúkrahúsið“ á Ísafirði sem nú hýsir bóka- og listasafn bæjarins og Héraðsskjalasafn Ísfirðinga. Hafist var handa við bygginguna árið 1923 og lauk framkvæmdum sumarið 1925 og húsið þá tekið í notkun. Það var á þeim tíma eitt glæsilegasta sjúkrahús landsins.

Húsið stendur á Eyrartúni og er tvær hæðir á háum kjallara með bröttu risi. Í kjallara var eldhús, boðstofa starfsfólks og þvottahús. Á fyrstu hæðinni var skurðstofa, lítil legudeild og apótek. Þriðja hæðin var lögð undir sjúkrastofur sem skiptist í tvær tíu manna stofur, tvær þriggja manna stofur og eitt einbýli. Var í upphafi gert ráð fyrir leguplássi fyrir 40 sjúklinga, sem þótti nokkuð djarft áætlað, en fljótlega voru komin um 50 rúm í húsið. Í rishæðinni voru vistarverur fyrir starfsfólk, ljóslækningastofa og röntgenherbergi. Vel var vandað til innréttinga, stigar marmaralagðir og gólfefni vönduð. Hins vegar var ekki lyfta í húsinu sem kostaði mikinn burð upp og ofan stigana. Árið 1983 var nýtt sjúkrahús tekið í notkun og fluttist þá starfsemin þangað.

Ísfirðingar hafa borið gæfu til þess að þrengja ekki um of að þessu fallega húsi þannig að það nýtur sín vel. Aðalinngangur á miðri framhlið er með miklu skrautverki, hálfsúlur til hliða, brík yfir þeim og ofan hennar bogadreginn bjór. Fram undan þeim eru voldugar tröppur. Út frá þakinu ofan dyranna ganga svalir en yfir þeim er bogakvistur. Húsið er samhverft beggja vegna dyranna. Gluggar eru stórir og nokkuð þéttir sem gefur húsinu létt yfirbragð þrátt fyrir hvað það er stórt.

Húsið var friðað 15. desember 1999 og tekur friðunin til ytra borðs þess.

Jón Torfason ritaði kynningartexta

Útlitsteikning Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði
Hluti af útlitsteikningu Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði, suðurhlið
Hluti af útlitsteikningu Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði, norðurhlið
Hluti af útlitsteikningu Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði, vesturgafl
Hluti af útlitsteikningu Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði, þverskurður
Hluti af útlitsteikningu Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði, austurgafl
Grunnmynd Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði
Hluti af grunnmynd Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði, kjallari
Hluti af grunnmynd Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði, 1. hæð
Hluti af grunnmynd Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði, 2. hæð
Hluti af grunnmynd Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði, lofthæð
Afstöðumynd Guðjóns Samúelssonar af sjúkrahúsi á Ísafirði á Eyrartúni