Próventubréf Margrétar Gunnsteinsdóttur

Október 2015

Próventubréf Margrétar Gunnsteinsdóttur

ÞÍ. Skjalasafn Stiftamtmanns III. Nr. 2.2. 18. maí 1641.

Próventugerningur[1] Margrétar Gunnsteinsdóttur. Bréfsins er getið í innistæðuskrám lénsreikninga árin 1645 og 1648 og í reikningnum 1646-1647. Sjá Þí. Rtk. F/5-F/6. Þetta er sennilega einnig próventubréfið sem liggur í skjalasafni lénsmanns árið 1662. Sjá Den Arnamagnæanske samling Kaupmannahöfn, Steph. 70, bls. 2. Sjá einnig afrit bréfsins í ÞÍ. Skjalasafn Amtmanns II. Nr. 111. Afrit af skjölum ýmissa klaustra um 1200-1643.

Í lénsreikningum fyrir árin 1645-1648 er getið einnar próventukonu um leið og tíu fátæklinga í útgjaldalið reikninganna í Viðey. Próventukonan hét Margrét Gunnsteinsdóttir og fær hún og fátæklingarnir tíu, daglega í fæði mjólk og skyr og vikulega tvær merkur af smjöri og fjögur skálapund af fiski.[2] Til klæðnaðar fá svo fátæklingarnir, samkvæmt fornri venju, tæpa tvo metra af vaðmáli, eða þrjár álnir hver á ári og próventukonan fjórar álnir, eða rúma tvo metra. Einnig fá þau skó eins og aðrir heimilismenn á búunum í Viðey og á Bessastöðum.[3]

Hver var hún þessi próventukona? Í Alþingisbók árið 1641 segir: „Item var upplesið próventubréf Margrétar Gunnsteinsdóttur, í hverju hún gefur kongl. Majestet XV hundr. í jörðinni Arnarholti á Kjalarnesi.“[4] Í bréfinu, sem er skinnbréf og var lengi varðveitt í skjalasafni lénsmanns á Bessastöðum, segir um ástæðu og skilyrði Margrétar fyrir gjöfinni að ættmenn Margrétar treystu sér ekki til að sjá um uppihald hennar þrátt fyrir fimmtán hundraða eign hennar í Arnarholti á Kjalarnesi. Hún snýr sér því til fógetans á Bessastöðum og býður konungi jörðina gegn framfærslu á meðan hún lifir og setur um leið skilyrði um fæði og klæði. Hún vill árlega fá fjórar álnir[5] af vaðmáli og ef mjólkurskortur verður í klaustrinu áskilur hún sér annan mat eða matarvirði til fullnaðar.

Í reikningunum er Arnarholts getið öll árin 1645-1648. Um jörðina segir: „Arnerholdt 15 hundrud dyrhed. Ehr giffuen thill Konnge Mayestet i prouent aff Margrete Gunstendsdaatter. Landschylden ehr 10 örer. Gaff i landschyld faar med lamb 3.“[6]

Margrét gæti hafa verið dóttir Gunnsteins Jónssonar, sem var fæddur nálægt 1560, bónda í Miðdal í Kjós. Hann var lögréttumaður 1595-1624. Ekki er vitað hver kona hans var.[7] Margrét próventukona gæti einnig verið sú Margrét sem kom í Lögréttu á Alþingi árið 1649. Tilefnið var átta dalir sem hún hafði beðið Gísla nokkurn Ólafsson að koma til dóttur sinnar sem þá var hjá Ástu Torfadóttur. Það hafði hann ekki gert. Svo virðist sem ekki hafi verið hægt að leysa málið á Alþingi vegna þess hversu drukkinn Gísli var.[8]

__________________

  1. Próventa þýðir hér fé gefið einhverjum með því skilyrði að hann sjái fyrir gefanda í elli. Sjá Íslensk orðabók. Reykjavík 1985, bls. 741.
  2. Ein mörk vegin er 248 gr. og mæld 0.248 lítrar. Einn fiskur er jafngildi tveggja skálapunda. Sjá Magnús Már Lárusson, „Íslenzkar mælieiningar“, Skírnir 132 (58), bls. 244.
  3. ÞÍ. Rtk. F/5-F/6. Lénsreikningar 1645-1646, 1646-1647, 1647-1648.
  4. Alþingisbækur Íslands VI. Reykjavík 1933-1940, bls. 43.
  5. Alin er hér jafngildi 57 sentimetra. Sjá Magnús Már Lárusson, bls. 242.
  6. Þí. Rtk. F/6. Lénsreikningur fyrir reikningsárið 1646-1647.
  7. Haraldur Pétursson, Kjósarmenn, Æviskrár. Reykjavík 1961, bls. 339.
  8. Alþingisbækur Íslands VI, bls. 247-248.

Kristjana Kristinsdóttir ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta próventubréfsins.

Hér að neðan er uppskrift próventubréfsins (PDF, 232 KB).

Próventubréf Margrétar Gunnsteinsdóttur