Ólympíuleikarnir 1952

Júlí 2012

Ólympíuleikarnir 1952

ÞÍ. Sendiráð Íslands í London 1990-B/110

Það er mikið um að vera í heimi íþróttanna þetta sumarið. Ber þar hæst Evrópukeppnina í fótbolta sem er nýlokið og ólympíuleikanna í London sem eru handan við hornið. Því er við hæfi að kynna til sögunnar skjal sem fjallar um þátttöku Íslendinga í erlendum íþróttaviðburði. Um er að ræða bréf um útlit búninga íslensku þátttakendanna á ólympíuleikunum í Helsinki árið 1952.

Það er annars um þessa ólympíuleika að segja að þeir voru haldnir daganna 19. júlí - 3. ágúst. Sextíu og níu þjóðir tóku þátt í leikunum en meðal þeirra voru Sovétmenn sem tóku nú þátt í fyrsta skipti og Þjóðverjar (reyndar aðeins Vestur-Þjóðverjar auk Saarlendinga) og Japanir en þeim hafði verið meinuð þátttaka í leikunum sem haldnir voru í London 1948 vegna árásarstefnu þeirra í seinni heimsstyrjöldinni.

Bandaríkjamenn voru sigursælasta þjóðin á leikunum en þeir unnu alls 76 verðlaun, þar af 40 gull, en næstir þeir komu Sovétmenn með 71 verðlaun.

Helsta hetja leikanna var Tékkinn Emil Zátopek en hann sigraði í 5.000 metra og 10.000 metra hlaupi og maraþoninu. Ekki virðist hafa háð honum sú venja hans að taka keppinauta stundum sína tali og í maraþoninu spjallaði hann meira að segja við áhorfendur og öryggisverði.

Íslendingar voru meðal þátttakenda á leikunum. Áhugi var á að senda keppendur í sundi og knattspyrnu en hætt var við þau áform af fjárhagsástæðum. Niðurstaðan varð því sú að tíu frjálsíþróttamenn héldu til keppni fyrir Íslands hönd en einn þeirra, tugþrautarkappinn Örn Clausen, tognaði illa áður en keppnin hófst og gat því ekki tekið þátt. Enginn Íslendingur komst á verðlaunapall og olli árangurinn miklum vonbrigðum því væntingarnar höfðu verið miklar. Ekki olli síður vonbrigðum að Íslendingar vildu koma íslensku glímunni á dagskrá leikanna sem sýningargrein en tókst ekki.

Kristinn Valdimarsson ritaði kynningartexta

Heimildir:

 

Smelltu á smámyndina hér til hægri til að skoða stærri útgáfu hennar.

 

Bréf íslensku ólympíunefndarinnar um búninga íslenska keppnisliðsins