Kvittun fyrir kaupi Kolfinnu Halldórsdóttur ráðskonu í Viðey 1645-1646

Júní 2013

Kvittun fyrir kaupi Kolfinnu Halldórsdóttur ráðskonu í Viðey 1645-1646

ÞÍ. Rtk. Y. 5. Lénsreikningur fyrir reikningsárið 1645-1646, fylgiskjöl með útdrætti úr lénsreikningi

Á búum lénsmanns að Bessastöðum og í Viðey voru á árunum 1645-1648 nokkrar vinnukonur og ein ráðskona í fastri vinnu allt árið. Vinnukonurnar voru ekki nafngreindar í lénsreikningum, aðeins ráðskonan Kolfinna Halldórsdóttir. Störf þessara kvenna eru ekki tíunduð heldur aðeins getið kaups þeirra og kjara. Vinnukonurnar hafa hver í árslaun sex álnir vaðmáls og eina og hálfa alin af lérefti, en alin er jafngildi rúmlega 57 sentímetra. Ráðskonan er í ábyrgðarstarfi og hefur í árslaun fjórar álnir af klæði og þrjár álnir af „góðu lérefti“. Allar hafa konurnar sama fæðið. Á þriggja vikna fresti fær hver þeirra hálfan fjórðung af smjöri og tuttugu skálapund af fiski, eða tæp tvö og hálft kíló af smjöri og tíu fiska. Skó fá þær, því öll árin eru færðar til útgjalda fjórtán til fimmtán húðir til skógerðar fyrir heimilisfólkið á báðum búunum.

Vinnukonurnar þurftu ekki sjálfar að kvitta fyrir kaupið. Verkstjórar þeirra gerðu grein fyrir þeim útgjöldum. Kolfinna lagði þó fram til rentukammers sérstaka kvittun fyrir laun sín reikningsárið 1645-1646, sem faðir hennar gerði fyrir hennar hönd:

Kiendess ieg mig Haldor Jonsson at ieg haffuer annamet min Daater thill hende som ehr Rosskonne i Vidöe paa Konge May(est)et vegne aff Jenss Sóffrenssen Hoybem(elte) hans May(est)ett Fouget offuer Issland i forne(fnt)e min Datterss Kolfinder Haldorssdaterss Lön Klede fiere Allen godt Leret thre Allen som ieg vill haffue forne(fnt)e Jenss Sóffrennss paa Konge May(est)ett vegna for quiteret thill vitterlighed haffuer ieg mit Naffn med egen Hand her underschreffuet. Datum Bessested d. 19 Julius 1646. Halldor Jonsson med eygin Hendi

Halldór Jónsson vottar hér að Jens Söffrensen hafi fyrir hönd konungs greitt ráðskonulaunin, fjórar álnir af klæði og þrjár álnir af „góðu“ lérefti, og kvittar Jens fyrir greiðsluna. Hver Halldór Jónsson var er óvíst. E.t.v. sá sem var lögréttumaður úr Kjalanesþingi 1637-1647. Þess er þó ekki getið að hann hafi átt dóttur að nafni Kolfinna. Kolfinnu Halldórsdóttur ráðskonu virðist ekki vera getið víðar í heimildum en í lénsreikningum. Það er dæmigert fyrir konu á þessum tíma. Hún hefur sennilega bæði verið ógift og barnlaus og ekki nægir gott starf til að verða frásagnarefni.

Kristjana Kristinsdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

Óprentaðar heimildir

  • ÞÍ. Rtk. Y. 5. Lénsreikningur fyrir reikningsárið 1645-1646, útdráttur.
  • ÞÍ. Rtk. Y. 5. Lénsreikningur fyrir reikningsárið 1645-1646, fylgiskjöl með útdrætti úr lénsreikningi.

Prentaðar heimildir

  • Magnús Már Lárusson, „Íslenzkar mælieiningar“, Skírnir 132 (1958), bls. 242.
    Hér er miðað við íslenska verslunaralin á 17. og 18. öld. Sjá einnig bls. 244.
    Fjórðungur er jafngildi tuttugu marka eða tíu skálapunda eða 4.960 gramma. Einn fiskur er jafngildi tveggja skálapunda.

 

Smelltu á smámyndina hér til hægri til að skoða stærri útgáfu hennar.

 

Kvittun fyrir kaupi Kolfinnu Halldórsdóttur ráðskonu í Viðey 1645-1646