Heimferð Íslendinga frá Petsamo

Ágúst 2020

Heimferð Íslendinga frá Petsamo

ÞÍ. Sendiráðið í Kaupmannahöfn 1988. B/197-6

Þegar Danmörk var hernumin af Þjóðverjum og sérstaklega eftir að Ísland var hernumið af Bretum 10. maí 1940, gjörbreyttist íslenskt samfélag. Vel er þekkt hvernig atvinnulífið umturnaðist. En íslenskir embættismenn þurftu einnig að læra hratt hvernig átti að fóta sig í þeim gjörbreytta heimi sem blasti við í styrjöldinni.

Ný og krefjandi verkefni blöstu við hvar sem litið var. Íslendingar vildu komast heim frá styrjaldarbálinu sem geisaði í Evrópu. Núningur og jafnvel átök milli Íslendinga og hernámsliðsins voru nær daglegt brauð og öllu þessu þurfi að sinna, smáu sem stóru. Í þetta blandaðist vilji Íslendinga til að ná fram fullu sjálfstæði og tilraunir þeirra til að tryggja stuðning annara þjóða, einkum Bandaríkjamanna, svo það næði fram að ganga. Í raun og veru má segja að það hafi verið nær kraftaverki að fámenn stétt embættismanna hafi náð að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem komu á þeirra borð á þessum árum. Skjalasöfn ráðuneyta, sendiráða og annarra opinberra aðila bera þess merki að þau voru yfirhlaðin verkefnum, en öllu var reynt að sinna, stóru sem smáu.

Nú er unnið að því í Þjóðskjalasafni Íslands að endurskrá og birta á vef ýmis skjöl úr skjalasafni utanríkisráðuneytisins sem snerta hernámið. Þar er um auðugan garð að gresja. Verkefnið er unnið með tilstyrk Rannís og vinna tveir sagnfræðinemar, þeir Daníel Godsk Rögnvaldsson og Atli Björn Jóhannesson, að verkinu. Þar er um mikilvægt starf að ræða og í haust standa vonir til að birtar verði þúsundir skjala sem snerta með beinum eða óbeinum hætti þessa viðburðarríku tíma í Íslandssögunni.

Heimild ágústmánaðar eru skjöl sem snerta svokallaða Petsamoför. Sumarið 1940 unnu íslensk stjórnvöld að því að fá leyfi herveldanna til að flytja Íslendinga heim frá Norðurlöndum. Stóðu þau í miklu stappi bæði við Breta og Þjóðverja að leyfa ferðina en loks var ákveðið að strandferðaskipið Esja mætti fara til Petsamo, sem þá var í nyrst í Finnlandi, en er nú í Rússlandi, og sækja 258 Íslendinga og flytja þá til landsins.

Það hefur verið gríðarlega flókið verkefni að halda sambandi við Íslendinganna sem vildu komast til Íslands. Í sendiráðinu í Kaupmannahöfn var haldin spjaldskrá þar sem dvalarstaður fólks var skráður til að hægt væri að ná til þess þegar ferðatilhögun hafði verið ákveðin. Fólkið þurfti að ferðast frá ýmsum hornum Norðurlandanna, fyrst til Malmö í Svíþjóð og þaðan með lest gríðarlanga leið norður til Petsamo.

Esjan lagði af stað frá Reykjavík þann 20. september 1940 og fór til Kaupmannahafnar en sigldi síðan án farþega norður til Finnlands. Þann 5. október var loks lagt af stað frá Petsamo til Íslands og þurfti skipið að taka á sig mikinn krók til Orkneyja áður en kúrsinn var tekinn til Reykjavíkur. Þangað kom skipið heilu og höldnu þann 15. október 1940.

Heimild mánaðarins er skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands, þar sem rakinn er ferill málsins.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Heimilisblaðið 10. tbl. 1.10.1940.
  • Heimskringla 8. tbl. 20.11.1940.
  • ÞÍ. Sendiráðið í Kaupmannahöfn 1988. B/197-6.

 

Skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands um Petsamoförina.
Skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands um Petsamoförina.
Skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands um Petsamoförina.
Skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands um Petsamoförina.
Skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands um Petsamoförina.
Skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands um Petsamoförina.
Skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands um Petsamoförina.
Skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands um Petsamoförina.
Skýrsla Sveins Björnssonar sendiherra og síðar forseta Íslands um Petsamoförina.
Petsamo var á þessum tíma hluti af Finnlandi, en tilheyrir núna Rússlandi.
Strandferðaskipið Esja. Mynd: Þjóðminjasafn Íslands.