Frétt um Huppu frá Kluftum

September 2016

Frétt um Huppu frá Kluftum

ÞÍ, Ríkisútvarpið/Hljóðvarp FA/563. Innlendar fréttir 22. okt. – 7. nóv. 1976.

Svo er sagt að allir muni hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttina um lát Kennedys Bandaríkjaforseta, enda heimsfrétt sem svo er kallað. En einkennilegt er að sumar „smærri“ fréttir geta setið í manni og gleymast einhverra hluta vegna ekki. Svo er um frétt í útvarpinu um afmæli Huppu frá Kluftum 1976 sem byrjar með miklum upplýsingum um þessa afurðamiklu kú en leiðist síðan út í smásmugulegar frásagnir af eigendum hennar, þótt það fólk sé auðvitað alls góðs maklegt.

Fréttin var lesin í hádeginu miðvikudaginn 3. nóvember 1976. Undirritaður var þá staddur í matsal Menntaskólans við Hamrahlíð og var útvarpið í gangi. Þegar fregnir af yfirvorandi aðgerðum kennara, forsetakosningum í Bandaríkjunum og öðrum válegum tíðindum utan úr heimi var lokið, var byrjað að segja frá kostakúnni Huppu. Flestir hlustuðu með hálfum huga en þegar á leið mátti sjá hvernig áhugi hlustenda vaknaði á þessari mjög svo einkennilega nákvæmu frásögn. Enda er þetta gott dæmi um „jákvæða“ smáfrétt innan um öll hörmungartíðindin sem fréttastofurnar eru svo uppteknar af. Þegar allt kemur til alls er fréttin þó fyrst og fremst um merkilegt kynbótastarf íslenskra bænda og ráðunauta sem nýttu sér frábæra eiginleika Huppu. Þess má einnig geta að í kvölddagskrá útvarpsins var sagt meira frá Huppu og rætt við eigendur hennar. Sagnir eru um að Huppa sé afkomandi huldunauts og einnig eru til traustar frásagnir af því að menn komu langt að til að sækja nautkálfa undan henni.

Í lok fréttar er getið um málverk af Huppu eftir Halldór Pétursson sem Búnaðarfélag Íslands færði Nautgriparæktarfélagi Hrunamanna að gjöf. Huppa stendur í forgrunni en gamli bærinn á Kluftum er í baksýn. Málverkinu var valinn staður í félagsheimilinu á Flúðum þar sem það hangir enn á veglegum stað, vottur þess að Hreppamenn rækja minningu kostagripa úr sveitinni sinni.

Í fréttinni má sjá að hún hefur verið skrifuð daginn áður, á þriðjudeginum, en ekki flutt fyrr en á miðvikudegi og orðfæri á stöku stað breytt vegna þess.

Jón Torfason ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ, Ríkisútvarpið/Hljóðvarp FA/563. Innlendar fréttir 22. okt. – 7. nóv. 1976.
Frétt um Huppu frá Kluftum
Frétt um Huppu frá Kluftum, síða 2
Frétt um Huppu frá Kluftum, síða 3