Félagið Stórir Íslendingar

September 2012

Félagið Stórir Íslendingar

ÞÍ. Félagið stórir Íslendingar. 2006-45 A-A 1-6. Fundargerðarbók félagsins „Stórir Íslendingar“

Þann 3. september 1951 komu um 60 menn saman í Breiðfirðingabúð að Skólavörðustíg í Reykjavík og stofnuðu með sér félagsskap sem þeir nefndu Stórir Íslendingar. Eins og nafn þessa félagsskapar gefur til kynna voru félagsmenn mjög hávaxnir menn og við félagsstofnun var ákveðið að meðlimir gætu þeir einir orðið sem væru 188 cm. á hæð eða hærri, þó að því undanskyldu að þeir menn sem mættu á stofnfundinn og voru lægri hefðu „með því látið ótvírætt í ljós, að þeir kynnu betur við sig í hópi þessum, skyldu, þó að þeir næðu ekki alveg 188 cm., teljast jafngildir félagsmenn hinum“ eins og það er orðað í stofnfundargerð. Ástæða félagsstofnunarinnar var að um miðja 20. öld áttu hávaxnir menn í miklum vandræðum með að finna á sig föt í verslunum. Í lögum félagsins var kveðið á um hlutverk þess:

Tilgangur félagsins er að stuðla að því að meðlimir þess þurfi ekki að vera verr settir en aðrir borgarar með öflun og kaup á fatnaði als konar, og hyggst félagið ná þessum tilgangi með því að gera þar að lútandi samninga við framleiðendur og innflytjendur karlmannafatnaðar. Þá vill félagið einnig auka nánari kynni milli félagsmanna með fundarhöldum, skemmtunum og ferðalögum og yfirleitt gæta hagsmuna félagsmanna í hvívetna.

Alls voru 113 karlmenn sem gerðust stofnfélagar í Stórum Íslendingum og eru nöfn þeirra ásamt heimilisfangi og hæð skráð í fundargerðabók félagsins. Fljótlega eftir stofnun félagsins mun þó hafa ræst úr málefnum félagsmanna og þeir gátu farið að kaupa föt á sig í verslunum. Síðasti fundur sem skráður er í fundargerðabók félagsins er frá 18. nóvember 1952. Félagið var lagt niður og eigur þess gefnar Barnaspítalasjóði Hringsins árið 1953.

Stofnfundargerð félagsins Stórir Íslendingar frá 3. september 1951 er hnyttin og vel skrifuð með fallegri rithönd Árna Björnssonar, lögfræðinema og síðar héraðsdómslögmanns og endurskoðanda. Í fundargerðinni er því sem gerðist á fundinum nákvæmlega lýst í gamansömum tón, þó tilefni stofnunarinnar væri alvarlegt. Á stofnfundinum var m.a. hæð allra fundarmanna mæld til þess að finna út hver lágmarkshæð félagsmanna skyldi vera. Til þess fengu menn lánaða mælislá frá lögreglunni og virtist fundarmönnum „einsýnt, að engum smámennum væri ætlaður staður í þessu félagi og var ekki laust við að einn og einn færi að ókyrrast í sætinu“. Flestir fundarmenn mældust 192-194 cm. á hæð og sá hæsti 200 cm. Þá var félaginu gefið nafn á stofnfundinum og voru ýmsar hugmyndir um nafn á félagsskapinn því slíkt félag yrði auðvitað að bera nafn með rentu. Stungið var m.a. upp á nöfnunum „Risafélagið Dvergur“, Dvergrisafélagið“, „Risafélagið“ og „Golíat“ en nafnið „Stórir Íslendingar“ þótti þokkalegast og var það valið sem heiti á félagsskapinn. Í lok stofnfundarins var rætt um framtíð hins nýja félags og greint frá viðræðum sem þegar höfðu farið fram við ýmsa verslunareigendur og fatainnflytjendur um hagkvæm fatainnkaup fyrir félagsmenn og „voru fundarmenn svo ákafir í að fá skyrtur og önnur föt á kroppinn, að engu var líkara en þeir stæðu á nærklæðunum einum“ er ritað í stofnfundargerðina.

Skjöl félagsins Stórir Íslendingar bárust Þjóðskjalasafni árið 2006 frá Jóni M. Guðmundssyni á Reykjum í Mosfellssveit en Jón var ritari félagsins.

Hér til hægri er hægt að skoða myndir af öllum sjö síðum stofnfundargerðar félagsins:

Njörður Sigurðsson ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift skjalsins.

Heimildir:

  • Helgi V. Jónsson: „Árni Björnsson.“ Tímarit lögfræðinga 28:2 (1978), bls. 51.
  • Morgunblaðið 6. september 1951, bls. 7.
  • Morgunblaðið 28. apríl 1953, bls. 7.
  • ÞÍ. Félagið stórir Íslendingar. 2006-45 A-A 1-6. Fundargerðarbók félagsins „Stórir Íslendingar“.

 

Smelltu á smámyndirnar hér til hægri til að skoða stærri útgáfu þeirra.

 

Hér að neðan er hægt að sækja uppskrift af texta skjalsins.

Úr fundargerðabók félags Stórra Íslendinga
Úr fundargerðabók félags Stórra Íslendinga
Úr fundargerðabók félags Stórra Íslendinga
Úr fundargerðabók félags Stórra Íslendinga