Efnafræðiþekking séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal

Júní 2016

Efnafræðiþekking séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal

ÞÍ. Rentukammer. D3/5–16. (Skjalasafn Landsnefndarinnar fyrri).

Séra Björn Halldórsson (1724–1794) prófastur í Sauðlauksdal er sjálfsagt flestum kunnugur fyrir frumkvöðlastarf hans í garðrækt og annarri jarðyrkju upp úr miðri 18. öld. Séra Björn var víðlesinn og hafði einnig prýðilega þekkingu á læknisfræði, efnafræði og öðrum náttúruvísindum þess tíma.

Kunnátta hans í þeim fræðum kemur ágætlega fram í bréfi hans til Landsnefndarinnar fyrri frá árinu 1771. Í bréfinu fjallar hann um algenga sjúkdóma sem hrjá sóknarbörn hans eins og skyrbjúg og tíðateppu kvenna. Hann skrifar einnig um garðrækt og hversu vel eða illa mismunandi gerðir jarðvegs séu fallnar til ræktunar. Nokkra athygli vekja efnafræðitáknin fyrir járn ♂ og brennistein Brennisteinn sem Björn notar tvívegis í bréfinu.

Notkun þessara tákna má rekja til Araba og gullgerðarlistar þeirra allt aftur á sjöundu öld. Þeir töldu málma hafa orðið til fyrir áhrif himintungla á jörðina og gáfu þeim ákveðin tákn til samræmis við það. Sjö helstu málmarnir voru:

☉ Sól = gull.            ☽  Máni = silfur.

♂ Mars = járn.          ☿  Merkúr = kvikasilfur.

♃ Júpiter = tin.         ♀ Venus = eir.

♄ Satúrnus = blý.

Þekkingin á táknunum barast síðan til Evrópu á tímum krossferðanna á 11. og 12. öld með öðrum menningarstraumum frá Austurlöndum. Þá má geta þess að séra Þorkell Arngrímsson (1629–1677) prestur í Görðum á Álftanesi þekkti einnig þessi tákn og notar þau í lækningadagbók sinni Curationes frá 17. öld en ekki hefur verið gerð tilraun til að finna fleiri íslensk dæmi um notkun þeirra.

Táknunum fjölgaði síðan smám saman eftir því sem þekkingin á efnafræði óx. Árið 1671 kom út í London bók eftir Basil Valentine munk The last will and testament með yfirliti yfir helstu efnafræðitáknin sem þá voru í notkun. Töfluna má nálgast hér. Árið 1775 kom út önnur bók eftir Torbern Bergmann, prófessor í efnafræði við háskólann í Uppsölum, með sambærilegu yfirliti. Það má nálgast hér.

Þrátt fyrir þessi ágætu yfirlit frá 17. og 18. öld hefur ekki enn tekist fyllilega að ráða fram úr öllum táknum sem séra Björn notar í bréfinu. Á einum stað ritar hann t.d. um lyf gegn hægðatregðu og segir: „hvorimod nogle ikke uden nytte bruge L ♂tis præcipitatam i +to.“ Hvers konar lyf ætli það sé? Táknin hafa verið auðkennd með rauðum hringjum á myndunum hér til hliðar.

Björn ritar bréfið á dönsku og skreytir mál sitt töluvert með latínu að lærðra manna sið.

Uppskrift af bréfinu ásamt skýringum má nálgast hér fyrir neðan.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift bréfsins.

Heimildir

  • ÞÍ. Rentukammer. D3/5–16. (Skjalasafn Landsnefndarinnar fyrri).
  • Basil Valentine, The last will and testament. London 1671.
  • Rit Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal. Gísli Kristjánsson og Björn Sigfússon bjuggu til prentunar. Reykjavík 1983.
  • Torbern Bergmann, A dissertation on elective attractions. London 1783.
  • Vilmundur Jónsson, Lækningar – Curationes – séra Þorkels Arngrímssonar sóknarprests í Görðum á Álftanesi. Reykjavík 1949.

Vefsíður

Hér að neðan er uppskrift af bréfi séra Björns Halldórssonar til Landsnefndarinnar fyrri frá árinu 1771.

 

Bréf séra Björns Halldórssonar til Landsnefndarinnar fyrri, síða 1
Bréf séra Björns Halldórssonar til Landsnefndarinnar fyrri, síða 2
Bréf séra Björns Halldórssonar til Landsnefndarinnar fyrri, síða 3
Bréf séra Björns Halldórssonar til Landsnefndarinnar fyrri, síða 4.
Bréf séra Björns Halldórssonar til Landsnefndarinnar fyrri, síða 5
Bréf séra Björns Halldórssonar til Landsnefndarinnar fyrri, síða 6
Bréf séra Björns Halldórssonar til Landsnefndarinnar fyrri, síða 7
Bréf séra Björns Halldórssonar til Landsnefndarinnar fyrri, síða 8