Janúar 2021

Umgengni og þrifnaður á gististöðum

ÞÍ. Löggæslumaður ríkisins 2001: A/2-3

Í júlímánuði árið 1939 var Birni Blöndal, sérstökum löggæslumanni ríkisins, falið að gera úttekt á ástandi á veitingastöðum á landinu. Þekktastur er Björn eflaust vegna harðvítugrar baráttu gegn bruggurum landsins og er óhætt að segja að hann hafi verið samviskusamur embættismaður, sem gerði sitt besta í að uppræta ólöglega bruggun áfengis. Það starf hans leiddi hann vítt um land og var honum því vel kunnugt um ástandið í þessum geira.

Þann 1. desember 1939 skilaði Björn svo skýrslu til Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Skýrslan er afar ítarleg. Er hún heimild janúarmánaðar 2021 og eru birtar hér nokkrar síður úr henni. Alls er skýrslan 47 blaðsíður og í henni rekur Björn ástand mála, sérstaklega með tilliti til gististaða, en fjallað er um 50 gististaði í skýrslunni. Í inngangi sagði Björn m.a:

Á stöku stað er sóðaskapur svo mikill t.d. hvað snertir salerni og allan útbúnað þeirra, að ég komst í vandræði, er ég fór að semja skýrslunna, að skýra rétt frá ástandinu, en haga þó svo orðum mínum að ekki þætti hneykslanlegt.

Í skýrslunni rekur Björn síðan ástand mála um allt land. Hefur för í Vík í Mýrdal, þar sem hann segir gistihúsið vart boðlegt:

[Rúmin með] þunnum heydýnum eða hálmdýnum, þungum sængum og fúkkalykt. … Vatnssalerni er ekki í húsinu, en rétt innan við innganginn stendur ljótt og skakt og þraungt kaggasalerni, sem losa verður 2-3 á dag, ef nokkur gestakoma er. Frárennsli er ekkert frá húsinu og er þó vatnssalerni komið víða í hús í Vík.

Svipaðar lýsingar má finna afar víða. Í samantekt bendir Björn á að ástandið á fjölsóttustu stöðum á landinu: Þingvöllum, við Geysi og við Gullfoss sé ástandið svo slæmt að það megi kallast þjóðarskömm. Við Gullfoss sé hreinlætið að vísu skárra en við Geysi en:

… lega skúra-kumbaldann á árbakkanum er flestum gestum, sem þar koma, þyrnir í augum og dregur úr áhrifum staðarins.

Gagnrýni Björns snýr þó ekki aðeins að hreinlæti, heldur einnig að þægindum gesta. Í samantekt segir hann að mikilvægt sé að setja lög eða reglugerð þar sem eftirfarandi atriði verði sett fram:

 1. Að í hverju gistihúsi og greiðasölustað sé skylt að hafa vatnssalerni eftir þörfum … Hús, sem er meira en einlyft hafi salerni á hverri hæð.
 2. Ákvæði um það hvernig gengið skuli frá frárennsli.
 3. Að vatn sé leitt í herbergin, að þar sé vaskur og fastur spegill, upphitunartæki, fatakápur, hringing, teppi, dreginn eða skinn á gólfi fyrir framan hvert rúm o.fl.
 4. Ávæði um rúmin, hvað löng þau skuli vera, og að þau megi ekki vera hvort upp af öðru, um undirdýnur og annan rúmfatnað.
 5. Að sá er rekur gistihús eða greiðasölu hafi þekkingu á því starfi.
 6. Að maður eða kona, sem matbýr hafi þá kunnáttu, sem til þess þarf að leysa það starf vel úr hendi.
 7. Að fólk það er gengur um beina, hafi kunnáttu í því og sé jafnan í hreinum fötum.
 8. Að fylsta hreinlætis sé jafnan gætt og að skemdur matur sé ekki framreiddur.
 9. Að borðstofur hafi smærri boð og fleiri ásamt stólum.
 10. Að skylt sé að hafa löggiltar gestabækur og innfæra í þær nöfn gesta.
 11. Að verðskrá sé sett.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

 • ÞÍ. Löggæslumaður ríkisins 2001: A/2-3.
Síða úr skýrslu Björns Blöndal.
Síða úr skýrslu Björns Blöndal.
Síða úr skýrslu Björns Blöndal.