Dómabókagrunnur

Dómabókagrunnur Þjóðskjalasafns Íslands er stafrænn gagnagrunnur. Í grunninn hafa verið skráð öll þau mál er finna má í dómabókum úr Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Húnavatnssýslu allt frá því snemma á sautjándu öld og fram á þá tuttugustu. Skráning á dómabókum úr Þingeyjar-, Borgarfjarðar- og Mýrasýslum voru langt á veg komnar í árslok 2011. Á tímabilinu 1930-1950 hafa einungis verið skráð jarðamál í þeim sýslum sem um getur að ofan með hliðsjón af lögum um persónuvernd. Í árslok 2011 hafði Dómabókagrunnur ÞÍ að geyma 79.784 leitarbærar færslur úr 240 dómabókum. Samanlagður blaðsíðufjöldi þessara 240 dómabóka er um 70.000 síður. Á grundvelli þessarar vinnu er nú mögulegt að fá efnisyfirlit yfir hverja og eina dómabók sem og að leita eftir atriðisorðum, málstegundum og nöfnum einstakra manna.

Dómabókagrunnur ÞÍ er hugsanlega sá eini sinnar tegundar í veröldinni, eftir því sem næst verður komist. Hann er þegar orðinn öflugt leitar- og skráningarverkfæri, og hefur þegar gagnast við samningu lokaritgerða og lokaverkefna á BA og MA stigi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Þá hafa ýmsir fræðimenn nýtt sér grunninn samhliða rannsóknum sínum.

Sem heimilda- og gagnaflokkur er efni dómabóka afar óaðgengilegt, jafnt fyrir leika sem og lærða. Er því helst um að kenna að ekki hefur það tíðkast að taka saman sérstakt efnisyfirlit yfir dómabækur, hvorki samhliða því að mál hafi verið innfærð í þær né heldur þegar skráningu í þær hefur verið að fullu lokið. Hefur því hvergi verið að finna skrár eða yfirlit yfir mál og málstegundir, staði, málsaðila eða aðra einstaklinga, fyrr en að þessi gagnagrunnur Þjóðskjalasafnsins var tekin í notkun. Má því segja að með Dómabókagrunninum sé komið fram á sjónarsviðið öflugt leitartæki sem þegar hefur sannað gildi sitt. Þá eru framtíðarmöguleikar dómabókagrunnsins miklir, hvoru tveggja fyrir rannsóknir fræðimanna sem og fróðleiksþyrstan almenning.