Nýjar reglur um skráningu mála og málsgagna

miðvikudagur, 31. janúar 2018 - 9:45
  • Þjóðskjalasafn Íslands
    Þjóðskjalasafn Íslands

Þann 1. febrúar nk. taka gildi nýjar reglur um skráningu mála og málsgagna afhendingarskyldra aðila. Aðdragandi að setningu reglnanna var sá að í desember 2015 auglýsti Þjóðskjalasafn drög að reglum um skráningu mála og skjala til umsagnar. Í upphafi árs 2016 var unnið úr umsögnunum og tóku reglurnar smávægilegum breytingum í því ferli. Lögbundið samráð var haft við mennta- og menningarmálaráðuneytið og voru reglurnar loks staðfestar af ráðherra 29. desember sl.

Reglurnar eru settar á grundvelli 23. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn þar sem kveðið er á um setningu reglna um skráningu mála og málsgagna. Með setningu reglnanna er nú í fyrsta skipti kveðið sérstaklega á um hvaða upplýsingar afhendingarskyldir aðilar skuli skrá um mál, annars vegar, og málsgögn, hins vegar, sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá þeim. Vakin er athygli á því að í 1. gr. reglnanna eru hugtökin mál og málsgögn skilgreind.

Unnið er að gerð leiðbeiningarrits með reglunum og er áætlað að það verði gefið út á næstu misserum.

Reglur nr. 85/2018 um skráningu mála og málsgagna afhendingarskyldra aðila.