Reglur um skráningu mála og skjala til umsagnar

föstudagur, 4. desember 2015 - 12:45
  • Þjóðskjalasafn Íslands
    Þjóðskjalasafn Íslands

Þjóðskjalasafn Íslands auglýsir til umsagnar reglur um skráningu mála og skjala afhendingarskyldra aðila. Tengil á drög að reglunum ásamt greinargerð er að finna hér fyrir neðan.

Skráning upplýsinga um mál sem koma til meðferðar hjá stjórnvöldum og skipuleg varðveisla þeirra er forsenda þess að hægt sé að finna upplýsingar þegar á þarf að halda. Skráning upplýsinga og varðveisla er jafnframt forsenda þess að upplýsingaréttur almennings sé virkur. Í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn er ákvæði um skyldu afhendingarskyldra aðila til að skrá mál sem koma til meðferðar hjá þeim á kerfisbundinn hátt og til að varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg í samræmi við reglur sem settar verða. Þjóðskjalasafni Íslands ber að setja reglur, m.a. um skráningu mála, skv. 23. gr. laga um opinber skjalasöfn. Þar segir í 1. mgr.:

Þjóðskjalasafn Íslands skal setja reglur skv. 1. tölul. 8. gr. um það hvernig skjalastjórn og skjalavörslu í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og afhendingarskyldra aðila skuli hagað, svo og skráningu, flokkun og frágangi skjala til afhendingar til opinberra skjalasafna, þ. m. t. skilmála um staðla fyrir skjalavistunarkerfi og samþykkt á skjalavistunarkerfum.

Í 1. tölul. 8. gr. laganna segir enn fremur: „… reglurnar skulu staðfestar af ráðherra“

Frestur til að skila inn umsögn við reglurnar er til og með 18. janúar 2016. Umsagnir og fyrirspurnir skal senda á netfangið skjalavarsla@skjalasafn.is.

Drög að reglum um skráningu mála og skjala afhendingarskyldra aðila ásamt greinargerð (PDF, 92 KB).