Úttekt á skjalavörslu og skjalastjórn prestakalla

föstudagur, 5. nóvember 2021 - 8:45
  • Skjalavarsla og skjalastjórn prestakalla
    Skjalavarsla og skjalastjórn prestakalla

Þjóðskjalasafn Íslands hefur gefið út skýrslu með niðurstöðum eftirlitskönnunar safnsins á skjalavörslu og skjalastjórn prestakalla sem var gerð í byrjun ársins. Þjóðskjalasafn og Biskupsstofa fyrir hönd þjóðkirkjunnar hafa átt í samstarfi undanfarin misseri í þeim tilgangi að efla skjalavörslu og skjalastjórn prestakalla og var eftirlitskönnunin liður í þessu samstarfi.

Helstu niðurstöður eftirlitskönnunarinnar er að 70% prestakalla skrá ekki niður erindi sem þeim berast, varðveisla tölvupósts er ábótavant og átaks er þörf í vörslu rafrænna gagna en ekkert prestakall hefur tilkynnt notkun á rafrænu gagnasafni til Þjóðskjalasafns eins og reglur kveða á um. Þá eru um 85 hillumetrar af pappírsskjölum sem eru 30 ára og eldri og eru því komnir á afhendingartíma til safnsins. Niðurstöðurnar sýna jafnframt að prestaköll telja að skortur sé á leiðbeiningum og þörf sé á frekari ráðgjöf um skjalavörslu og skjalastjórn.

Niðurstöður eftirlitskönnunarinnar verða notaðar til grundvallar í samantekt sérstakra og handhægra leiðbeininga um skjalavörslu og skjalastjórn prestakalla með það að markmiði að miðla betur upplýsingum um hvernig haga beri skjalahaldi og hvernig afhenda eigi skjöl til varðveislu á Þjóðskjalasafn. Að auki mun Þjóðskjalasafn í samstarfi við Biskupsstofu nýta skýrsluna til að skipuleggja frekari fræðslu til starfsfólks kirkjunnar t.d. með reglulegum námskeiðum og fræðsluerindum.

Skýrsluna má finna hér:
Skjalavarsla og skjalastjórn prestakalla. Niðurstöður eftirlitskönnunar Þjóðskjalasafns Íslands 2021.