Útgáfa skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771

miðvikudagur, 18. nóvember 2015 - 14:30
 • Uppdráttur Þorkels Fjeldsteds landsnefndarmanns af Reykhólum í Barðastrandarsýslu
  Uppdráttur Þorkels Fjeldsteds landsnefndarmanns af Reykhólum í Barðastrandarsýslu
 • Utanáskrift á bréfi til Landsnefndarinnar fyrri
  Utanáskrift á bréfi til Landsnefndarinnar fyrri
 • Hluti danskrar þýðingar Eyjólfs Jónssonar, ritara nefndarinnar, á bréfi til Landsnefndarinnar fyrri
  Hluti danskrar þýðingar Eyjólfs Jónssonar, ritara nefndarinnar, á bréfi til Landsnefndarinnar fyrri
 • Uppdráttur Þorkels Fjeldsteds landsnefndarmanns af Reykjanesi við Ísafjarðardjúp
  Uppdráttur Þorkels Fjeldsteds landsnefndarmanns af Reykjanesi við Ísafjarðardjúp
 • Bréf frá bændum á Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík til Landsnefndarinnar fyrri
  Bréf frá bændum á Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík til Landsnefndarinnar fyrri

Mikilvægar heimildir frá 18. öld verða gefnar út á vegum Þjóðskjalasafns Íslands í samvinnu við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag á Íslandi. Útgáfa sex binda verks hefst í ár, og lýkur á árinu 2018.

Styrkur frá Augustinusfonden í Danmörku

Augustinusfonden i Danmörku hefur veitt Þjóðskjalasafni Íslands stóran útgáfustyrk til að gefa út og prenta skjöl úr fórum safnsins. Fyrri hluti styrksins var veittur á árinu 2014 og hinn seinni nú í október. Verkefnið á sér langan aðdragandi og fleiri koma myndarlega verkefninu. Auk Þjóðskjalasafns Íslands koma Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag með stór framlög og það hefur áður verið styrkt af Rannís og Letterstedska föreningen.

Innsýn í 18. aldar hugarfar og aðstæður

Skjölin eru afrakstur ferðar hinnar svokölluðu Landsnefndar fyrri sem ferðaðist um Ísland frá vori 1770 til hausts 1771 og safnaði bréfum og skýrslum frá landsmönnum um hvað eina sem þeim þótti að betur mætti fara. Embættismenn fengu ákveðnar spurningar um margar hliðar þjóðlífsins og svöruðu þeim. En einnig var frjálst að skrifa um hvað eina, og var almenningur sérstaklega hvattur til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Mörg hundruð manns brugðust við áskoruninni. Þessi tenging við almenning gerir skjalasafn nefndarinnar mjög sérstakt. 

Útgáfan og sögulegt gildi

Bækurnar verða sex talsins, alls um 4000 síður, og eru útgáfa á öllum frumskjölum Landsnefndarinnar fyrri, bréfum frá almenningi, prestum, sýslumönnum, lögmönnum og háembættismönnum, auk allra gagna nefndarinnar sjálfrar með fundargerðum, tillögum og frumvörpum um málefni Íslands. Ritstjórar verksins eru Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Skjalasafnið varpar því miklu ljósi á samfélagið allt á Íslandi á þessum tíma, um 1770. En ekki síður má segja að skjölin varpi mikilvægu ljósi á danska stjórnsýslu og hvernig einstök svæði hins dansk-norska ríkis tengdust miðstjórn þess.

Samstarf

Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir verkefnið og kunna aðstandendur verksins Augustinusarsjóðnum og öðrum sem lagt hafa hönd á plóg miklar þakkir. Einnig er mikilvægt að með þessu verkefni er ræktað sambandið milli Íslands og Danmerkur þar sem skjalaarfur fyrri alda er oft á tíðum sameiginlegur menningararfur.