Skýrsla um óheimila grisjun skjala

föstudagur, 11. desember 2015 - 8:45
  • Skýrsla um óheimila grisjun ríkisstofnana
    Skýrsla um óheimila grisjun ríkisstofnana

Árið 2012 gerði Þjóðskjalasafn Íslands könnun á skjalavörslu ríkisins og birtust niðurstöðurnar í skýrslu sem gefin var út árið 2013. Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um almennt ástand skjalavörslu ríkisins, umfang pappírsskjala í stofnunum, umfang og fjölda rafrænna gagnakerfa, yfirlit um hvernig skjalavörslu einstakra stofnana er háttað og að afla upplýsinga um hvernig reglur og leiðbeiningar Þjóðskjalasafns skila sér til stofnana ríkisins.

Niðurstöður könnunarinnar sýndu að stofnanir ríkisins uppfylltu lagalegar skyldur um skjalavörslu misvel og ljóst er að leggja þarf meiri áherslu á skjalavörslu og skjalastjórn hjá opinberum aðilum. Eitt af því sem Þjóðskjalasafn Íslands taldi rétt að skoða nánar var að margir þátttakendur í könnuninni töldu sig stunda grisjun á skjölum án heimildar miðað við ákvæði laga nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands sem voru í gildi á þeim tíma sem könnunin var framkvæmd. Alls voru 35 aðilar sem töldu sig hafa grisjað skjöl án heimildar. Þessir aðilar fengu bréf þar sem óskað var eftir nánari upplýsingum og voru svör þeirra síðar greind til að átta sig á umfangi málsins. Niðurstöður þeirrar greiningar eru nú tilbúnar í skýrslu sem er aðgengileg á vef safnsins.

Reyndar var hin meinta óheimila grisjun minni en svör við könnuninnni frá 2012 gáfu til kynna. Niðurstöður greiningarinnar sýndu að flestar stofnanirnar stunduðu hreinsun í stað grisjunar, en þar er um tvær ólíkar aðgerðir að ræða og hreinsun er leyfileg en grisjun ekki. Einhverjir misskildu hugtakið grisjun og töldu jafnvel að afhending skjala til Þjóðskjalasafns Íslands væri grisjun. Vegna vanþekkingar á lagaákvæðum um varðveislu gagna töldu sumir aðilar að heimilt væri að eyða fylgiskjölum bókhalds með vísan í bókhaldslög og einnig voru brögð að því að stofnanir teldu sig hafa grisjað án heimildar, en höfðu samt slíka heimild.