Skjalasöfn prestakalla – Samstarfsverkefni Þjóðskjalasafns og Biskupsstofu

fimmtudagur, 14. janúar 2021 - 15:45
  • Úr skjalageymslum Þjóðskjalasafns Íslands.
    Úr skjalageymslum Þjóðskjalasafns Íslands.

Þjóðskjalasafn Íslands og Biskupsstofa standa nú að samstarfsverkefni um skjalasöfn prestakalla. Prestaköll, sem hluti þjóðkirkjunnar, falla undir lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og ber því skylda til að afhenda Þjóðskjalasafni skjöl sem verða til, hafa borist eða hefur verið viðhaldið í starfseminni. Skjalasöfn prestakalla eru mikilvægar heimildir um starfsemi kirkjunnar, íbúa og byggð í landinu í gegnum aldirnar.

Markmið samstarfsins er m.a. að efla ráðgjöf og leiðbeiningar um skjalavörslu og skjalastjórn prestakalla og afhendingu skjala til langtímavarðveislu til Þjóðskjalasafns. Þann 13. janúar síðastliðinn var send út spurningakönnun til allra prestakalla til að afla upplýsinga um stöðu þeirra í skjalavörslu og skjalastjórn. Þær upplýsingar munu nýtast við að efla ráðgjöf og útbúa leiðbeiningar sem sérstaklega verða sniðnar að prestaköllum. Ráðgert er að verkefninu ljúki vorið 2021.