Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024

fimmtudagur, 8. febrúar 2024 - 9:30
 • Gögn frá Þjóðfundinum 2010. ÞÍ Þjóðfundurinn 2010. 2011 A/8
  Gögn frá Þjóðfundinum 2010. ÞÍ Þjóðfundurinn 2010. 2011 A/8
 • Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands. Forsætisráðuneytið 1989-037 | B/573 Örk: 2
  Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands. Forsætisráðuneytið 1989-037 | B/573 Örk: 2
 • Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Gestir skoða stjórnarskrár Íslands.
  Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Gestir skoða stjórnarskrár Íslands.
 • Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Gestir skoða gögn frá Þjóðfundi 2010.
  Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Gestir skoða gögn frá Þjóðfundi 2010.
 • Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Ólafur Þ. Harðarson.
  Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Ólafur Þ. Harðarson.
 • Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Sævar Finnbogason.
  Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Sævar Finnbogason.
 • Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Njörður Sigurðsson.
  Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Njörður Sigurðsson.
 • Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Katrín Oddsdóttir.
  Safnanótt á Þjóðskjalasafni 2024. Katrín Oddsdóttir.

Enn á ný fór Safnanótt fram undir gulri veðurviðvörun og bar þess nokkur merki. Þjóðskjalasafn bauð upp á fjölbreytta dagskrá sem helguð var stjórnarskrá Íslands og sögu hennar.

Gestir voru sammála um að viðburðurinn hefði heppnast afar vel og fjörugar umræður sköpuðust um erindin sem flutt voru. Áhugavert var að fá ólík sjónarhorn frummælenda á stjórnarskrána og þær breytingar sem hafa verið gerðar á henni síðan.

Ólafur Þ. Harðarson prófessor emerítus í stjórnmálafræði var fyrstur á mælendaskrá og spurði hvort stjórnarskrár skipta einhverju máli. Í erindi sínu lagði hann góðan grunn að umræðum kvöldsins, svaraði spurningunum hvað er stjórnarskrá og hvað er gott stjórnarfar og ræddi samhengið þar á milli. Hann gerði grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni í gegnum tíðina en einnig mikilvægum stjórnlagabreytingum sem gerðar hafa verið án breytinga á stjórnarskrá.

Sævar Finnbogason heimspekingur velti fyrir sér hvernig ætti að bera sig að því að breyta stjórnarskránni og hver ætti að gera það. Sævar benti á að ef gengið er út frá því að fullveldið sé í höndum þjóðarinnar skyldu allar breytingar á stjórnarskrá á sama hátt vera í höndum þjóðarinnar en ekki Alþingis. Fulltrúalýðræði væri hagnýt lausn í stjórnun þjóðar en ákvarðanir um grundvöll lýðræðislegrar skipunar væri eðlilegra að heyrðu undir þátttökulýðræði í formi þjóðaratkvæðagreiðslu eða borgaraþings.

Njörður Sigurðsson aðstoðarþjóðskjalavörður rakti skrautlega varðveislusögu stjórnarskráa Íslands. Frumrit allra stjórnarskráa eru varðveitt í Þjóðskjalasafni en það var ekki alltaf svo. Fyrsta stjórnarskráin frá 1874 kom fyrst til landsins árið 1904 þegar Stjórnarráð Íslands var stofnað og fyrsti íslenski ráðherrann skipaður. Hún var svo aftur flutt til Danmerkur í skjalaskiptum þjóðanna árið 1928 en var að lokum skilað aftur til Íslands árið 2003.

Katrín Oddsdóttir lögfræðingur gerði fullveldi þjóðarinnar að umtalsefni sínu með hliðsjón af stjórnarskrársögu Íslands. Fullveldi sagði Katrín að hefði tvær víddir: ytra fullveldi, sem er staða ríkis og þjóðar gagnvart umheiminum, og innra fullveldi, sem snýr að lagasetningu og lögmæti ríkisvaldsins innanlands. Lögfræðingar líki fullveldishugtakinu gjarnan við lögræðishugtakið og sé íslenska þjóðin í raun fullvalda liggi valdið til breytingar á stjórnarskrá í höndum hennar.

Auk erinda og umræðna var gestum boðin leiðsögn um sýningu á stjórnarskrám Íslands og gögnum tengdum henni, þar á meðal skjölum og miðum frá Þjóðfundinum 2010. Mikill áhugi var á þjóðfundargögnunum og stefnt er að því að gera þau aðgengileg á stafrænu formi á vef Þjóðskjalasafns.