Ráðstefna um þjóðlendurannsóknir og útgáfuhóf vegna 3. bindis Yfirréttarins á Íslandi. 28. september kl. 13:00-16:00, ráðstefnan er öllum opin.

fimmtudagur, 21. september 2023 - 11:30
  • Dagskrá rannsóknadags Þjóðskjalasafns Íslands 2023.
    Dagskrá rannsóknadags Þjóðskjalasafns Íslands 2023.

Rannsóknadagur Þjóðskjalasafns Íslands 2023 er helgaður þjóðlendurannsóknum. Ráðstefnan verður haldin í Þjóðskjalasafninu að Laugavegi 162, fimmtudaginn 28. september nk. Dagskráin hefst klukkan 13:00 og er áætlað að henni ljúki um kl. 16:00. Þá verður einnig fagnað útgáfu 3. bindis Yfirréttarins á Íslandi.
 
Um árabil hafa sérfræðingar í Þjóðskjalasafni unnið að gagnaöflun um jarðir og landsvæði á Íslandi vegna starfa óbyggðanefndar, en nefndin hefur meðal annars það hlutverk að skera úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda. Gagnaöflunin er afar víðtæk og mikilvægur liður í að mál séu rannsökuð til hlítar áður en úrskurðir eru kveðnir upp. Skjölin eru af ýmsum toga, s.s. landamerkjalýsingar, vitnisburðir, kort og dómaframkvæmdir, en verkefnið hefur einnig leitt af sér afurðir á borð við svokallaðan dómabókagrunn sem inniheldur tugþúsundir færslna um dómsmál frá sautjándu öld og fram á þá tuttugustu. Á ráðstefnunni munu fyrirlesarar taka til umfjöllunar viðfangsefni er lúta að meðferð jarða á Íslandi auk þess sem fjallað verður um ýmis frumskjöl sem komið hafa fram við gagnaöflun.
 
Yfirrétturinn á Íslandi var æðsta dómstig innanlands frá 1563 til 1800. Í lok ráðstefnunnar verður fagnað útgáfu 3. bindis yfir dóma og skjöl Yfirréttarins en það nær yfir árin 1716–1732. Málin sem koma fyrir eru margvísleg t.d. dulsmál, meiðyrði, árás á dómara, drykkjulæti í kirkju, ásakanir um falskt þingsvitni, rekadeilur og þjófnaðarmál. Útgáfan er styrkt af Alþingi og unnin í samstarfi við Sögufélag. Ritstjórar eru Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir.

Hægt er að kaupa bókina ásamt fyrri bindum Yfirréttarins á staðnum á sérstöku útgáfutilboði en einnig er hægt að nálgast eintak í vefverslun Sögufélags og helstu bókaverslunum. 

Dagskrá

13:00-14:00
  • Ragnhildur Anna Kjartansdóttir sérfræðingur í þjóðlendurannsóknum - Saga jarðar
  • Jón Torfi Arason sérfræðingur í þjóðlendurannsóknum - Sjónhending, um landamerki og landamerkjabækur í Þjóðskjalasafni
  • Kjartan Richter sérfræðingur í þjóðlendurannsóknum - Uppdráttur Benónís. Saga af þrautseigju og þrætustykki
Hlé  
14:10-14:50
  • Þorsteinn Magnússon héraðsdómari og nefndarmaður hjá óbyggðanefnd - Þýðing gamalla skjala við úrlausn þjóðlendumála
  • Ólafur Arnar Sveinsson fagstjóri fræðslu og rannsókna hjá Þjóðskjalasafni Íslands - Áreið á merki jarða. Óvenjuleg andmæli við áreiðargjörð 1853
Hlé  
15:10-16:00
  • Margrét Gunnarsdóttir sérfræðingur í þjóðlendurannsóknum - Eyðijarðir, óbyggðir og viðreisn Íslands. Nýbýlatilskipunin árið 1776 í sögulegu ljósi
  • Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir ritstjórar þriðja bindis Yfirréttarins á Íslandi, 1716-1732 - Útgáfa Yfirréttarins á Íslandi, 3. bindi 1716-1732