Ráðstefna um miðlun gagna í skjalasöfnum

miðvikudagur, 12. júní 2013 - 15:15
  • Nordisk arkivformidlingskonferanse 2013
    Nordisk arkivformidlingskonferanse 2013

Í undirbúningi er samnorræn ráðstefna um miðlun gagna í skjalasöfnum (Nordisk arkivformidlingskonferanse 2013) sem til stendur að halda í Olsó í Noregi dagana 24.-25. október 2013. Að ráðstefnunni standa Norsk kulturråd, Landslaget for lokal- og privatarkiv og Riksarkivaren (embætti norska ríkisskjalavarðarins) í samstarfi við samnorrænt fagráð.

Á ráðstefnunni er stefnt að því að greina stöðu miðlunar þess safnkosts sem í skjalasöfnum norðurlandanna býr. Hvaða árangri hefur þegar verið náð? Hvert skal stefna? Hvert liggja mikilvægustu straumarnir og hverjir eru miðlarnir? Hvers er vænst af skjalasöfnum sem stofnunum í samfélaginu og hvaða hlutverki eiga skjalasöfnin að gegna í samfélaginu?

Á ráðstefnunni verða eftirtalin þemu til umfjöllunar:

  • Stafræn þjónusta og stafræn miðlun.
  • Skjalasafnið sem uppspretta menningartengdrar starfsemi, skapandi greina og þróunar.
  • Skjalasafnið sem áfangastaður og rými á öld rafrænna gagna.
  • Þátttaka almennings og félagsleg meðvitund skjalasafna.

Hluti erindanna á ráðstefnunni mun verða gefinn út í greinasafni um miðlun skjalfræðilegs efnis.

Hér má sækja auglýsingu á norsku (804 Kb) um ráðstefnuna.

Vilt þú taka þátt?

Gætir þú hugsað þér að halda erindi á ráðstefnunni eða birta grein í greinasafninu? Erindið (20 mínútur) eða greinin má gjarnan vera samantekt á þema, umræða um rannsóknarspurningu eða kynning á góðu verkefni. Lýsing á erindinu eða greininni (400 orð á norðurlandamáli) sendist fyrir 15. júní á netfangið ranveig.gausdal@kulturrad.no.