Orðabelgur formlega opnaður

miðvikudagur, 27. maí 2020 - 14:30
  • Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og Björk Ingimundardóttir sagnfræðingur.
    Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og Björk Ingimundardóttir sagnfræðingur.
  • Benedikt Jónsson og Björk Ingimundardóttir.
    Benedikt Jónsson og Björk Ingimundardóttir.

Í gær var formlega opnaður vefurinn Orðabelgur – Sögulegt hug­taka­safn Þjóð­skjala­safns Íslands, sem geymir safn hugtaka, orða, skammstafana og tákna sem Björk Ingimundardóttir sagnfræðingur hefur dregið saman og skýrt.

Benedikt Jónsson verkefnisstjóri skýrði frá efnisskipan vefjarins og Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður sagði frá heiti safnsins og verkefninu í heild, óskaði Björk til hamingju með verkið og færði henni blóm í tilefni áfangans.

Björk Ingimundardóttir, sagnfræðingur og fyrrverandi skjalavörður og sviðsstjóri í Þjóðskjalasafni Íslands, hefur á löngum ferli sínum grafist fyrir um innihald ýmissa hugtaka og fyrirbrigða, skýrt orð og orðasambönd og fundið merkingar tákna og skammstafana í margvíslegum skjölum og gögnum sem hún hefur farið höndum um og rýnt í um dagana. Þessu hefur hún haldið samviskusamlega til haga og á þessum vef má sjá afraksturinn.

Orðabelgur er hluti af stafrænu útgáfusafni Þjóðskjalasafns Íslands, heimildir.is, og er gert ráð fyrir að fleiri muni leggja orð í belginn þegar fram líða stundir.

Skoða Orðabelginnn.

Horfa á myndband frá opnun Orðabelgs.