Ólafur Ásgeirsson kvaddur

miðvikudagur, 21. nóvember 2012 - 9:15
  • Ólafur Ásgeirsson kvaddur
    Ólafur Ásgeirsson kvaddur
  • Ólafur Ásgeirsson kvaddur
    Ólafur Ásgeirsson kvaddur
  • Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður flytur ávarp
    Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður flytur ávarp
  • Gestir hlýða á ávarp Ólafs Ásgeirssonar
    Gestir hlýða á ávarp Ólafs Ásgeirssonar

Ólafur Ásgeirsson lét af starfi þjóðskjalavarðar af heilsufarsástæðum 1. júní síðastliðinn. Síðastliðinn föstudag var honum haldið kveðjuhóf í Þjóðskjalasafni Íslands. Þar voru samankomnir samstarfsmenn Ólafs frá ýmsum tímum og úr ýmsum störfum.

Ólafur var fyrsti skólameistari Fjölbrautaskólans á Akranesi, síðar Fjölbrautaskóla Vesturlands, aðeins 29 ára gamall og gegndi því starfi í sjö ár. Hann var skipaður þjóðskjalavörður frá 1. desember 1984 og hafði gegnt því embætti í tæplega 28 ár þegar hann hætti störfum, lengur en nokkur annar sem hefur setið í því embætti frá upphafi vega.

Ólafur hefur á starfsferli sínum sem þjóðskjalavörður haft gagnger áhrif á þróun skjalamála á Íslandi og breytt Þjóðskjalasafni í framsækna og nútímalega stofnun sem starfar í alþjóðlegu umhverfi, en Ólafur hefur einmitt verið mjög virkur fyrir hönd safnsins og Íslands á alþjóðavettvangi. Hann átti sæti í framkvæmdastjórn Alþjóða skjalaráðsins (ICA) um tíma og hefur gegnt formennsku í nefndum á vegum þess.

Ólafur var skátahöfðingi Íslandis árin 1995-2004. Hann hefur verið forseti Hins íslenska þjóðvinafélags síðan árið 1999 og setið í stjórn þess frá árinu 1988. Æðsta heiðursmerki íslensku skátahreyfingarinnar, Silfurúlfinn, fékk hann árið 1995, hina íslensku fálkaorðu árið 1998, Chevalier d´ordre des Arts et des Lettres frá franska ríkinu 2005, Goda Diploma frá ríkisskjalasafninu í Litháen 2007 og Goldene Bundesabzeichen des Frankenbundes sama ár år. Heiðursfélagi Alþjóða skjalaráðsins varð Ólafur árið 2010. Ólafur er félagi í Vísindafélagi Íslendinga, Kungliga Samfundet för utgivande av handskrifter rörande Skandinaviens historia og Societa Italiana Di Demografica Storica.

Starfsfólk Þjóðskjalasafns Íslands óskar Ólafi Ásgeirssyni allra heilla á komandi árum, þakkar honum einkar ánægjuleg kynni og kveður farsælan og virtan leiðtoga til margra ára.