Nýjar reglur um afhendingu á vörsluútgáfum gagna til umsagnar

þriðjudagur, 9. júlí 2013 - 15:30
  • Stafræn gögn
    Stafræn gögn

Árið 2009 setti Þjóðskjalasafn Íslands reglur um rafræn opinber gögn og skil á þeim. Þær voru svo birtar í Stjórnartíðindum árið 2010. Reglurnar byggjast á aðferðafræði danska ríkisskjalasafnsins við langtímavörslu rafrænna gagna afhendingarskyldra aðila.

Reglurnar sem tóku gildi 1. ágúst 2010 eru þrenns konar; reglur nr. 624/2010 um tilkynningu og samþykkt rafrænna skjalavörslukerfa afhendingarskyldra aðila, reglur nr. 625/2010 um tilkynningu rafrænna skráa og gagnagrunna afhendingarskyldra aðila og reglur nr. 626/2010 um afhendingu á vörsluútgáfum gagna úr rafrænum gagnakerfum afhendingarskyldra aðila.

Þjóðskjalasafn Íslands hefur undanfarið ár unnið að þýðingu og staðfærslu á nýjum reglum um afhendingu á vörsluútgáfum gagna úr rafrænum gagnakerfum afhendingarskyldra aðila og munu þær kom í stað reglna nr. 626/2010.  Fyrirhugað er að láta nýjar reglur um afhendingu á vörsluútgáfum gagna taka gildi í byrjun september 2013. Nýju reglurnar eru þýðing og staðfæring á reglum sem danska ríkisskjalasafnið setti haustið 2010 (Bekendtgørelse nr. 1007 af 20. august 2010 om arkiveringsversioner).

Þjóðskjalasafn Íslands óskar eftir umsögnum um nýjar reglur og viðauka sem þeim fylgja. Frestur til að skila inn umsögn um reglurnar og viðaukana er til og með 9. ágúst 2013. Rétt er að benda á að viðaukar með reglunum eru tæknilegir staðlar um skil á gögnum skv. skilgreiningu danska ríkisskjalasafnsins. Breytingar og frávik á viðaukum frá skilgreiningu danska ríkisskjalasafnsins eru því háðar aðkomu danska ríkisskjalasafnsins og samþykki þeirra. Allar athugasemdir á þýðingu og texta eru vel þegnar.

Drög að reglum um afhendingu á vörsluútgáfum rafrænna gagnakerfa afhendingarskyldra aðila má nálgast hérna.

Til upplýsingar má nálgast dönsku útgáfuna af reglunum og viðaukunum hérna, einnig eru dönsku leiðbeiningarnar aðgengilegar hér.

Leiðbeiningar með reglunum og viðaukunum munu koma út á íslensku í kjölfar gildistöku reglnanna.

Umsagnir og fyrirspurnir skal senda á skjalavarsla@skjalasafn.is.