Mennta- og menningarmálaráðherra heimsækir Þjóðskjalasafn

mánudagur, 19. ágúst 2013 - 17:45
 • Mennta- og menningarmálaráðherra mátar grillsvuntuna
  Mennta- og menningarmálaráðherra mátar grillsvuntuna
 • Fundað um málefni Þjóðskjalasafns
  Fundað um málefni Þjóðskjalasafns
 • Mennta- og menningarmálaráðherra skoðar skjalasýningu
  Mennta- og menningarmálaráðherra skoðar skjalasýningu
 • Mennta- og menningarmálaráðherra skoðar túnakort í myndadeild Þjóðskjalasafns
  Mennta- og menningarmálaráðherra skoðar túnakort í myndadeild Þjóðskjalasafns
 • Mennta- og menningarmálaráðherra og þjóðskjalavörður ræðast við í skjalageymslu Þjóðskjalasafns
  Mennta- og menningarmálaráðherra og þjóðskjalavörður ræðast við í skjalageymslu Þjóðskjalasafns
 • Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður
  Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Þjóðskjalasafn Íslands ásamt föruneyti sl. föstudag. Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður tók á móti ráðherra ásamt starfsmönnum safnsins, kynnti honum starfsemi þess, helstu verkefni og húsakost.

Ráðherra heilsaði upp á starfsfólk safnins og þjóðskjalavörður færði honum að gjöf grillsvuntu með áprentaðri mynd úr Manntalinu 1703 sem sýndi heimilisfólk í Langholti, Hraungerðishreppi, Árnessýslu og þar á meðal Vigfús Hannesson (1654-1714) sýslumann og Guðríði Sigurðardóttur (1678-1707), en ráðherrann er af þeim kominn í níunda lið.

Ráðherra var kynnt hlutverk og starfsemi safnsins, þörf á geymslurými á komandi árum, aukið álag vegna afgreiðslu aðgangstakmarkaðra skjala svo og niðurstöður skýrslu um eftirlit með skjalavörslu opinberra stofnanna þar sem fram kemur að skjalavörslu þeirra er víða ábótavant.

Til sýnis voru nokkrir af helstu gullmolum safnsins, þmt. Reykholtsmáldagi, elsta pappírsbréfið, fundargerðarbók Þjóðfundarins, eiðstafir forseta og frumrit manntalsins 1703 svo nokkuð sé nefnt.

Farið var í skoðunarferð um húsakynnin þar sem starfsstöðvar myndadeildar, móttökuverkstæði rafrænna gagna svo og starfsstöðvar skjalasviðs voru heimsóttar. Farið var í hús 4 og 5 og geymsluaðstaðan skoðuð, bæði sú fullkomnasta með rafdrifnum þéttiskápum, rými þar sem unnið er undirbúningi á uppsetningu þéttiskápa og óinnréttuð geymslurými.

Ráðherrann gaf sér góðan tíma, spurði margs og ræddi mál safnsins af áhuga.