Málstofa um varðveislu rafrænna gagna

þriðjudagur, 3. maí 2016 - 17:45
  • Þjóðskjalasafn Íslands
    Þjóðskjalasafn Íslands

Þann 26. maí nk. stendur Þjóðskjalasafn Íslands fyrir málstofu um varðveislu rafrænna gagna í samvinnu við Ríkisskjalasafn Danmerkur. Tveir sérfræðingar í varðveislu rafrænna gagna frá Ríkisskjalasafni Danmerkur og fulltrúi frá Þjóðskjalasafni Íslands flytja erindi. Jan Dalsten Sørensen, forstöðumaður deildar rafrænnar skjalavörslu, og René Mittå, ráðgjafi í rafrænni skjalavörslu, munu flytja erindi um reglur, aðferðarfræði og val á skráarsniðum fyrir varðveislu rafrænna gagna. Garðar Kristinsson, skjalavörður á Þjóðskjalasafni, flytur erindi um stöðu rafrænnar skjalavörslu á Íslandi.

Reglur Þjóðskjalasafns Íslands um varðveislu rafrænna opinberra gagna byggjast á aðferðafræði danska ríkisskjalasafnsins. Á málstofunni er því gott tækifæri til að fræðast um vörslu rafrænna gagna frá fyrstu hendi.

Málstofan sem ber yfirskriftina „Ábyrgð stjórnsýslunnar - nútíma skjala- og gagnavarsla“ verður haldin í fyrirlestrarsal Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162 fimmtudaginn 26. maí kl 09:00 – 12:00. Verð á mann er 5.700 kr og er léttur morgunverður og kaffiveitingar innfalið í verði.

Sjá: upplýsingar um dagskrá og skráningu.