Hinar nýju Innréttingar – síðasti sýningarmánuðurinn

miðvikudagur, 8. janúar 2014 - 22:45
  • Frá sýningu Þjóðskjalasafns Íslands og Minjasafns Reykjavíkur í Aðalstræti 16
    Frá sýningu Þjóðskjalasafns Íslands og Minjasafns Reykjavíkur í Aðalstræti 16

Nú fer að líða að lokum á sameiginlegri sýningu Þjóðskjalasafns Íslands og Minjasafns Reykjavíkur í Aðalstræti 16 á munum og skjölum frá upphafi þéttbýlisbyggðar í Reykjavík á 18. öld. Tilefni sýningarinnar er 300 ára minning Skúla Magnússonar landfógeta (1711-1794). Hann var í forystu fyrir uppbyggingu handiðnaðar og vefnaðarstarfsemi um miðja 18. öld sem hafði mikil áhrif á þróun Reykjavíkur sem bæjar.

Á sýningunni er lögð áhersla á sögu 18. aldar og hvaða ljósi skjöl og munir geta varpað á elstu sögu Reykjavíkur sem bæjar. Ríkulegar heimildir eru til um starfsemi vefsmiðjanna í Þjóðskjalasafni Íslands og í Ríkisskjalasafni Dana í Kaupmannahöfn. Minjasafn Reykjavíkur stóð fyrir fornleifauppgreftri á þessu svæði á árunum 1971-1975 og aftur árið 2001 og er úrval þeirra gripa sem þá fundust til sýnis.

Sýningin er opin alla daga vikunnar kl 10:00 - 17:00 í Aðalstræti 16 og stendur út janúar 2014.