Fyrsta tölublað Nordisk Arkivnyt 2016

fimmtudagur, 14. apríl 2016 - 12:30
  • Forsíðumynd Nordisk Arkivnyt 1 • 2016
    Forsíðumynd Nordisk Arkivnyt 1 • 2016

Fyrsta tölublað Nordisk Arkivnyt á þessu ári er komið út, efnisríkt að vanda, alls 56 blaðsíður. Þar er að finna fréttir af starfsemi norrænu skjalasafnanna og fróðlegar greinar sem henni tengjast.

Eiríkur G. Guðmundsson ritar grein um viðburðaríkt ár í Þjóðskjalasafni Íslands. Árið 2015 kynnti safnið nýja stefnu, tók í notkun nýtt merki og setti nýjar reglur um skjalavörslu byggðar á nýjum lögum, nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn. Einnig var ársfundur Alþjóða skjalaráðsins (ICA) haldinn á Íslandi í september á síðasta ári og þótti takast vel.

Rögnvaldur Gunnar Gunnarsson ritar um dóm hæstaréttar nr. 329/2014 um aðgengi að skjölum íslensku bankanna sem féllu í bankahruninu 2008 og Helga Jóna Eiríksdóttir skjalavörður skrifar um mælikvarða til að meta þroskastig skjalavörslu í opinberum stofnunum. Þá er sagt frá þátttöku Íslands í norrænum skjaladegi og greint frá útgáfu Þjóðskjalasafns á sýnisbók um skjöl í Þjóðskjalasafni og bók um manntalið 1703.