Endurnýjuð eyðublöð

fimmtudagur, 6. desember 2012 - 14:30
  • Rafræn eyðublöð
    Rafræn eyðublöð

Þjóðskjalasafn hefur unnið að því síðustu mánuði að uppfæra og endurbæta eyðublöð sem afhendingarskyldir aðilar þurfa að fylla út. Eyðublöðin varða alla þætti skjalavörslu, en til að byrja með munu eyðublöð fyrir grisjun, afhendingu á pappírsskjölum og um tilkynningu rafrænna gagnakerfa vera uppfærð. Tilgangur breytinganna er gera þau einfaldari og nútímalegri, bæði fyrir afhendingaskylda aðila og fyrir Þjóðskjalasafn svo öll úrvinnsla verði auðveldari. Þá verður gerð sú krafa að öll eyðublöð verði send rafrænt á netfangið skjalavarsla á skjalasafn.is, en enn um sinn mun þurfa að prenta út nokkur eyðublöð og senda Þjóðskjalasafni undirrituð af forstöðumanni stofnunar.
Fyrstu endurnýjuðu eyðublöðin hafa verið uppfærð og eru aðgengileg á vef safnsins, en það eru eyðublöð fyrir tilkynningu um rafræn skjalavörslukerfi og tilkynning fyrir rafrænt dagbókakerfi, en sú tilkynning nær einnig yfir úrelt tölvukerfi. Stofnanir eru hvattar til að tilkynna úrelt tölvukerfi sem allra fyrst til Þjóðskjalasafns og fá úrskurð um varðveislugildi þeirra. Í könnun sem Þjóðskjalasafn gerði í febrúar og mars 2012 kom í ljós að fjöldi stofnana eru með úrelt tölvukerfi sem kunna að geyma mikilvægar upplýsingar sem ber að varðveita og er hið nýja eyðublað viðbrögð við þeirri niðurstöðu.