Eiríkur G. Guðmundsson skipaður þjóðskjalavörður

miðvikudagur, 28. nóvember 2012 - 14:30
  • Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður
    Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað Eirík G. Guðmundsson í embætti þjóðskjalavarðar til fimm ára.
Eiríkur hefur starfað í Þjóðskjalasafni Íslands frá árinu 2001, lengst af sem sviðsstjóri upplýsinga- og útgáfusviðs, en sl. eitt og hálft ár sem settur þjóðskjalavörður í forföllum Ólafs Ásgeirssonar fyrrverandi þjóðskjalavarðar.
Áður starfaði Eiríkur sem rektor Menntaskólans við Sund, aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskóla Vesturlands (FVA), áfangastjóri og kennari við sama skóla.
Eiríkur lauk BA prófi í sagnfræði og íslensku frá Háskóla Íslands auk kennsluréttinda og cand. mag. prófi í sagnfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2009.
Eiríkur hefur haft umsjón með innleiðingu langtímavarðveislu rafrænna skjalasafna hins opinbera, aðgengismálum og þjónustu við almenning. Hann hafði m.a. forgöngu um gerð skólavefs Þjóðskjalasafns og vefbirtingu manntala. Eiríkur var ritstjóri Nordisk Arkivnyt, fagtímarits norrænna ríkis- og þjóðskjalasafna, á árunum 2005-2009.