Bráðabirgðaraðstaða vegna viðgerða á lestrarsal

þriðjudagur, 28. apríl 2020 - 11:30
  • Bráðabirgðaraðstaða í fyrirlestrarsal Þjóðskjalasafns.
    Bráðabirgðaraðstaða í fyrirlestrarsal Þjóðskjalasafns.

Lestrarsalur Þjóðskjalasafns opnar að nýju þann 4. maí nk. en þá verður heimilt að opna söfn að nýju samkvæmt auglýsingu stjórnvalda um breytingar á samkomubanni. Hafnar eru framkvæmdir vegna endurbóta á lestrarsalnum sem miða að því að bæta aðstöðu og öryggi gesta, starfsfólks og safnkosts. Stefnt er að því að opna endurbættan lestrarsal í ágúst næstkomandi.

Á meðan framkvæmdir á lestrarsal standa yfir, verður í boði bráðabirgðaraðstaða í fyrirlestrarsal á 3. hæð í húsi Þjóðskjalasafns á Laugavegi 162. Aðgengi er um aðalinngang að afgreiðslu og skrifstofum safnsins. Þegar farið er inn í portið, þar sem bílastæði gesta og starfsfólks eru, er sá inngangur á hægri hönd. Afgreiðslutími lestrarsalar verður eins og áður, þ.e. mánudaga til fimmtudaga kl. 10-17 og föstudaga kl. 10-16.

Gestir safnsins eru beðnir um að sýna þolinmæði þar sem um bráðabirgðaaðstöðu er að ræða. Þeim tilmælum er jafnframt beint til gesta, meðan lestrarsalur er tímabundið starfræktur í fyrirlestrarsal safnsins, að takmarkanir verða á hversu lengi skjalapantanir bíða eftir þeim á lestrarsal og eru gestir því hvattir til að vitja pantana strax og þær hafa verið afgreiddar á lestrarsal.

Eftir sem áður verða fjöldatakmarkanir á lestrarsal til að tryggja nálægðartakmörkun skv. 4. gr. auglýsingar nr. 360/2020 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar frá 21. apríl 2020.

Leiðbeiningar til gesta:

  • Hámarksfjöldi á lestrarsal eru 9 gestir í einu.
  • Sprittið hendur áður en gengið er inn í lestrarsal.
  • Gerið vart við ykkur í afgreiðslu og farið ekki nær afgreiðslu en sem nemur borða sem er á gólfinu.
  • Starfsmaður úthlutar ykkur sæti og farið ekki nær öðrum gestum en sem nemur tveimur metrum.
  • Starfsmaður afgreiðir ykkur um skjöl sem pöntuð hafa verið á lestrarsal.
  • Fylgið fyrirmælum starfsmanns.

Gestir sem ætla að skoða skjöl á lestrarsal þurfa að senda pantanir á netfangið upplysingar@skjalasafn.is.