Björk Ingimundardóttir 70 ára

fimmtudagur, 22. ágúst 2013 - 15:30
 • Björk Ingimundardóttir með gjöf frá samstarfsmönnum
  Björk Ingimundardóttir með gjöf frá samstarfsmönnum
 • Skreyttur salur og girnilegt veisluborð
  Skreyttur salur og girnilegt veisluborð
 • Afmælisbarnið ávarpar gesti
  Afmælisbarnið ávarpar gesti
 • Gestir hlýða á ávarp afmælisbarnsins
  Gestir hlýða á ávarp afmælisbarnsins
 • Gestir hlýða á ávarp afmælisbarnsins
  Gestir hlýða á ávarp afmælisbarnsins
 • Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður færir Björku gjöf frá samstarfsmönnum
  Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður færir Björku gjöf frá samstarfsmönnum
 • Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður og samstarfsmaður Bjarkar um árabil flytur ræðu
  Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður og samstarfsmaður Bjarkar um árabil flytur ræðu
 • Björgvin Magnússon og Helga Jóna Eiríksdóttir ræðast við
  Björgvin Magnússon og Helga Jóna Eiríksdóttir ræðast við
 • Jón Torfason hefur orðið. Eiríkur G. Guðmundsson, Njörður Sigurðsson, Gísli Baldur Róbertsson og Einar Laxness fylgjast með
  Jón Torfason hefur orðið. Eiríkur G. Guðmundsson, Njörður Sigurðsson, Gísli Baldur Róbertsson og Einar Laxness fylgjast með
 • Björgvin Magnússon, Jón Páll Andrésson og Jón Ásgeir Jónsson spjalla saman
  Björgvin Magnússon, Jón Páll Andrésson og Jón Ásgeir Jónsson spjalla saman
 • Hluti veislugesta
  Hluti veislugesta
 • Björk á tali við Halldór Ármannsson efnafræðing
  Björk á tali við Halldór Ármannsson efnafræðing

Björk Ingimundardóttir sagnfræðingur fagnaði í gær 70 ára afmæli sínu, en afmælisdagurinn var í raun 15. ágúst. Ættingjar, vinir og samstarfsmenn Bjarkar fögnuðu þessum áfanga með afmælisbarninu í Þjóðskjalasafninu í gær.

Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður og Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður héldu ræður og þökkuðu Björku vönduð og vel unnin störf á hennar farsæla starfstíma í Þjóðskjalasafni. Eiríkur færði Björku afmælisgjöf frá starfsmönnum safnins.

Björk hóf störf hjá Þjóðskjalasafninu 1. desember 1971 og hefur því starfað þar í tæp 42 ár. Hún varð fljótt lykilstarfsmaður í safninu, enda býr hún að óvenju yfirgripsmikilli þekkingu á Íslandi og íslenskri sögu og þekkir innviði Þjóðskjalasafnsins líklega betur en nokkur annar. Hún var deildarstjóri lestrarsalar um árabil, hafði umsjón með gagnaöflun fyrir Óbyggðarnefnd vegna þjóðlendumála og sá um útgáfu fyrsta bindis af verkinu Yfirrétturinn á Íslandi ásamt Gísla Baldri Róbertssyni og ritaði gagnmerkan inngang að því. Hún hefur tekið saman skjalaskrár, skrifað leiðbeiningar, afgreitt fyrirspurnir, leiðbeint fræðimönnum, afgreitt á lestrarsal, skipulagt sýningar, flutt erindi heima og erlendis, tekið á móti nemendum, almenningi og erlendum gestum í heimsóknum hingað, samið handbækur og gefið út fræðibækur. Margt fleira hefur Björk starfað til heilla fyrir Þjóðskjalasafn og íslensk fræði. Undanfarin misseri hefur Björk unnið að miklu verki sem er saga prestakalla- og sókna frá öndverðu og til okkar daga. Það verður grundvallarrit og verður vonandi gefið út fljótlega.

Björk er mikilvirkur, vandaður og vel metinn fræðimaður á sviði sagnfræði. Auk ritstarfa tengdum störfum hennar fyrir Þjóðskjalasafn hefur hún ritað bækur og greinar um borgfirska sögu og ýmislegt fleira. Árið 2011 var hún útnefnd heiðursfélagi Sagnfræðingafélags Íslands.

Björk hefur nú látið af störfum, en hefur enn um sinn aðsetur í húsakynnum Þjóðskjalasafns við rannsóknarstörf. Það er samstarfsmönnum hennar gleðiefni að geta áfram notið hennar góðu ráða og traustu þekkingar.