Afhending einkaskjalasafns Svavars Gestssonar

fimmtudagur, 15. nóvember 2012 - 20:15
  • Svavar Gestsson og Eiríkur G. Guðmundsson settur þjóðskjalavörður
    Svavar Gestsson og Eiríkur G. Guðmundsson settur þjóðskjalavörður

Svavar Gestsson, fyrrum ráðherra, afhenti þann 15. nóvember Þjóðskjalasafni Íslands einkaskjalasafn sitt til varanlegrar varðveislu. Svavar hefur áratugi verið áberandi í íslensku þjóðfélagi. Hann var m.a. blaðamaður og ritstjóri Þjóðviljans 1971-1978, þingmaður 1978-1999, viðskiptaráðherra 1978-1979, félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1980-1983 og menntamálaráðherra 1988-1991. Þá var hann formaður Alþýðubandalagsins 1980-1987 auk þess sem hann sat í mið- og framkvæmdastjórn flokksins um árabil. Eftir að þingmennsku lauk var Svavar um árabil sendiherra Íslands í Kanada, Svíþjóð og Danmörku.
Í skjalasafni Svavars er að finna margvísleg gögn er tengjast hans störfum í gegnum tíðina og einkalífi. Þá eru í safninu afrit skjala úr Þýska þjóðskjalasafninu er varða samskipti Íslands og Austur-Þýskalands.
Fyrir Þjóðskjalasafn er mikilvægt að fá til varðveislu skjalasöfn stjórnmálamanna sem hafa starfað á landsvísu en í þeim eru oftar en ekki skjöl er varða þeirra stjórnmálaþátttöku sem eru mikilvæg viðbót við skjalasöfn ráðuneyta og Alþingis sem Þjóðskjalasafni ber að varðveita lögum samkvæmt.
Nú er unnið að frágangi og skráningu á skjölum Svavars og verður það gert aðgengilegt almenningi og fræðimönnum frá og með 1. mars 2013.