Rafræn einkaskjalasöfn

Þjóðskjalasafn Íslands tekur til varðveislu skjalasöfn einkaaðila sem eru á rafrænu formi. Nánast öll skjöl sem myndast nú til dags eru á rafrænu formi og því eðlilegt að slík skjöl séu einnig varðveitt á þann hátt til framtíðar. Möguleiki er að varðveita hluta rafrænna skjala með því að prenta þau út á pappír en með því tapast þó ýmsir eiginleikar rafræna skjalsins, t.d. leitarmöguleikar. Auk þess er ekki mögulegt að varðveita vissar rafrænar upplýsingar á pappír heldur eingöngu á rafrænu formi. Má þar t.d. nefna hljóðskrár, myndskeið og ýmsa gagnagrunna.

Skjalasöfn einkaaðila geta samanstaðið af rafrænum skjalavörslukerfum og gagnagrunnum fyrirtækja, rafrænum dagbókum, bréfum, skýrslum, ljósmyndum og tölvupóstum einstaklinga o.s.frv. óháð á hvaða rafrænu formi skjölin eru vistuð á.

Hafi einkaaðili hug á að afhenda rafræn skjöl sín til varðveislu þá er best að hafa samband við skjalaverði Þjóðskjalasafns og verður þá ákveðið í samráði við afhendingaraðila hvernig best er að standa að afhendingunni. Senda má tölvupóst á netfangið skjalavarsla@skjalasafn.iseða hafa samband í gegnum síma 590 3300.

Sjá einnig upplýsingar um rafræna skjalavörslu opinberra aðila.