Hvað eru einkaskjalasöfn?

Einkaskjalasöfn eða einkaskjöl nefnast þau skjöl sem ekki eru mynduð af opinberum aðilum eða öðrum sem skyldir eru að skila skjölum til opinberra skjalasafna. Þar er um að ræða skjöl einstaklinga, hjóna, fjölskyldna, jafnvel margra ættliða. Þá teljast skjöl félaga, fyrirtækja og annarra óopinberra aðila til einkaskjala.

Hefð hefur skapast á Íslandi að flokka einkaskjalasöfn í eftirfarandi flokka:

  • Einstaklingar og fjölskyldur
  • Fyrirtæki
  • Félagasamtök

Einkaskjöl geta verið ákaflega margbreytileg, svo sem fæðingar- og hjónavígsluvottorð, prófskírteini, eignaskjöl, samningar, einkabréf, handrit að hvers konar ritsmíðum, fundargerðabækur, bókhaldsgögn og alls kyns reikningar og þannig mætti lengi telja. Uppskriftir skjala og handrita annarra, jafnvel prentaðra bóka, teljast einnig til einkaskjala. Þá teljast ljósmyndir og myndskeið til skjala.