Desember 2023

Jólahald á heimili Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur í Kaupmannahöfn

Á Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar heimildir af ýmsu tagi sem veita tækifæri til þess að líta inn í horfna veröld hins daglega lífs. Þær veita meðal annars innsýn í jólahald á heimili forkólfs sjálfstæðisbaráttunnar Jóns Sigurðssonar, forseta Hins íslenska bókmenntafélags, og eiginkonu hans, Ingibjargar Einarsdóttur. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar, sem er mikið safn að vöxtum og fjallað var sérstaklega um í heimild mars- og nóvembermánaða 2023, hefur að geyma fjölbreytilegar heimildir um lífið í aðdraganda jóla og jólahátíðina á heimili hjónanna. 

Ingibjörg og Jón bjuggu lengst af við Austurvegg í útjaðri Kaupmannahafnar, nánar tiltekið á Østervoldgade 486 b. Þangað fluttu þau árið 1852. Þá voru íbúar Kaupmannahafnar um 150 þúsund. Í desember voru jólin jafnan undirbúin eins og borgaralegir siðir buðu. Nýjar venjur eins og að setja upp jólatré og senda jólakort fundu sér leið inn í jólahaldið á nítjándu öld. Þessi áhrif komu að utan. Jólatré voru til dæmis þýsk hefð sem barst til Danmerkur og Kaupmannahafnar eftir aldamótin 1800. 

Undirbúningur jólanna á heimili Ingibjargar og Jóns var margháttaður. Á minnissneplum frá Ingibjörgu, sem líkjast um margt „post-it“ miðum okkar tíma, leynast ýmsar vísbendingar um jólaundirbúninginn og veislurnar sem haldnar voru. Það gefur hugmynd um matseldina á heimilinu að rýna í þessa minnismiða fyrir jólainnkaupin. Danskt yfirbragð hvíldi greinilega yfir jólahaldinu við Austurvegg þó að þar hafi einnig verið hangikjöt og fleira íslenskt góðgæti á boðstólum. Ingibjörg viðaði að sér veisluföngum í aðdraganda jólahátíðarinnar. Keypt var gæs og héri, vín og romm, kerti, kökur, epli og appelsínur og hveiti. Þá voru á listanum hrísgrjón, mjólk og rjómi svo greinilega átti að halda góða veislu með dönskum möndlugraut. Frásagnir herma að í áramótaveislunum á heimilinu hafi verið boðið upp á danska jólagæs og yfir borðum var drukkið sérrý, rauðvín og púrtvín. Á minnismiða merktum 20. desember 1864 er skráð kálfahöfuð, kjöt, egg, fiskibollur, mergur, hálfpottur af rommi svo það helsta sé nefnt. 

Veislurnar við Austurvegg kröfðust skipulagningar. Ingibjörg þurfti til dæmis að velja vínkaröflur og bolla fyrir jólin 1872. Fyrir valinu urðu tvær karöflur og fjórir bollar hjá G. F. Bloch á Amagertorgi. Búðarápið í Kaupmannahöfn fyrir jólin hefur verið heillandi enda ríkti hátíðar- og eftirvæntingarandi á einni helstu verslunargötu Kaupmannahafnar, Austurgötu eða Strikinu eins og það er oft nefnt, á þessum árstíma. Þangað leitaði Ingibjörg til að kaupa jólagjafir og skoða stáss í búðum og búðargluggum og undirbúa jólahaldið fyrir sig og sína. Jólin voru og eru hátíð barnanna. Ingibjörg og Jón lögðu sig því fram um að jólin yrðu sem hátíðlegust og hlýlegust fyrir systurson Jóns, Sigga litla, fósturson þeirra hjóna sem flutti til þeirra frá Íslandi haustið 1859 og sömuleiðis systkinabörn Ingibjargar og önnur þau börn sem dvöldu á heimilinu vetrarlangt er leita þurfti þeim læknishjálpar. 

Séra Matthías Jochumson, sem skrifaði í endurminningum sínum um hjónin Ingibjörg og Jón, var boðinn til þeirra á aðfangadagskvöld árið 1871 en komst ekki því hann hafði þá þegar þegið annað heimboð. Matthías segir í bréfi til Jóns á Þorláksmessu: „[H]já ykkur vildi jeg helzt hafa verið það kvöld.“ Hann spyr svo hvort hann gæti fengið að koma þess í stað á jóladag eða þá um kvöldið.  

Hátíðarlífið í Höfn var ekki það eina sem komst að í huga hjónanna á þessum árstíma. Einnig þurfti að rækta sambandið við vini, samstarfsmenn og ættingja á Íslandi og Englandi. Frá Guðbrandi Vigfússyni málfræðingi, sem bjó í Oxford, barst þeim hjónum jóla- og nýárskveðja á fallegu jólakorti árið 1877. Góðar fréttir af ástvinum á Íslandi voru ómetanlegar á jólum. Bréfaskrif og lestur bréfa að heiman voru því einnig snar þáttur í hátíðahaldinu. Hjónin fengu nýárs- og jólaóskir frá vinum, ættingjum og kunningjum og hugur þeirra hefur líklega oft verið að hálfu heima á Íslandi yfir hátíðirnar. Bréf frá Ólafi bróður Ingibjargar, Margréti systur Jóns, Gísla Hjálmarssyni lækni og konu hans Guðlaugu Guttormsdóttur og fleiri ættingjum og vinum hafa líklega verið tekin upp í mikilli eftirvæntingu og sum hver lesin upphátt.  

Jóla- og áramótaveislur Ingibjargar og Jóns voru margrómaðar. Tryggvi Gunnarsson, alþingismaður og bankastjóri, lýsti í dagbók sinni einni slíkri veislu á gamlárskvöld árið 1863. Þar var fjórréttað og eftir matinn var spilað fram eftir. Hjónin hafa viljað sýna mikla gestrisni og fengu hestakerrur til að sækja gesti í veislulok að Austurvegg. Það voru gestgjafarnir sjálfir sem reiddu fram uppsett gjald og síðan stigu gestirnir í vagninn og héldu heimleiðis. Náttúrufræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen, sem hóf nám í Höfn árið 1875, lýsti jólaboðunum hjá Jóni og Ingibjörgu svo:

Um jólin hjelt Jón Sigurðsson vanalega ýmsum kunningjum sínum jólaboð, og var eg í þeim tvisvar sinnum. Var þá haft með mat ungarskt vín frá Bauer vínsala í Tordenskjoldsgade, sem landar skiftu töluvert við, þeir sem betur voru fjáðir. 

Ingibjörg Jensdóttir, bróðurdóttir Ingibjargar, sem dvaldi hjá frændfólki sínu einn vetur, sagði að „á gamlárskvöld 1877“ hefði Jón gefið „öllum gestunum almanak fyrir árið 1878, öll í bandi, sitt með hverjum lit. Hann hélt almanökunum í höndum sér eins og spilum og lét hvern gest draga sitt almanak.“ Það hefur því greinilega verið mikill bragur yfir veislunum.   

Rétt fyrir jól sendu hjónin út boðskort í hátíðarveislurnar. Vinir þeirra hjóna og kunningjar fengu formlegt boð. Sumir þurftu að afþakka gott boð en aðrir þáðu boð frá íslensku heiðurshjónunum við Austurvegg með þökkum. Á Þorláksmessu árið 1875 sendir Sigurður L. Jónasson, góðvinur þeirra, þeim orðsendingu þar sem kemur fram að hann þakki þeim „vinsamlega heimboð annað kvöld“. Sigurður segist koma „með ánægju, ef guð lofar mjer að lifa næstu jólanótt“. Indriði Einarsson, síðar skrifstofustjóri stjórnarráðsins, rifjaði upp þetta jólaboð. Indriði nefnir að helstu gestir hjá Ingibjörgu og Jóni hafi, auk Sigurðar, verið kaupmennirnir Ásgeir Ásgeirsson á Ísafirði, Hjálmar Johnsen, kaupmaður í Flatey, og Markús Snæbjörnsson á Patreksfirði, Magdalena Zoëga, fröken Sigríður Helgason, sem var matráðskona á Friðriksspítalanum, Þorlákur Ó. Johnsen og Tryggvi Gunnarsson. Af ungum mönnum í Höfn á þessum árum sóttu til dæmis Björn Jónsson, síðar ritstjóri, og Kristján Jónsson, síðar háyfirdómari, jólaveislurnar. Veislurnar hófust jafnan klukkan sjö og tóku hjónin þá fagnandi á móti gestum sínum. Samræðurnar snerust fyrst um fréttir að heiman og fljótlega var sest til borðs. Ingibjörg stýrði því hvernig sætaskipan var við borðið. Undir borðum var talað um heima og geima, ekki síst stjórnmál í Danmörku. Að loknu borðhaldi var komið að spilamennskunni. Spilaður var „goði“. Indriði lýsti leiknum með eftirfarandi hætti:

Þegar að því kom, að einhver ekki gat greitt, það sem honum bar, þá fór hann á sveitina, hjá þeim sem hann átti að greiða. Þótti það miklu varða, hjá hverjum maður komst á sveitina. Einkum ljet húsfreyja [Ingibjörg] sjer það miklu skifta, og gerði sjer mannamun í leiknum.

Keppnisandi réð því ríkjum á heimilinu við Austurvegg yfir jólahátíðina. Að spilinu loknu var svo boðið upp á drykk og setið að spjalli fram undir miðnætti.   

Eins og heimildir frá Jóni og Ingibjörgu, auk endurminninga samferðafólks, sýna lögðu heiðurshjónin kapp á það að halda gleðileg jól á íslenska heimilinu við Austurvegg. Þar var samhliða haldið upp á dönsk og íslensk jól og þá eins og nú var spilað og gert vel við sig í mat og drykk.

Höfundur kynningartexta: Margrét Gunnarsdóttir

Heimildir

  • ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. E.10–10.21. Einkaskjalasafn Jóns Sigurðssonar.
  • ÞÍ. E. 10. 4. Guðbrandur Vigfússon, nýárskveðja 1877.
  • ÞÍ. E. 10.10. Matthías Jochumson til Jóns Sigurðssonar, Kaupmannahöfn 23. desember 1871.
  • ÞÍ. E.10.10. Ólafur E. Johnsen til Jóns Sigurðssonar, Stað 8. janúar 1857. „Þá fjörutíu og átta er, ordin, aldurs ára, eg ástkjæri ætla þér, ord fáein ad pára; og er þá sjalfsagt fyrst að þakka þér fyrir þitt stutta en þó all góða bréf af 30. sept f. á. meðtekið kl 9 á gamlárskvöld; gladdi það mig að heyra þína og þinna vellíðan.“
  • ÞÍ. E. 10.13. Sigurður L. Jónasson til Jóns Sigurðssonar, Kaupmannahöfn 23. desember 1875.
  • ÞÍ. E.10.20. Jón Sigurðsson forseti. Reikningar og kvittanir.
  • Indriði Einarsson, Séð og lifað. Endurminningar (Reykjavík, 1972). 
    Margrét Gunnarsdóttir, Ingibjörg. Saga Ingibjargar Einarsdóttur, eiginkonu Jóns Sigurðssonar forseta (Reykjavík, 2011).
  • Matthías Jochumsson, Sögukaflar af sjálfum mér (Akureyri, 1922). 
    Valtýr Stefánsson, „Á jólum hjá Jóni Sigurðssyni. Frásögn Indriða Einarssonar,“ Þau gerðu garðinn frægan (Reykjavík, 1956).  
  • Valtýr Stefánsson, „Gamlar myndir og minningar. Frú Ingibjörg Jensdóttir segir frá,“ Myndir úr þjóðlífinu. Fimmtíu viðtöl (Reykjavík, 1958). 
  • Þorkell Jóhannesson, Tryggvi Gunnarsson I, Bóndi og timburmaður (Reykjavík, 1955), bls. 246–247.
  • Þorvaldur Thoroddsen, Minningabók I (Kaupmannahöfn 1922).
ÞÍ. E. 10. 4. Guðbrandur Vigfússon, nýárskveðja 1877. 
ÞÍ. E. 10. 4. Guðbrandur Vigfússon, nýárskveðja 1877. 2
ÞÍ. E. 10.10. Matthías Jochumson til Jóns Sigurðssonar, Kaupmannahöfn 23. desember 1871.
ÞÍ. E.10.20. Jón Sigurðsson forseti. Reikningar og kvittanir.
Paul Fischer. Juletravlhed på Østergade, Strøget, i København 1886.