Þroskastig skjalavörslu afhendingarskyldra aðila

föstudagur, 18. desember 2015 - 13:30
  • Þjóðskjalasafn Íslands
    Þjóðskjalasafn Íslands

Árið 2012 stóð Þjóðskjalasafn Íslands fyrir eftirlitskönnun á meðal afhendingarskyldra aðila ríkisins til að kanna stöðu skjalavörslu hjá hinu opinbera. Könnunin var send rafrænt á 207 aðila og af þeim svöruðu 173 stofnanir. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar í skýrslu sem kom út árið 2013. Nú hafa niðurstöður könnunarinnar verið unnar áfram og útbúið módel til að meta þroskastig skjalavörslu opinberra aðila. Til þess að meta stöðu einstakra stofnana og setja niðurstöður könnunarinnar í samanburðarhæft form voru fimm þroskastig skjalavörslu skilgreind út frá þeim lögum og reglum sem gilda um skjalavörslu afhendingarskylda aðila. Skilgreiningarnar ásamt nánari upplýsingum um módelið og niðurstöður þess má nálgast á vefsíðu Þjóðskjalasafns.

Þjóðskjalasafn áætlar að senda út nýja eftirlitskönnun á fyrri hluta næsta árs. Sú könnun verður með svipuðu sniði og hin fyrri og er tilgangurinn meðal annars að sjá hver þróunin hefur verið, á stöðu skjalavörslu afhendingarskyldra aðila, frá síðustu könnun. Vonumst við þannig til að geta sýnt fram á mælanlegan árangur af því góða starfi sem unnið hefur verið í skjalamálum hjá afhendingarskyldum aðilum undanfarin ár.