Menningargersemar á Landsskrá Íslands

miðvikudagur, 9. mars 2016 - 13:15
  • Viðtakendur staðfestingarskjala ásamt mennta- og menningarmálaráðherra
    Viðtakendur staðfestingarskjala ásamt mennta- og menningarmálaráðherra

UNESCO heldur úti skrá um Minni heimsins (Memory of the World Register) um mikilvæg menningarverðmæti heimsins sem hafa sérstakt varðveislugildi. Á þeirri skrá eru, meðal annarra gersema, handritasafn Árna Magnússonar og manntalið 1703.

Á síðasta ári stofnaði Landsnefnd Íslands formlega til Landsskrár Íslands um minni heimsins (Iceland‘s National Register) sem nær yfir menningararf sem er sérstaklega mikilvægur fyrir Ísland. Skráin er varðveitt af Íslensku UNESCO-nefndinni. Landsnefndin auglýsti jafnframt eftir fyrstu tilnefningum til skráningar í Landsskrá Íslands í apríl 2015. Frestur til að skila tilnefningum var til 1. nóvember 2015.

Í gær var athöfn í Þjóðskjalasafni Íslands, að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem tilkynnt um að fjögur menningarverðmæti hefðu verið samþykkt á Landsskrá Íslands. Þau eru:

  • Íslensk túnakort 1916-1929. Varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.
  • Kvikfjártalið 1703. Varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.
  • Passíusálmar Hallgríms Péturssonar - eiginhandarrit JS 337 4to. Varðveitt hjá Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni.
  • Konungsbók eddukvæða GKS 2365 4to. Varðveitt hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hægt er að lesa meira um þessar menningargersemar á vef Íslensku UNESCO nefndarinnar.