Landamerkjaþrætur og langdregin dómsmál á rannsóknadegi

þriðjudagur, 3. október 2023 - 12:45
  • Frá Benóní hefur varðveist einstakt kort sem hann teiknaði upp með nákvæmum skýringum um jörð sína
    Frá Benóní hefur varðveist einstakt kort sem hann teiknaði upp með nákvæmum skýringum um jörð sína
  • Kjartan Richter gaf innsýn í líf bóndans Benónís Guðlaugssonar á Glettingsnesi
    Kjartan Richter gaf innsýn í líf bóndans Benónís Guðlaugssonar á Glettingsnesi
  • Yfirrétturinn. Dómar og skjöl III
    Yfirrétturinn. Dómar og skjöl III

Fjölmenni sótti rannsóknadag Þjóðskjalasafns 28. september, sem að þessu sinni var helgaður þjóðlendurannsóknum og útgáfu þriðja bindis Yfirréttarins. Rúmlega fimmtíu gestir hlýddu á fjölbreytt erindi og sköpuðust skemmtilegar umræður um landamerki og sögu þeirra, deilur landeigenda sín á milli og við ríkið. Landamerkjum hefur verið lýst frá fyrstu árum byggðar og eru lýsingarnar oft á litríku máli með áhugaverðri notkun á landslagi (og steinum), eins og Jón Torfi Arason gerði að umtalsefni í erindi sínu. „Landamerki Dældarkots eru: úr eystri enda stóra hólmans í Nesvog, Mjóafirði, í Helguskarð, þaðan sjónhending í Grástein, frá Grásteini sjónhending í Þverkeldu, er liggur ofan í Flæðilæk alla leið út í lækjarbotn …“
Kjartan Richter gaf innsýn í líf bóndans Benónís Guðlaugssonar á Glettingsnesi sem átti í langvinnum deilum við nágranna sinn Skúla Björnsson á Brúnavík um Hvalvík og hlunnindi hennar. Frá Benóní hefur varðveist einstakt kort sem hann teiknaði upp með nákvæmum skýringum um jörð sína og landamerki. Kortið er varðveitt í Þjóðskjalasafni og var frumrit þess sýnt á rannsóknadeginum ásamt öðrum skjölum.
Í dómsúrskurðum um þjóðlendur er stuðst við heimildir frá fyrri öldum, í einstökum tilfellum jafnvel svo gömlum sem Landnámabók. Þorsteinn Magnússon, héraðsdómari og nefndarmaður í óbyggðanefnd, sagði frá þeim fjölbreyttu heimildum sem stuðst er við í rannsóknarvinnu nefndarinnar, en hún hefur það hlutverk að skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna.
Ólafur Arnar Sveinsson sagði frá „áreið á merki jarða“ eða „göngum á merki“, en það gerðu bændur með opinberu yfirvaldi og vitnum til að skera úr um landamerki sem svo voru skráð og staðfest af sýslumanni og „áreiðarmönnum“. Um þetta gátu einnig skapast deilur ef þess var ekki gætt að skrá áreiðina tímanlega. 
Margrét Gunnarsdóttir ræddi nýbýlatilskipunina árið 1776 þegar Dönum þótti tilhlýðilegt að hvetja íslenska bændur til að taka upp búskap á eyðijörðum eða óbyggðum svæðum, oft í heiðarbyggðum og á strjálbýlli svæðum. Skemmst er frá því að segja að þetta bar lítinn árangur, enda líklega ástæða fyrir því að bændur kusu síður að búa á hálendi Íslands.
Dagskrá rannsóknadagsins lauk með kynningum Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur og Ragnhildar Hólmgeirsdóttur á nýrri útgáfu þriðja bindis Yfirréttarins – Dómum og skjölum. Í þriðja bindinu, sem nær yfir árin 1716–1732, er sagt frá margvíslegum málarekstri, t.d. dulsmálum, meiðyrðamálum, árásum á dómara, drykkjulátum í kirkju, ásökunum um falskt þingsvitni, rekadeilum og þjófnaði.
Skjöl Yfirréttarins gefa einstaka innsýn í líf Íslendinga og rakti Ragnhildur sögu af löngum og ótrúlegum málarekstri þeirra Snæbjörns Pálssonar og Orms Daðasonar sem kom fyrir Yfirréttinn árið 1728 en hafði staðið í þónokkur ár áður.
Yfirrétturinn – Dómar og skjöl er gefinn út í samstarfi Þjóðskjalasafns Íslands og Sögufélags og er verkefnið styrkt af Alþingi.