Eru merkilegar heimildir í safninu þínu?

miðvikudagur, 29. apríl 2015 - 12:30
  • Minni heimsins
    Minni heimsins

Landsnefnd Íslands um minni heimsins auglýsir eftir fyrstu tilnefningum til skráningar á Landsskrá Íslands. Tilgangur UNESCO með verkefninu Minni heimsins (Memory of the World), ásamt samnefndri varðveisluskrá (Memory of the World Register), er að vekja athygli á mikilvægum skráðum menningararfi heimsins með því að útnefna skráðar heimildir sem hafa sérstakt varðveislugildi.

Landsnefnd Íslands leggur áherslu á skráningu heimilda sem eru mikilvægar fyrir allt landið. Árið 2009 var handritasafn Árna Magnússonar fært í skrána um minni heimsins og árið 2013 var manntalið 1703 fært í sömu skrá. Þessar skráningar eru til marks um mikilvægi þessara íslensku heimilda fyrir alla heimsbyggðina og tilheyra jafnframt Landsskrá Íslands. Skráning nýrra heimilda í landsskrána gætu síðar orðið hvati að umsóknum um skráningar á heimsskrá UNESCO.

Miðvikudaginn 13. maí 2015 verður haldið málþing til kynningar á Landsskrá Íslands um minni heimsins í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Málþingið stendur frá kl 14:00 - 16:00 og er öllum opið. Sjá nánar í fréttatilkynningu (PDF, 94 KB) og dagskrá (PDF, 95 KB).