Pappír

Samkvæmt skilgreiningu er ekta pappír þunnar arkir unnar úr trefjum plantna sem leystar hafa verið upp í vatni. Með því að nota fíngert net sem dregið er yfir mót má lyfta trefjunum upp úr vatninu og leggjast þær þá óreglubundið í þunnu lagi á netið en vatnið rennur burt og skilur eftir sig lag af gljálausum massa. Þetta er pappír, þ.e. þunnt lag af samanblönduðum plöntutrefjum.

Skilgreiningar á pappír

Hér fyrir neðan er skilgreining á pappír sem geyma á lengi, 50-150 ár, og svo aftur á pappír sem geyma á til frambúðar.

Gagnapappír/skrifstofupappír (ÍST EN ISO-9706)

Pappír, sem ætlaður er fyrir skjöl, sem geyma á lengi en ekki um alla framtíð, svo og sem undirlag teikninga og til gerðar hlífðarmappa fyrir þær. Gagnapappír á að geta varðveist í nothæfu ástandi í skjalageymslu í a.m.k. 50 ár. Gagnapappír/skrifstofupappír á að uppfylla skilyrði ÍST EN ISO-9706

Þjóðskjalasafn mælir með notkun 80 gr. pappírs auk þess að gagnapappír/skrifstofupappír beri Norræna umhverfismerkið, hvítan svan á grænum grunni, merki um langtímavarðveislu og sé merktur TCF (Totally Chlorine Free).

Nánari upplýsingar um staðla og merki.

Skjalapappír (ISO-11108)

Pappír, sem ætlaður er fyrir skjöl, sem geyma skjal um ókomna framtíð eða mjög lengi, svo og sem undirlag teikninga og tilgerðar hlífðarmappa fyrir þær. Skjalapappír á að geta varðveist í nothæfu ástandi í skjalageymslu í mörg hundruð ár. Skjalapappír á að uppfylla kröfur ISO-11108.

Skjalapappír á að uppfylla sömu skilyrði og gilda um gagnapappír/skrifstofupappír (ISO-9706) auk þess að vera:

  • unnin úr baðmull (bómull), hamp eða hör og má sömuleiðis innihalda eitthvert magn af bleiktum kemískum massa
  • hafa vikstyrk/brotþol minnst 2,18 (viktal minnst 150)

Þjóðskjalasafn mælir með notkun 80 gr. skjalapappírs.

Nánari upplýsingar um staðla og merki.

Endurunninn pappír

Árið 1990 fór Menntamálaráðuneytið þess á leit við Þjóðskjalasafn að það tæki afstöðu til notkunar endurunnins pappírs í Stjórnarráðinu. Í greinargerð frá safninu segir m.a:

Þjóðskjalasafn Íslands getur ekki mælt með notkun endurunnins pappírs í Stjórnarráði Íslands nema við gagnamyndun innan ákveðinna, skýrt afmarkaðra málaflokka. Gögn þessi hafi aðeins tímabundið gildi og komi skýrt fram í skjalavistunaráætlunum að þessum skjölum skuli eytt en frumgögn varðveitt á viðurkenndan pappír.

Heimild: Skjalavarsla stofnana, Handbók. Þjóðskjalasafn Íslands 1995, s. 45-46.

Styrkleiki pappírs ræðst í raun af lengd trefjanna, því lengri trefjar því sterkari pappír. Í hvert skipti sem pappír er endurunninn brotna trefjarnar en við það verður pappírinn lélegri. Það getur verið erfiðleikum bundið að vinna endurunnar trefjar úr úrgangspappír ef afurðin, t.d. ljósritunarpappír, á að upppfylla alþjóðlegar kröfur um varðveislustaðla og umhverfismerkingar. Þar skiptir mestu að erfitt getur verið að fjarlægja prentliti, lím og önnur efni, án þess að nota sterk efnasambönd eins og bleikiefni. Í pappír merktum umhverfismerkinu er þó gert ráð fyrri ákveðnu magni endurunninna trefja. 

Mikilvægt er að nota réttan pappír við skjalagerð, svo sem bréfsefni, fundargerðir, samninga og önnur þau skjöl sem miklu varða.