Nordisk Arkivnyt

Nordisk Arkivnyt

Tímaritið Nordisk Arkivnyt er gefið út af þjóð- og ríkisskjalasöfnunum á Norðurlöndunum. Árlega koma út fjögur blöð með greinum um ýmis málefni skjalasafnanna og fréttum af sviði rannsókna og skjalfræði.

Nordisk Arkivnyt kom fyrst út 1. mars 1956 í ritstjórn danska skjalavarðarins Harald Jørgensen. Fyrsta áratuginn eða svo hafði danska ríkisskjalasafnið veg og vanda af útgáfunni þó að öll norðurlöndin legðu til efni í blaðið. Árið 1966 stofnuðu ríkisskjalasöfnin á Norðurlöndunum útgáfuráð sem tók að sér rekstur blaðsins og hefur haft hann með höndum síðan. Í hverju útgáfulandanna er svæðisritstjóri sem aflar efnis fyrir blaðið í sínu landi. Aðalritstjórn blaðsins færist á milli landa þannig að hvert land, sem á aðild að útgáfunni, hefur aðalritstjórn með höndum í fimm ár.

Árin 2005-2009 var aðalritstjórn í höndum Eiríks G. Guðmundssonar sviðsstjóra upplýsingasviðs Þjóðskjalasafns Íslands. Frá og með 1. janúar 2010 færðist ritstjórnin yfir til Danmerkur í hendur Leon Jespersen.

Hægt er að fræðast meira um Nordisk Arkivnyt á vef tímaritsins.