Markmið

Þjóðskjalasafn er stærsta safn frumheimilda í sögu íslensku þjóðarinnar og þróun byggðar og mannlífs í landinu og er þess vegna sá grunnur sem rannsóknir, stjórnsýsla og mannréttindi hér á landi byggja á. Þjóðskjalasafn er skjalasafn allrar þjóðarinnar og hefur almenningur aðgang að safninu, bæði í afgreiðslu þess og á lestrarsal. Markmið safnsins miðast við lögbundið hlutverk þess og falla undir þrjú meginsvið:

 1. Skjalavörslu (varðveislu og forvörslu).
 2. Aðgengi, þjónustu og rannsóknir.
 3. Fræðslu og miðlun.

Með hliðsjón af ofangreindum markmiðum felst starfsemi Þjóðskjalasafns í meginatriðum í eftirfarandi atriðum:

 • Að tryggja örugga varðveislu skjala, hvort sem um er að ræða skinn, pappír, rafræn skjöl, eða annars konar gögn.
 • Að veita aðgang að skjölum í vörslu safnsins, hvort sem þess er óskað af persónulegum ástæðum eða í fræðilegum tilgangi, og tryggja með því réttindi einstaklinganna og stuðla að fræðilegum rannsóknum á sögu þjóðarinnar.
 • Að gera skjöl í vörslu safnsins aðgengileg almenningi og fræðimönnum með faglegri skráningu skjalasafna og með því að gera skrár yfir skjalasöfn í vörslu safnsins aðgengilegar, bæði á lestrarsal og á vefsíðu safnsins.
 • Að setja reglur og veita leiðbeiningar og ráðgjöf um skjalavörslu, m.a. með gerð og útgáfu handbóka og leiðbeiningarrita á prenti og á vefsíðu safnsins.
 • Að halda námskeið um skjalavörslu.
 • Að hafa eftirlit með skjalavörslu hins opinbera.
 • Að sinna fræðilegum rannsóknum á sviði skjalfræði og sagnfræði, eða í þágu sértækra verkefna í þeim tilvikum sem óskað er eftir slíkri þjónustu safnsins.
 • Að miðla völdum heimildum og þáttum í menningararfi þjóðarinnar sem safnið varðveitir, í prentuðum útgáfum eða á vefnum.
 • Að taka þátt í norrænni og alþjóðlegri samvinnu svo jafnan sé miðað við nýjustu þekkingu á fræðasviði safnsins.

Þetta eru langtímamarkmið sem sífellt er unnið að. Framgangur þeirra er háður fjárveitingum til safnsins, húsnæðisaðstæðum, tækjakosti og aðgangi að sérhæfðu starfsfólki. Á hverjum tíma er verkefnum, sem unnin eru til þess að fylla þessi markmið, forgangsraðað eftir áherslum og fjárveitingum hverju sinni.