Lagaumhverfi

Lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn kveða á um hlutverk og starfsemi safnsins. Auk þess er enn í gildi reglugerð um Þjóðskjalasafn Íslands frá 1916 þar sem eru ákvæði um starfsemi safnsins en sú reglugerð er að sumu leyti orðin úrelt.

Lög um opinber skjalasöfn mynda jafnframt lagaramma fyrir skjalavörslu opinberra aðila á Íslandi, bæði ríkis og sveitarfélaga. Á grundvelli laganna setur Þjóðskjalasafn reglur um skjalavörslu opinberra aðila og gefur út leiðbeiningar. Þjóðskjalasafn Íslands hefur ríku hlutverki að gegna í skjalavörslu opinberra aðila, m.a. með setningu reglna, ákvörðun um eyðingu skjala, samþykkt skjalavistunarkerfa og eftirliti með skjalavörslu opinberra aðila. Sjá reglur og leiðbeiningar Þjóðskjalasafns Íslands.

Þar sem héraðsskjalasöfn starfa er skjalavarsla sveitarfélaga jafnframt bundin af reglugerð nr. 283/1994 um héraðsskjalasöfn. Héraðsskjalasöfn fara með hlutverk Þjóðskjalasafns gagnvart þeim sveitarfélögum sem undir þau heyra, að undanskyldu setningu reglna og ákvörðun um eyðingu skjala sem Þjóðskjalasafn hefur eingöngu með að gera.

Upplýsingalög nr. 140/2012 og stjórnsýslulög nr. 37/1993 hafa jafnframt áhrif á skjalavörslu stjórnvalda en þau kveða m.a. aðgengi að skjölum. Þá má einnig nefna að lög nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga geta haft áhrif á myndun og meðhöndlun opinberra skjala.

Fleiri lög varða starfsemi Þjóðskjalasafns Íslands. Skjöl sem skiptastjóri tekur við frá gjaldþrotafyrirtækjum og hafa þýðingu fyrir gjaldþrotaskiptin á að afhenda á Þjóðskjalasafn skv. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Þá eiga allar sjúkraskýrslur látinna einstaklinga, hvort sem þær eru upprunnar á einkastofu læknis eða opinberum heilbrigðisstofnunum, að berast Þjóðskjalasafni Íslands sbr. 11. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Sjá leiðbeiningar um afhendingu þrotabúa og um afhendingu sjúkraskráa.